Skip to main content

Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga – ITUC, tileinkar daginn í dag, 26. júní, baráttunni gegn hamfarahlýnun. Það er komið að úrslitastund í baráttunni og ekki verður lengur beðið með afgerandi viðbrögð og mótaðgerðir. Alþjóðasambandið hvetur félagsmenn og vinnustaði til að taka þátt og axla ábyrgð. Hvatt er til þess að málin verði rædd á hverjum vinnustað, meðal annars með það fyrir augum að vinna út hvernig við hvert og eitt og vinnustaðurinn í heild, getum lagt okkar af mörkum.

Á vef ASÍ er að finna ábendingar um hvernig hægt er að taka þátt í aðgerðum dagsins á hverjum vinnustað.

Að neðan er ávarp Sharan Burrow, aðalritara ITUC

Nú er úrslitastund í loftslagsmálum, við viljum sjá áþreifanleg viðbrögð frá atvinnurekendum og hvaða skref þeir ætla að taka. Framtíð okkar veltur á því! Allir vinnustaðir þurfa að leggja sitt af mörkum. Ef atvinnurekendur taka loftslagsbreytingar alvarlega, þá stöndum við með þeim; annars gera stéttarfélög þá kröfu að þeir axli ábyrgð.

Hamfarahlýnun af mannavöldum hefur hvað mest áhrif á hinn vinnandi mann. Frá árinu 2005 höfum við upplifað níu af tíu heitustu árum frá upphafi mælinga. Því er ljóst að málið er brýnt. Nú þegar eru 83 milljónir manna á flótta vegna hamfarahlýnunar og búsifja tengdum loftslagsbreytingum. Til viðbótar eru 72 milljónir starfa í hættu vegna hlýnunar. Viðbragðsaðgerðir þurfa að líta dagsins ljós, bæði frá atvinnulífinu og stjórnvöldum. Hvert framlag skiptir máli, og brýnna og djarfra aðgerða er þörf.

Við þurfum að endurskoða þau viðskiptamódel sem leiddu okkur hingað. Grænþvottur mun ekki duga í þetta skiptið; það verður ekki samþykkt að ábyrgð sé drepið á dreif. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin er staðráðin í að bregðast við hamfarahlýnun af mannavöldum. Áhyggjur launamanna eru alls staðar þær sömu: mun starfið, í núverandi mynd, þola umbreytingarnar? Ef ekki, til hvaða aðgerða þarf að grípa? Nauðsynlegt er að verkalýðshreyfingin, atvinnulífið og stjórnvöld vinni að sameiginlegri lausn í því mikilvæga verkefni sem blasir við. Kostnaður og afleiðingar aðgerðaleysis eru óútreiknanlegar.

Verkalýðshreyfingin veit að orð eru til alls fyrst og að launafólk hefur rétt á að þekkja sjálfbærni starfs síns og vinnustaðar. ITUC-Alþjóðlega verkalýðshreyfingin, hefur útbúið verkfærakistu sem styðjast má við í umræðunni á vinnustað um hamafarahlýnun af mannavöldum.

Sharan Burrow, aðalritari Alþjóðasambands verkalýðsfélaga, ITUC.

is Icelandic
X