Skip to main content

Í dag eru 105 ár síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað og vil ég nota tækifærið og óska launafólki til hamingju með samstöðuna og árangurinn í rúma öld. Lífsgæðin eru allt önnur en þau voru en verkefnin eru enn þau sömu; að tryggja fólki mannsæmandi laun, gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum, lífsgæði í formi hvíldar og frítíma og tryggingar ef eitthvað út af ber. Árangur samstöðu verkafólks sést best á því að í þeim löndum þar sem sterk verkalýðshreyfing hefur verið við lýði er minni ójöfnuður og betri almenn lífsgæði. Það á sannanlega við um Ísland í samfélagi þjóðanna. 

Markmiðið er að launafólk njóti þeirra gæða sem búin eru til og að samfélagið rúmi okkur öll. Þar er langt í land og þótt síðustu 105 ár hafa fleytt okkur áfram þá hafa bakslögin líka verið mörg og alvarleg. Í vikunni fengum við tvær afgerandi áminningar um það. Á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegu hámarki er atvinnuöryggi a.m.k. 140 starfsmanna hjúkrunarheimila í Fjarðarbyggð og Vestmannaeyjum stefnt í voða með yfirvofandi uppsögnum og hugsanlegum endurráðningum á lakari kjörum. Sveitarfélögin benda á ríkið og ríkið bendir beint til baka á sveitarfélögin. Tveir vasar á sömu buxum rífast á meðan launafólk veit ekki hvort það mun eiga í sig og á. 

Hin áminningin barst frá Orkuveitunni þar sem laun forstjórans voru hækkuð tvö ár afturvirkt, langt úr takti við aðra launaþróun, margfalt á við hækkanir láglaunafólks og reyndar líka langt umfram laun stjórnenda á sama tímabili. Einnig var týnd til stytting vinnuvikunnar bæði á almenna og opinbera markaðnum til að hækka laun forstjórans! Aðaleigandi Orkuveitunnar er Reykjavíkurborg. Fyrir ári síðan var ekki hægt að hækka laun fólksins sem heldur grunnstarfsemi borgarinnar gangandi án þess að efna til harkalegra kjaradeilna. 

Á afmæli ASÍ er gott að líta um öxl og fagna því sem hefur áunnist. En á sama tíma brýnum við okkur í baráttunni. Því við erum rétt að byrja.