Skip to main content

Það er mikil ólga í og reiði meðal starfsfólks í leikskólum bæjarins, vegna áforma um breytingar á starfinu. Breytingarnar munu hafa mikil áhrif á störf ófaglærðra leiðbeinenda, sem eru meira en helmingur starfsfólksins. Í gær efndi félagið til fundar sem á mætti stór hluti hópsins, eða á þriðja hundrað félagsmenn. Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.

Mjög fjölmennur félagsfundur Verkalýðsfélagsins Hlífar með leiðbeinendum í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar, ásamt stjórn og trúnaðarmönnum félagsins, harmar framgöngu bæjarins við undirbúning breytinga á skipulagi leikskólastarfs í bænum.

Almennt starfsfólk hefur aldrei átt þess kost að velja fulltrúa til þátttöku í undirbúningnum og áform hafa hvorki verið kynnt fyrir félaginu né starfsfólkinu sjálfu, fyrr en eftir að forystumenn félagsins kröfðust þess. Forsvarsmenn bæjarins hafa blákalt haldið því fram á kynningarfundum með starfsfólki að þeir hafi kynnt forystu Hlífar breytingarnar með fullnægjandi hætti. Það er einfaldlega ósatt.

Af þeim kynningum sem þó hafa farið fram, er ljóst að enn eru fjölmargir endar lausir og enn er mörgum spurningum ósvarað.

Það liggur fyrir að ríflega helmingur starfsfólks í leikskólum Hafnarfjarðar er félagsmenn í Verkalýðsfélaginu Hlíf. Það er ennfremur ljóst, að áformaðar breytingar munu hafa mikil áhrif á þeirra störf. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að breytingar af þessari stærðargráðu séu undirbúnar án þess að nokkurt samráð sé haft við þennan hóp.

Áform bæjarsins hafa í för með sér mikla óvissu og það er augljóst að málið hefur ekki verið hugsað alla leið. Þegar ekki er talað við helming hópsins sem málið varðar, er hætt við að talsvert vanti upp á heildarmyndina.

Við fögnum því að einstakir starfshópar nái árangri í sinni kjarabaráttu. Við höfnum því aftur á móti, að viðsemjandinn, Hafnarfjarðarbær, velti auknu álagi sem af þessu hlýst á almennt starfsfólk leikskólanna.

Ekkert hefur komið fram á upplýsingafundum bæjarins um möguleg áhrif áformaðra breytinga á börnin í leikskólanum, þótt um það hafi verið spurt. Rót, óvissa og óstöðugleiki í starfsmannahaldi eru örugglega ekki það besta fyrir yngstu börnin.

Við fordæmum það fálæti og virðingarleysi sem Hafnarfjarðarbær hefur sýnt okkur á undanförnum misserum. Án okkar væru leikskólarnir óstarfhæfir. Ábyrgðin á því ef eitthvað fer úrskeiðis liggur öll hjá stjórnendum Hafnarfjarðarbæjar.

Við munum fylgjast grannt með framkvæmdinni og leita réttar okkar umsvifalaust verði á okkur brotið. Við minnum jafnframt á, að það styttist í gerð næstu kjarasamninga og að framganga Hafnarfjarðarbæjar er ekki gott innlegg í þá vinnu.