Skip to main content

Stóru samninganefnd Flóabandalagsins voru kynnt drög að megináherslum bandalagsins í komandi kjarasamningum á fundi sl. þriðjudag, 15. október. Á fundinum var samþykkt að ganga til viðræðna við Samtök atvinnulífsins um samninga sem gildi frá 1. desember í ár. Samningar við ríki og Reykjavíkurborg taki hins vegar gildi 1. febrúar 2014 og við Samband íslenskra sveitarfélaga 1. maí 2014. Lögð er áhersla á skammtímasamning  sem verði aðfarasamningur til lengri tíma ef víðtækt samkomulag næst með öllum aðilum vinnumarkaðarins ásamt ríki og sveitarfélögum.

Flóabandalagið leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög tryggi undirstöður velferðar m.a. með því að móta lífskjara- og atvinnustefnu þar sem tekist er á við fall kaupmáttar m.a. með því að byggja upp atvinnulífið að nýju og fjölga störfum. Þá leggst bandalagið gegn lækkun skatta á milliskattsþrepið og telur að það sé til þess fallið að auka skattbyrði á lægri laun. Einnig hafnar bandalagið alfarið hugmyndum um eitt tekjuskattsþrep og leggur áherslu á að sköttum á lægri laun sé viðhaldið.

Mikilvægt er að lagður verði grunnur að endurreisn húsnæðiskerfisins með raunhæfum aðgerðum gagnvart skuldastöðu heimilanna. Byggja þarf upp nýtt húsnæðiskerfi og leiguíbúðamarkað á viðráðanlegum kjörum. Þá krefst bandalagið þess að lífeyrisréttindi á almennum markaði verði jöfnuð til samræmis við réttindi á opinberum markaði.

Styrking krónunnar er grundvöllur þess að efla kaupmátt launafólks. Losa þarf um gjaldeyrishöftin og tengja krónuna við erlendan gjaldmiðil með það að markmiði að taka upp nýjan gjaldmiðil. Þá er í drögunum sagt að mikilvæg forsenda samninga sé að byggt sé á samræmdri launastefnu allra samtaka launafólks. Hvað varðar launamun kynjanna sem jókst á síðasta ári þá ber að útrýma launamisréttinu á komandi samningstímabili.

Fulltrúar Hlífar á fundinum.