Skip to main content

Hækkun launa og fjárhagsáhyggjur efstar á baugi. Flestir vilja hærri laun og hækkun lægstu launa á meðan helmingur hefur miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Flóabandalagið. Langflestir þátttakenda hafa dregið úr útgjöldum varðandi neyslu á borð við ferðalög, skemmtanir eða tómstundir, en félagsmenn Hlífar telja starfsöryggi sitt meira en félagsmenn í Eflingu og VSFK.

Flestir vilja hærri laun
Í könnuninni vógu launamál þyngst þegar kom að áherslum sem félagsmenn telja mikilvægastar í kjarasamningum við atvinnurekendur og skoruðu þau 8,7 á mikilvægisskalanum núll til tíu. Atvinnuöryggi var þátttakendum könnunarinnar næstmikilvægast, eða 5,5, starfsumhverfi 2,9 en félagsmenn leggja minnsta áherslu á styttingu vinnutíma. 
Atvinnuöryggi skiptir fólk meira máli nú en í sambærilegri könnun árið 2007. Þá var atvinnuöryggi í þriðja sæti en er nú í öðru. Stytting vinnutíma var þá í öðru sæti en er nú neðst á lista þessara fjögurra þátta.

Niðurstöðurnar í þessum hluta könnunarinnar eru í samræmi við aðra þætti er varða laun. Athyglisvert er að rúmlega helmingur þátttakenda er frekar, eða mjög ósáttur við laun sín. Þá kemur í ljós að heildarlaun kvenna í 100% starfshlutfalli eru 26% lægri en hjá körlum. Meðalheildargreiðslur karla voru tæpar 336 þúsund krónur en hjá konum rúmar 249 þúsund krónur á mánuði.

 

 

92% vilja hækkun lægstu launa

Rúmlega 92% aðspurðra eru sammála því að sérstök áhersla verði lögð á að hækka lægstu laun. Einungis þrjú prósent eru frekar eða mjög ósammála, en tæp fimm prósent taka ekki afstöðu. Þetta er svipað hlutfall og í könnunum síðustu ára. Athygli vekur að í aldurshópnum 35-44 ára telja einungis eitt prósent svarenda að hækka eigi lægstu laun. Ríflega 80 prósent þeirra sem voru sammála hækkun lægstu launa fannst það þess virði þó svo að það þýddi minni hækkun launa almennt, en 8,5% vildu ekki fórna hluta af almennri hækkun til að hækka lægstu laun. Þá skipti starfsumhverfi aldurshópinn 16-24 ára meira máli en aðra aldurshópa og stytting vinnutíma skipti sama hóp minna máli en fólk á öðrum aldri.

Skerðing launa eða starfskjara
Launa eða starfskjör hafa verið skert hjá þriðjungi þátttakenda á síðustu 12 mánuðum, en á tímabilinu september 2008 til september 2009 fjölgaði þeim sem urðu fyrir skertum launa- eða starfskjörum úr 20% í 40%. Hjá félagsmönnum Hlífar og Eflingar er prósentan nú um 32% en hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur er hún tæp 40%. Skerðing á yfirvinnubanni kemur við 42% félagsmanna, en 25% hafa orðið fyrir skertu starfshlutfalli og tæplega fjórðungur hefur lækkað í launum.

Atvinnuleysi  tæplega 11% 
Tæplega 11% svarenda í könnuninni eru atvinnulausir og af þeim hafa 64% verið án atvinnu í meira en 12 mánuði. Einungis 11% atvinnulausra höfðu fengið tilboð um vinnu í ágúst og september. Fimmtungur af heildarfjölda þátttakenda era ð leita sér að vinnu, flestir á aldrinum 25-34 ára, eða um þriðjungur og 84% eru að leita að fullu starfi.
Flestir leita einungis eftir starfi hérlendis, eða þrír fjórðu, og aðeins rúmt eitt prósent leitar eingöngu eftir starfi í útlöndum. Um 65% eru ánægðir með þjónustu Vinnumálastofnunar. Helmingur þátttakenda telur að þrjú ár séu hæfilegur hámarkstími atvinnuleysisbóta, þar af 58% félagsmanna Hlífar. Um  16% svarenda er í námi, ýmist fullu eða að hluta. Þá telja 63% ólíklegt að þeir fari í nám á næstu 12 mánuðum.

Félagsmenn Hlífar telja starfsöryggi sitt meira en annarra 
Einungis 11 % telja starfsöryggi sitt lítið, en 68% telja það vera mikið. Hjá félagsmönnum Hlífar er prósentan 78% en hjá Eflingu og VSFK 66%. Innan við fimmtungur telur að starfsöryggi sé meira en fyrir ári síðan, sama tala gildir um þá sem telja það minna, en 60% segjast hvorki telja starfsöryggi meira né minna en fyrir ári síðan. Hér er hlutur félagsmanna Hlífar einnig meiri en hinna félaganna, eða 64%.
Um 56% finnst álag í vinnu hafa aukist á síðustu mánuðum en 38% finnst það hafa haldist óbreytt. Fleiri félagsmönnum Hlífar finnst álag hafa aukist en félagsmönnum Eflingar og VSFK.

Rúmlega helmingur með miklar fjárhagsáhyggjur Um 52% aðspurðra sögðust hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni. Aðeins 11% sögðust ekki hafa neinar áhyggjur en 18% litlar. Á aldrinum 25-34 ára höfðu fleiri miklar áhyggjur af fjárhag en í öðrum aldurshópum, eða 61% en í aldurshópnum 55 ára og eldri höfðu 43% miklar áhyggjur af fjárhag. Flestir segja lág laun vera ástæðu fyrir fjárhagsáhyggjum en þar á eftir koma þættir eins og verðbólga, hækkun lána, minni vinna og atvinnuóöryggi, skuldir, atvinnuleysi, lækkun launa, missir húsnæðis og þjóðfélagsástandið.
Fleiri karlmenn en konur telja lág laun ástæðu þess að þeir hafa áhyggjur af fjárhag, eða 40% til móts við 28% kvenna. Munur var ekki marktækur á kynjunum þegar kom að öðrum þáttum, nema hvað varðar skuldir, þar sem helmingi fleiri konur töldu skuldir ástæður fyrir áhyggjum af fjárhagsstöðu, eða 15%.

Fleiri félagsmenn Hlífar hafa tekið út séreignasparnað
Fimmtungur segist hafa leitað aðstoðar vegna fjárhagsstöðu sinnar, langflestir til banka eða sparisjóða eða vina og ættingja. Færri félagmenn Hlífar höfðu leitað sér aðstoðar en félagsmenn hjá Eflingu eða VSFK. Hins vegar höfðu hlutfallslega fleiri innan raða Hlífar tekið út séreignasparnað sinn eftir að lögum var breytt, eða rétt tæpur helmingur til móts við um 40% félagsmanna hinna félaganna.

Draga úr útgjöldum vegna ferðalaga, skemmtana eða tómstunda
Langflestir þátttakenda hafa dregið úr útgjöldum varðandi neyslu, eða 87%. Tæplega 68% úr útgjöldum til ferðalaga, 64% vegna tómstunda, skemmtana og fjölmiðla og dregið hefur úr útgjöldum vegna húsgagna, tækja og farartækja hjá 63% þátttakenda. Þá sparar rúmlega helmingur við sig í matarinnkaupum og kaupum á eldsneyti.
Athygli vekur að fjórðungur hefur dregið úr útgjöldum til heilbrigðisþjónustu á síðustu 12 mánuðum og hefur sá hópur stækkað um rúm 6% á einu ári, eða farið úr 19% í 25%.

Vinnuvikan 45,4 stundir
Rúmlega 80% þátttakenda eru í fullu starfi í sínu aðalstarfi þar sem tæplega tveir þriðju vinna dagvinnu. 13 % eru í fleiri en einu starfi. Meðal vinnuvikan telur 42,5 stundir, en 45,4 tímar hjá þeim sem eru í fullri vinnu í sínu aðalstarfi.

Flestir ánægðir með þjónustu stéttarfélaganna
Rúmlega tveir þriðju svarenda í könnuninni segjast mjög, eða frekar ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá hjá sínu félag
Í könnuninni svöruðu 1286 félagsmenn Flóabandalagsins spurningum í síma eða á netinu. 53% voru karlar, en 47% konur.

Könnunina er hægt að sjá í heild sinni hér.