Skip to main content

1. Maí ávarp verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði 2016

By 1.05.2016April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized
Í upphafi skyldi endinn skoða, því skynsamleg úrlausn flókinna viðfangsefna samfélagsins hlýtur að ráðast að því markmiði sem stefnt er að. Fyrir átta árum, nánar tiltekið fimmtudaginn 9. október 2008 blasti við okkur sú staðreynd að stóru bankarnir þrír á Íslandi, Glitnir, Landsbanki og Kaupþing voru fallnir á eigin bragði og rústir einar, allir komnir í umsjá ríkisins. „Guð blessi Ísland“ sagði forsætisráðherra og eitt stærsta gjaldþrot sögunar var staðreynd. 
 
Hugmyndafræðin 2008 fól í sér bæði græðgisvæðingu og siðrof sem íslenskur almenningur hefur mátt blæða fyrir síðustu árin með atvinnuleysi, gjaldeyrishöftum og blóðugumniðurskurði í velferðar og heilbrigðisþjónustu. Nú í vor virtist landið vera að rétta úr kútnum að minnsta kosti samkvæmt hagtölum. Ráðamenn boðuðu nýtt góðæri með auknum atvinnutækifærum og fjárhagslegum viðsnúningi landsins. Þá skyndilega kom stóra bomban sem fólst í afhjúpun siðleysis í svonefndum Panama-skjölum sem var afrakstur alþjóðlegrar samvinnu íslenkra sem erlendra rannsóknarblaðamanna. 
 

Við vorum harkalega vakin til meðvitundar um það að hugmyndafræði græðgisáranna er enn til staðar. Nýtt siðrof var staðreynd. Okkur varð ljóst að pólitískir leiðtogar og stöndugustu „bændur“ þessa lands eiga og ávaxta fé sitt í öðrum gjaldmiðli utan krónuhagkerfisins okkar, í skattaskjólum í fjarlægum aflöndum. Mögulega löglegt en klárlega siðlaust því leyndin kemur í veg fyrir að hægt  að sannreyna að uppgefnar skattgreiðslur hér á landi séu í samræmi við þær eignir og tekjur sem leynast í skjólinu. Almenningur sem aldrei fyrr upplifir að tvær þjóðir byggi þetta land. 
 
Afhjúpunin leiddi til þessa að forsætisráðherra Íslands Sigmundur Davíð Gunnlaugsson  varð aðal umfjöllunarefni fréttamiðla heimsins sem og helstu pólitísku skopþátta allt frá Bretlandseyjum til Ástralíu. Á  fylltu landsmenn Austurvöll með þeim afleiðingum að forsætisráðherra landsins, þó með semingi, sagði af sér. Í framhaldinu barði ríkisstjórnin í siðferðisbrestinn með stólaleik og boðun kosninga á komandi hausti.  
 
Eftir stendur siðferðislega löskuð ríkisstjórn og brostið traust til Alþingis og stjórnmálamanna sem skilyrðislaust eiga að vera flekklausir, enda er Alþingi einn af hornsteinum lýðræðisins. Að byggja upp traust á ný er risavaxið verkefni. Það verður ekki gert án heiðarleika, auðmýktar, gegnsæis, bættra reglna og virks eftirlits. Vantraustsins vegna verða stjórnmálamenn að sinna ákalli þjóðarinnar um þróun fulltrúalýðræðisins. Kröfur eru uppi um aukna aðkomu almennings að stórum ákvörðunum.
 
En hverfum aftur til hins meinta góðæris samtímans. Byggingakrönum fer fjölgandi, eðlilega hringja viðvörunarbjöllur. Því þensla í verklegum framkvæmdum var eitt hinna sýnilegu viðvörunarmerkja fyrir hrunið mikla 2008. Við höfum af því fregnir úr fjölmiðlum að fyrirtæki í byggingargeiranum hafi nú rangt við og ýti jafnvel undir mannlegan harmleik með launakjörum undir lágmarkstöxtum og slæglegum aðbúnaði erlendra farandverkamanna. Það er afar mikilvægt að yfirvöld og almenningur séu á verði gagnvart svarta hagkerfinu. Við viljum hvorki að afrakstur framkvæmda eða meint gullgrafaraæði í ferðaþjónustu sé svo lausbeislað að almennar leikreglur vinnumarkaðarins séu þar sniðgengnar. Það er allra tap.  
 
Íslendingar vilja búa í norrænu velferðarríki sem tryggir þegnunum á félagslegum grunni  gæða þjónustu innan mennta-, tryggingar-, og  heilbrigðiskerfis. Við viljum að samfélagið búi yfir virku félagslegu kerfi sem undanskilur ekki hópa eins og öryrkja og aldraða. Við hins vegar stöndum höllum fæti á ýmsum sviðum í samanburðarfræðinni. Það má til dæmis sjá þegar borin eru saman réttindi til fæðingarorlofs þar sem íslenskir foreldrar hafa mun lakari réttindi til greiðslna í fæðingarorlofi en foreldrar á hinum Norðurlöndunum. 
 
Ekki er staðan betri þegar kemur að húsnæðismarkaðnum. Þar er ástandið þannig að almennt launafólk og ungt fólk á í stökustu erfiðleikum með að standast þær fjárhagslegu kröfur sem gerðar eru hvort heldur sem er á leigenda- eða kaupendamarkaðnum. Undir þessu kyndir græðgi, opinbert vaxtaokur og svívirðileg kjör lánastofna og banka sem markað er af hinu einangraða íslenska krónuhagkerfi og fyrirbærinu verðtryggingu. Við ófremdarástandi á húsnæðimarkaði þarf að bregðast. Búið er að ná samkomulagi hjá ASÍ og BSRB í ljósi aðstæðna að bregðast við ástandinu með stofnun íbúðafélags, leigufélags sem rekið yrði án hagnaðarsjónarmiða. 
 
Kjarasamningar náðust loks eftir margra mánaða karp við atvinnurekendur á almenna markaðnum og þeim opinbera við ríki og sveitarfélög. Það er kaldhæðnislegt í ljósi hægagangsins og undanbragða sumra atvinnurekenda að í aðdraganda samninga skrifuðu heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði undir samkomulag um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga undir formerkjum svonefnds SALEK samkomulags. Þar skyldi stefnt að því að aðilar vinnumarkaðins reyndu að ná samningum sem stuðluðu að lægri verðbólgu, auknum kaupmætti og stöðuleika á vinnumarkaði. 
 
Það er ekki eins og samingaviðræður hafi gengið baráttulaust fyrir sig. Bæði á opinberum og almennum markaði má finna dæmi þess að knýja þurfti samningsaðila að samningaborðinu  með verkfallsaðgerðum. Hér á okkar atvinnusvæði í Hafnarfirði kom til mikillar baráttu þar sem alþjóðlegur auðhringur vildi fylgja eigin leikreglum á íslenskum vinnumarkaði. Ljóst er að alþjóðavæðing og hugmyndafræði hennar hefur hreiðrað um sig að einhverju leyti á íslenskum vinnumarkaði. Þar er fyrst og fremst spurt um krónur, hagnað og arðsemi á meðan réttindi launafólks mæta afgangi.    
 
Kæru félagar, við sitjum nú sem best verður séð á friðarstóli næstu árin í kjarasamningagerð en næg eru verkefni okkar við að tryggja að atvinurekendur fylgi umsömdum samningum.  Á almenna markaðnum hefur sá áfangi náðst að jafna lífeyrisréttindi. Þrátt fyrir áfangasigra þá er launa- og réttindbarátta íslensks launafólks viðvarandi verkefni og við þurfum sífellt að vera á vaktinni þegar kemur að réttindum okkar og kjörum. 
 
Nú 44 árum eftir Verkalýðsdagurinn 1. maí varð loks lögskipaður frídagur á Íslandi komum við enn saman til baráttufundar. Við viljum horfa fram á veginn en lítum jafnframt um öxl til að koma í veg fyrir að það sem illa fór áður verði endurtekið. Flest þau réttindi sem við teljum sjálfsagðan hlut í dag, væru ekki til staðar nema fyrir baráttu verkalýðsfélaganna. Við ætlumst til að pólitíkst kjörnum fulltrúum sé siðferðislega treystandi og efnahagslega séum við öll að stuðla að framgangi okkar samfélags og þá öll í sama bátnum innan sama hagkerfis. 
 
Okkur er fullkomnlega ljóst að baráttunni fyrir lífskjarajöfnuði, bættum réttindum launafólks,og réttlátara samfélagi er langt frá því að vera náð. Áfangasigrar hafa unnist en samstaða, þrautsegja og áframhaldandi réttindabarátta er leiðin sem færir okkur nær settum markmiðum. 
Jöfnuður og heiðarleiki býr til betra samfélag. 
Hafnfirskt launafólk, til hamingju með daginn.