Skip to main content
Yearly Archives

2020

Lof og last og jól – föstudagspistill forseta ASÍ

By Fréttir

Á þessum síðustu dögum Alþingis eru teknar ákvarðanir sem geta haft veruleg áhrif á daglegt líf launafólks og alls almennings. Ég vil byrja á því að fagna lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði sem virðist vera í hendi. Reglan verður þá jöfn skipting á milli foreldra með möguleika á framsali nokkurra vikna. Lenging orlofsins skiptir verulegu máli og verður vonandi til að auka samvistir barna við báða foreldra og ekki síður auka á jafnrétti innan sem utan heimila. Þá skiptir líka máli að tekjutenging atvinnuleysisbóta hafi verið lengd í 6 mánuði og fangar nú stærri hóp en áður. Hækkun grunnbóta er einnig áfangasigur. En betur má ef duga skal. Við búum við kerfi sem á að grípa fólk og í þessum makalausu aðstæðum er eins gott að þétta öryggisnetið þannig að það þjóni sínum tilgangi. Nú berast okkur örvæntingafull skilaboð frá fólki sem hefur klárað rétt sinn í bótakerfinu og er afar þröngur stakkur sniðinn, getur ekki gefið börnunum í skóinn og kvíðir jólunum. Algert forgangsatriði er að lengja rétt til atvinnuleysisbóta þangað til landið fer að rísa því á mörgum sviðum og svæðum er einfaldlega enga vinnu að fá. 

Það eru mikil vonbrigði að mörg mál sem hafa legið lengi á borði stjórnvalda og myndu bæta hag almennings hafa ekki klárast á þessu ári þrátt fyrir mikinn þrýsting. Ný starfskjaralög (þar með talið févíti fyrir launaþjófnað) eru þar efst á blaði en einnig má nefna ný húsaleigulög, skref til að afnema verðtryggingu, aðgerðaáætlun gegn mansali og lagabreytingar í lífeyrismálum svo eitthvað sé nefnt. 

Næg verkefni bíða næsta árs en verkalýðshreyfingin mun leggja allan sinn kraft í að auka afkomuöryggi fólks og missa ekki sjónar af því markmiði að við komumst út úr kófinu með jafnara og sanngjarnara samfélag. Ekkert smá verkefni en með samstilltu átaki öflugrar hreyfingar munum við ná árangri.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og baráttuglaðs nýs árs!

Drífa

Seinagangur í innleiðingu vinnutímastyttingar hjá sveitarfélögum

By Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands lýsir áhyggjum vegna seinagangs í innleiðingu vinnutímastyttingar sem á að taka gildi um áramótin. Víða virðist skortur á samráði og framkvæmdin öll í skötulíki. Ályktunin fer hér á eftir.

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af því hvernig gengur að innleiða og skipuleggja styttri vinnuviku hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Í kjarasamningum sem undirritaðir voru síðasta vor var samið um styttingu vinnuvikunnar. Í samningum er lögð áhersla á að það fari fram alvöru samtal milli starfsmanna og stjórnenda um fyrirkomulag og innleiðingu á hverri stofnun/starfsstöð  fyrir sig.

Nú er ljóst að innleiðingin gengur mun hægar en vonir stóðu til hjá sveitarfélögunum og mörg þeirra hafa annað hvort ekki sinnt samningsbundnu samráði við sína starfsmenn eða tekið sér það vald að ákveða fyrirkomulagið án aðkomu okkar fólks.

Fundurinn krefst þess að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem fer með samningsumboð sveitarfélaganna, tryggi að sveitarfélögin í landinu standi við kjarasamninga og tryggi sínum starfsmönnum betri vinnutíma eins og um var samið.

Föstudagspistill forseta ASÍ: Milljarða jólagjöf til hinna ríkustu

By Fréttir

Það er handagangur í öskjunni á Alþingi rétt fyrir jól og möguleikar almennings, til að greina ákvarðanir og veita aðhald, takamarkaðir. Nú stendur fyrir dyrum að létta skattbyrði á þeim allra ríkustu í samfélaginu með því að hækka frítekjumark fjármagnstekna úr 150 þúsund í 300 þúsund og láta það ná til arðgreiðslna og söluhagnaðs. Aðgerð sem kostar ríkissjóð um milljarð á ári á sama tíma og Landspítalinn þarf að hagræða um 4 milljarða. Þetta má setja í samhengi við baráttuna um að ná fram skattalækkunum á þá allra tekjulægstu í samfélaginu samhliða Lífskjarasamningum. Sú skattalækkun var knúin fram í krafti kjaraviðræðna og var hluti af kjarabótum almennings. Samningaviðræður áttu sér stað og Alþýðusambandið lagði fram gögn sem sýndu að skattbyrði hefði aukist á þá sem lægst hafa launin. Það þurfti mikið afl til að breyta skattkerfinu og það var gert til að auka jöfnuð. 

Nú þegar ríkisstjórnin vill létta sköttum á þeim allra ríkustu og þar með veikja tekjustofna ríkisins er ekkert samráð og afar veikur rökstuðningur en jólagjöfin þeim mun veglegri. Í því sambandi má nefna að núverandi frítekjumark fjármagnstekna nýtist 90% framteljenda. Aðgerðin nýtist því 10% tekjuhæstu framteljendunum best. Horfið er af braut jöfnuðar og ekkert sem styður þennan gjörning á tímum þegar ríkissjóður hefur sannanlega ekki efni á að minnka tekjur sínar nema fyrir því séu afar góð rök. Nær væri að efla tekjuöflun ríkisins en með því að veikja tekjustofna sína er ríkið líka að rýra tekjur sveitarfélaga. Fleiri munu falla út af atvinnuleysisbótum og þurfa að treysta á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna auk þess sem þau hafa ríkar skyldur að halda uppi velferð á krepputímum. Á meðan þarf ríkasta fólk landsins, þau sem fá tekjur sínar af peningum og fjármálagjörningum, ekki að greiða útsvar til sveitarfélaga þótt þau nýti þjónustu þeirra á við alla aðra, hvort sem litið er til snjómoksturs eða leik- og grunnskóla.

Þessar áherslur stjórnvalda vekja ekki vonir um að við komumst út úr kreppunni með jafnara og sanngjarnara samfélag. Þvert á móti á að nýta ástandið til að lauma bitlingum til ríkasta fólksins, það er jólagjöfin í ár. 

Samningur við Kerfóðrun samþykktur

By Fréttir

Kjarasamningur sem gerður var við Kerfóðrun sl. föstudag, var samþykktur í atkvæðagreiðslu í dag. Þrjú verkalýðsfélög eiga aðild að samningnum: Verkalýðfélagið Hlíf, VM og FIT.

Á kjörskrá voru 26 og 23 greiddu atkvæði – eða 88,5%. Af þeim sögðu 22 já, eða 95,6%. Einn greiddi atkvæði gegn samningnum. Hann er því samþykktur.

Translate »