Skip to main content
search
FréttirUncategorized

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna

By 13.12.2010apríl 12th, 2019No Comments
ATHUGIÐ, Eftirfarandi efni var srkáð fyrir meira en 1 ári.

Eftirstöðvar skulda færðar niður í 110%.

Ríkisstjórnin hefur boðað til sérstakra aðgerða vegna skulda og greiðsluvanda heimila og voru niðurstöðurnar kynntar á blaðamannafundi 3. desember síðastliðnum. Aðgerðirnar eru taldar ná til um 60 þúsund heimila, en 72 þúsund heimili eða einstaklingar eru með íbuðaskuldir hér á landi.

Lántakendum í greiðsluvanda með yfirveðsett heimili býðst að fá eftirstöðvar skulda færðar niður í 110% af verðmæti eigna. Þannig getur niðurfærsla einstaklings orðið 4 milljónir en 7 milljónir hjá sambýlisfólki, hjónum og einstæðum foreldrum. Sé þörf fyrir frekari niðurfærslu þarf að fara fram ítarlegt mat á eignum og verðmætum viðkomandi og getur niðurfærslan þá orðið 15 milljónir hjá einstaklingi eða 30 milljónir hjá einstæðum foreldrum eða sambúðarfólki.

Sértæk skuldaaðlögun mun ná til fleiri aðila en hingað til samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Lántakendum í miklum greiðsluvanda býðst að færa lán niður í allt að 70% af verðmæti íbúðarhúsnæðis í samræmi við greiðslugetu. Allt að 30% af virði eignar er þá sett á vaxta- og afborgunarlaust biðlán í 3 ár og skuldir umfram 100% felldar niður.

Breytingar verða gerðar á almennum vaxtabótum til að koma meira til móts við heimili með lág laun. Tímabundin vaxtaniðurfærsla er einnig hluti af aðgerðunum. Gert er ráð fyrir að vaxtabætur muni koma til greiðslu ársfjórðungslega. Útgjöld vegna þessa nema um 6 milljörðum króna á ári næstu tvö árin og munu lífeyrissjóðirnir fjármagna útgjöldin.

Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanns umfram eignastöðu verði felld niður og ekki gengið að lánsveði á meðan á sértækri skuldaaðlögun stendur.

Þá munu lífeyrissjóðir greiða fyrir félagslegum úrræðum í húsnæðismálum með kaupum á íbúðabréfum hjá Íbúðalánasjóði til að endurfjármagna útistandandi félagsleg leiguíbúðarlán og fjármagna búseturéttarkerfi.

Viðræður ríkisstjórnarinnar, bankanna og lífeyrissjóðanna höfðu staðið linnulaust í þrjár vikur áður en samkomulag um aðgerðirnar náðist. “Þær voru strangar, erfiðar og stundum stormasamar,” sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þegar aðgerðirnar voru kynntar í Þjóðmenningarhúsinu.