Allir póstar eftir

Guðmundur Rúnar Árnason

ASÍ krefst hækkunar atvinnleysisbóta

By Fréttir

Við þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum er nauðsynlegt að gera breytingar til að forða fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi og því tekjutapi sem honum fylgir.

Grunnatvinnleysisbætur hafa dregist aftur miðað við þróun lægstu launa og, tekjutengingar skerða of mikið og tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verður að lengja úr þremur mánuðum.

Krafa verkalýðshreyfingarinnar er eftirfarandi:

 • Grunnatvinnuleysisbætur verði sem svarar 95% af tekjutryggingu m.v. fullt starf. Sú fjárhæð er í dag kr. 318.250 (þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð). Þá verði greiðsla með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára hlutfallslega sú sama og í dag.
 • Tekjutengdar atvinnuleysisbætur nemi sem næst 70% af meðaltali heildarlauna á vinnumarkaði. Sú fjárhæð er í dag kr. 529.381.
 • Þá verði dregið úr tekjutengingu þannig að tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu skerði ekki tekjutengdra bætur. Sú fjárhæð er í dag kr. 335.000.
 • Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið úr þremur mánuðum að hámarki í sex mánuði.

Alþýðusambandið hefur um nokkurra missera skeið lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni. Sú afstaða byggir annars vegar á þeim breytingum sem orðið hafa og eru að verða á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar og hins vegar á þeirri skoðun að mikilvægt sé að fólk í atvinnuleit hafi geti nýtt þann tíma til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með því að sækja sér menntun eða auka hæfni sína með öðrum hætti.

Alþýðusambandið hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að atvinnuleysisbætur verði þegar í stað hækkaðar og tekjutengda tímabilið lengt.

Nú eru grunnbætur úr atvinnuleysistryggingasjóði m.v. fullt starf kr. 289.510 á mánuði (auk þess sem greidd er lág fjárhæð með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára). Þá eru tekjutengdar bætur að hámarki kr. 456.404 á mánuði, en þó aldrei hærri en 70% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru lengst greiddar í þrjá mánuði, en þó ekki fyrstu tvær vikur í atvinnuleysi.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum er nauðsynlegt að gera breytingar til að forða fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi og því tekjutapi sem honum fylgir.

Í þessu sambandi má einnig benda á að upphæð atvinnuleysisbóta var lengi miðuð við 7. taxta Dagsbrúnar eftir 1 ár. Sambærileg viðmiðun í launataxta verkafólks mundi gefa mun hærri upphæð en nú er. Þá má benda á að grunnbæturnar eru nú ríflega 86% af lágmarkstekjutryggingu skv. kjarasamningi Starfsgreinasambandsins en voru árið 2010 ríflega 95%. Á sama hátt er hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta nú í lágmarki miðað við grunnbæturnar frá því tekjutengingin var tekin upp.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandi til breytingar m.v. núgildandi lög og upphæðir atvinnuleysisbóta. Um er að ræða hóflegar breytingar sem eru einfaldar og hægt er að hrinda strax í framkvæmd en með því fororði þó að heildarendurskoðun laganna fari fram og þá verði fjárhæðir atvinnuleysisbóta og annar stuðningur úr atvinnuleysistryggingasjóði tekinn til gagngerrar skoðunar með það að markmiði að forða fólki frá tekjufalli.

Aftur í vinnu!

By Fréttir, Front-left

Hefur þú misst vinnuna? Viltu komast skrefi lengra í atvinnuleit?

Ef svo er gætu örnámskeiðin Aftur til vinnu fyrir félaga í Hlíf, Eflingu og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis (VSFK) hentað þér.

Á námskeiðunum eru kynnt hagnýt ráð í atvinnuleit, t.a.m. um hvernig best sé að koma sér á framfæri, hvar sé best að bera niður og hvernig sé hægt að nýta sér tölvutækni til að ná árangri.

Kennsla fer fram í 14 manna hópum – tveir kennarar kenna hverjum hópi – allir fá afnot af fartölvu.

Eftirfarandi námskeið á íslensku eru í boði.

 • Hvað hef ég fram að færa? Safnað í færnimöppu.
  Námskeiðið fer fram  þann 22. júní: kl. 9-12.
 • Hver er ég? Gerð ferilskrár og kynningarbréfs.
  Námskeiðið fer fram  þann 24. júní: kl. 9-12.
 • Hvernig ber ég mig að? Hagnýt ráð í atvinnuleit.
  Námskeiðið fer fram  þann 26. júní: kl. 9-12.
 • Hvernig nýtist tæknin mér í atvinnuleit? Notkun tækni og samskiptaforrita í atvinnuleit.
  Námskeiðið fer fram  þann 29. júní: kl. 9-14:30 (hálftíma matarhlé).

Námskeiðin kosta 3.000 kr. að því undanskildu að tækninámskeiðið kostar 4.000 kr. Öll námskeiðin fara fram í húsnæði Mímis við Höfðabakka 9.

Skráning fer fram hér. Hlökkum til að sjá þig!

Samtök vinnandi fólks hljóta að taka stöðu gegn kerfisbundinni niðurlægingu og valdbeitingu

By Fréttir

Í föstudagspistli sínum fer Drífa Snædal, forseti ASÍ um að tekist hafi að afstýra stórslysi þegar Alþingi samþykkti – eftir mikinn þrýsting ASÍ – að fyrirtækjum beri að endurráða fólk á sömu kjörum og það var á, komi til þess að ríki greiði launakostnað á uppsagnarfresti. Jafnframt lýsti hún ánægju með þátttökuna á samstöðufundinum gegn rasisma á Austurvelli á dögunum. Pistillinn fer hér á eftir.

Það var gleðilegt að sjá svo marga mæta á Austurvöll á miðvikudag í samstöðu gegn rasisma þótt tilefnið væri ömurlegt. Verkalýðshreyfingin er hreyfing lýðræðis, mannréttinda og friðar. Hreyfing almennings gegn öflum sem sundra og kúga. Þess vegna hljóta samtök vinnandi fólks að taka stöðu með hinum kúguðu gegn kerfisbundinni niðurlægingu og valdbeitingu. Staða mála í Bandaríkjunum er svo alvarleg að hún ógnar friði þar í landi og þar með heimsfriðnum. Um leið varpar hún ljósi á kerfisbundið kynþáttamisrétti sem þrífst um allan heim. Það er því þörf á friðarsamstöðu sem aldrei fyrr. Munum að sterkasta aflið gegn inngrónu misrétti og stofnanabundnum rasisma er samstaða. Þar dugar ekkert minna en fjöldahreyfing og við skulum öll vera hluti af henni.

Á innlendum vettvangi náði ASÍ að afstýra stórslysi um síðustu helgi í tengslum við lagasetningu um greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti. Góðu heilli og eftir mikinn þrýsting samþykkti Alþingi að gera breytingar í þá veru að fyrirtækjum beri að endurráða fólk á sömu kjörum og það var á. Þetta skilyrði gildir í 6 mánuði frá uppsögn. Það er því ekki hægt að fá fé úr ríkissjóði til að greiða fólki á uppsagnarfresti og ætla svo að endurráða það á lakari kjörum. Þetta skipti miklu máli og er til marks um hvað sameinuð verkalýðshreyfing getur gert. Ég hvet fólk til að kynna sér réttindi sín í tengslum við úrræði stjórnvalda, það er töluverð hætta á að réttindi glatist ef ekki er fylgst með. Þar er stéttarfélagið þinn bakhjarl.

Talversð hækkun matarverðs

By Fréttir

Á einu ári hefur vörukarfa ASÍ hækkað um 2,3%-15,6% í átta verslunarkeðjum en vörukarfan endurspeglar almenn matarinnkaup meðal heimils. Í sex verslunarkeðjum af átta hækkar vörukarfan um yfir 5%. Mest hækkaði vörukarfan í Kjörbúðinni eða um 15,6% og næst mest í Krambúðinni um 13,6%. Minnst hækkaði verðið í Tíu ellefu á tímabilinu, 2,3% og næst minnst í Iceland um 3,4%. Til samanburðar hækkaði verð á mat- og drykkjarvörum í vísitölu neysluverðs um 4,86% frá maí 2019- maí 2020.

Töluverðar verðhækkanir má finna í öllum vöruflokkum en verð á grænmeti og ávöxtum hækkaði langmest á þessu 12 mánaða tímabili. Á eftir þeim vöruflokki má sjá mestar hækkanir í flokki brauðs og kornvara og hreinlætis- og snyrtivara. Minnstar verðhækkanir voru á sykri, súkkulaði, sælgæti og drykkjarvörum. 

Hlekkur á töflu sem sýnir mun á milli verslana

Minnstar verðhækkanir hjá Bónus af lágvöruverðsverslununum
Þegar verð hjá lágvöruverðsverslununum er skoðað má sjá minnstar verðhækkanir í Bónus en þar hækkaði verð um 5,2% á meðan verð hækkaði um 7,9% í Nettó og 9% í Krónunni.

Vörukarfan hækkar um 15,6% í Kjörbúðinni og 13,6% í Krambúðinni
Mestar verðhækkanir voru eins og fyrr segir í Kjörbúðinni 15,6% en verslanir í þeirri keðju eru staðsettar á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Næst mest hækkaði verð í Krambúðinni um 13,6% en Krambúðirnar eru hverfisverslanir sem eru bæði staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Vörukarfan hækkaði minnst í Tíu ellefu, 2,3% og næst minnst í Iceland, 3,4% en báðar verslanir eru þekktar fyrir langan opnunartíma. Vörukarfan hækkaði um 5,2% í Hagkaup. 

Hlekkur á stöplarit sem sýnir hækkunina síðustu 12 mánuði

Um könnunina
Vörukarfan var framkvæmd vikurnar 6.-12. maí 2019 og 18-25. maí 2020.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland, Krambúðinni og Tíu ellefu.
Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Ólafur Pétursson lætur af störfum í stjórn

By Fréttir

Ólafur Pétursson, sem átt hefur sæti í stjórn og varastjórn Hlífar í vel á annan áratug, lét af störfum á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær. Ólafur átti ár eftir af tveggja ára kjörtímabili, en kaus að hætta á þessum tímapunkti.

Ólafur ávarpaði fundinn og sagðist telja eðlilegt að menn sætu ekki í hið óendanlega. Þegar þeir hættu þátttöku á vinnumarkaði, rofnuðu tengsl sem væru nauðsynleg til að geta sinnt starfinu sem skyldi.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður félagsins þakkaði Ólafi óeigingjarnt og gott starf þann tíma sem hann hefur tekið þátt í störfum stjórnar. Hann hafi alltaf lagt gott til mála, haft sterkar skoðanir á málefnum og látið þær heyrast.

Á aðalfundinum voru ársreikningar afgreiddir, lýst kjöri stjórnar og önnur lögbundin verkefni aðalfundar afgreidd. Niðurstöður kjara- og viðhorfskönnunar sem Gallup gerði voru kynntar og auk þess stefnumótunarvinna stjórnar og nokkur umbótaverkefni sem af henni leiða.

Mesta kjaraskerðing síðari tíma – með aðstoð þingmanna?

By Fréttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að miklir gallar séu á frumvarpi til laga um greiðslu hluta launa á uppsagnarfresti. Frumvarpið sé á síðustu metrunum í meðförum Alþingis, en enn hafi þingmenn ekki tekið tillit til ábendinga um alvarlega ágalla á málatilbúnaði. Í föstudagspistli sínum segir Drífa:

Það hafa verið teknar afdrifaríkar ákvarðanir á skömmum tíma síðustu mánuði, ákvarðanir sem var ætlað að tryggja lífskjör og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Það var alveg ljóst að í þeirri vegferð yrðu gerð mistök en nú erum við á stað þar sem mistökunum á að fækka. Við höfum betri upplýsingar um stöðu mála og getum vandað okkur.

Tvö stórmál liggja nú fyrir Alþingi og verða hugsanlega afgreidd í dag. Annars vegar lög um framlengingu hlutabótaleiðarinnar og hins vegar greiðslu hluta launa á uppsagnarfresti. Það hefur komið mörgum á óvart að verkalýðshreyfingin hefur stutt þá hugmynd að skattfé okkar fari í greiðslu launa á uppsagnarfresti en forsendur þess eru að ellegar færu þessi fyrirtæki í þrot, starfsfólk væri verr sett en áður (nú fær starfsfólk uppsagnarfrestinn greiddan áður en það þarf hugsanlega að leita í atvinnuleysistryggingar) og gjaldþrota fyrirtæki færu á brunaútsölu með tilheyrandi tapi verðmæta. Þessi stuðningur hreyfingarinnar er þó ekki skilyrðislaus. Fyrir utan þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla og mikið hafa verið til umfjöllunar þá er það líka skilyrði af okkar hálfu að þegar fyrirtækin taka við sér, verði fólk endurráðið samkvæmt starfsaldursröð á sömu kjörum og það var á. Við höfum líka lagt áherslu á að fólk hafi tækifæri til endurmenntunar á uppsagnarfresti.

Ekkert þessara atriða hefur ratað inn í frumvarpið í meðförum þingsins á þessum tímapunkti. Því er ljóst að fyrirtæki geta sagt fólki upp og endurráðið á lakari kjörum og sleppt því að endurráða starfsfólk sem hefur áunnið sér starfsaldurstengd réttindi. Ef frumvarpið nær fram að ganga í þessari mynd gæti það leitt til mestu kjaraskerðingar síðari tíma með stuðningi löggjafans. Við höfum sent þingmönnum bréf með ítrekuðum kröfum og átt milliliðalaust samtal við þingmenn í dag. Ég ætlast til þess af þingmönnum og öllum þeim sem geta látið rödd sína heyrast að þau tryggi að þetta stórslys verði ekki að veruleika.