Allir póstar eftir

Guðmundur Rúnar Árnason

Ekki er jafnréttið mikið í raun!

By Fréttir

Föstudagspistill Drífu Snædal, forseta ASÍ fer hér á eftir:

Í upphafi síðustu aldar töldu ýmsir að kosningaréttur kvenna væri lykillinn að kvenfrelsi. Síðar vöktu lög um jöfn laun fyrir sömu störf svipaðar væntingar. Konur fóru í stórum stíl út á vinnumarkað og þau störf sem áður voru unnin ólaunað heima voru orðin launuð störf. Þessi störf voru og eru hins vegar vanmetin til launa – ekki alveg alvöru störf – ekki svona mikilvæg eins og sum önnur störf sem lengur hefur tíðkast að greiða fyrir. Til að auka verðmæti kvennastarfanna var menntastigið hækkað og konur þustu í nám. Í raun er eina leið kvenna til að hafa möguleika á að framfleyta sér og börnum sínum að mennta sig á meðan í boði eru vel launuð hefðbundin karlastörf sem krefjast ekki menntunar. Ójafnt hlutfall kynjanna í háskóla er því ekki endilega birtingamynd á vanda karla eða drengja heldur vanda vinnumarkaðar sem metur ekki konur að verðleikum.

Nú birtast upplýsingar úr tekjusögunni sem sýna að vel menntaðar konur eru á pari við minna menntaða karla í launum. Þetta er afleiðing hins skipulega vanmats á kvennastörfum sem er svo rótgróið í okkar menningu að við erum hætt að taka eftir því. Af hverju erum við í þessari stöðu á sama tíma og við státum okkur af árangri í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi? Svarið við því er meðal annars að finna í umræðunum um fæðingarorlofið þar sem sum héldu því fram að við hefðum náð svo langt í jafnrétti að handaflsaðgerðir væru orðnar ónauðsynlegar. Það er langt í frá og ekkert sem bendir til þess að jafnrétti sé að aukast. Þvert á móti hefur skýrasta mælingin á misrétti – launamunur kynjanna – staðið í stað síðustu ár. Við höfum enn verk að vinna að breyta menningunni til kvenfrelsis og við skulum byrja á því að meta störf kvenna með réttum hætti.

Nýr stofnanasamningur vegna Hrafnistu og Sólvangs

By Fréttir

Í gær var undirritaður nýr stofnanasamningur milli Hlífar og VSFK annars vegar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu hins vegar. Samningurinn er byggður á kjarasamningi sömu aðila frá 30. júní sl. og gildir frá 1. janúar sl.

Samningurinn fjallar einkum um röðun í launaflokka, sem tekur m.a. mið af starfsaldri, menntun, bæði formlegri og símenntun, vöktum og ábyrgð í starfi.

Á myndinni eru frá vinstri: Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður VSFK og Lilja Harðardóttir og Tryggvi Friðjónsson frá SFV.

Menntakerfið okkar

By Fréttir

Undanfarið hefur hópur nemenda í 10. bekk Víðistaðaskóla kynnt áherslur sínar og kröfur til yfirvalda um gagngera uppstokkun á námsskrá grunnskóla, með það fyrir augum að leggja meiri áherslu á að undirbúa nemendur undir þátttöku í daglegu lífi. Í því sambandi hafa þau sérstaklega nefnt vinnumarkaðinn. Við hjá Hlíf settum okkur í samband við þau til að fræðast nánar um áherslur þeirra og sjónarmið. Til okkar mættu þrír af fjórum stjórnarmönnum í þessum sjálfssprottna hópi: Helga María Kristinsdóttir, Alexander Ívar Logason og Elísabet Véný Þórisdóttir Schioth. Fjórði stjórnarmaðurinn, Hildur Jóna Valgeirsdóttir hafði ekki tök á að mæta að þessu sinni.

Þau spurðu okkur fjölmargra spurninga, svo sem varðandi réttindi á vinnumarkaði, hvernig best sé að bera sig að við að sækja um starf, gera ferilskrá og um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.  Fjölmargt bar á góma, kjarasamningar, kauptaxtar, launaseðlar, vinnusiðferði og skattar. Margar spurninganna snerust um verkefni stéttarfélags, hvað færðu fyrir félagsgjaldið og hvað getur stéttarfélagið gert fyrir þig. Auk þess var spurt um orlof, örorku, fæðingarorlof og fleira.

Það kom fram í máli fulltrúa hópsins, að þau telja mikilvægt að flétta fræðslu um þessi mál inn í þær námsgreinar sem nú þegar eru kenndar.

Við vonum að þau hafi haft gagn af heimsókninni. Fulltrúar Hlífar, Kolbeinn formaður, Eyþór varaformaður og Guðmundur Rúnar framkvæmdastjóri höfðu sannarlega mikið gagn af henni og við ákváðum að vera áfram í sambandi og að Verkalýðsfélagið Hlíf væri reiðubúið að leggja sitt af mörkum, í samvinnu við þau og skólayfirvöld.

Árið 2022 verði skerðingalaust – eins og skattlausa árið – segir forseti ASÍ

By Fréttir

„Nú þegar við horfum fram á tíma þar sem skerðingar á ferðafrelsi og samkomum falla smám saman niður er við hæfi að líta til hinna frelsisskerðinganna sem stórir hópar fólks hafa þurft að búa við á Íslandi vegna skorts á mannsæmandi afkomu. Árið 2022 gæti orðið skerðingarlaust ár, svona svipað og skattlausa árið á níunda áratugnum. Þá hefði fólk tækifæri til að bæta líf sitt, vinna eftir getu og losna tímabundið úr spennitreyjunni.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í föstudagspistli Drífu Snædal, forseta ASÍ í dag. Pistillinn fer hér á eftir.

Víða um heim er farið að reyna verulega á þanþol almennings eftir frelsisskerðingar og afkomuóöryggi sem faraldurinn hefur í för með sér. Þetta birtist í óeirðum og óþoli víða þótt flestir sýni aðdáunarverða stillingu. Aukinn ójöfnuður og ótti um eigin afkomu er hins vegar gamalreynd uppskrift að óánægju, óþoli og jafnvel óeirðum. Nú berast af því fréttir að ríkustu fyrirtæki og menn í heimi hafi hagnast verulega síðasta árið á sama tíma og fátækt eykst og mörg ríki eru í vandræðum með að mæta kostnaði við bólusetningar. Ójöfnuður eykst hratt og milljónir hafa misst lífsviðurværi sitt. Framtíðin er óviss. Þetta er hinn fullkomni jarðvegur fyrir andlýðræðisleg öfl sem stíga gjarnan inn í upplausnarástand.

Lítum okkur nær: Ísland hefur komið vel út úr faraldrinum í alþjóðlegum samanburði og takmarkanir á athöfnum daglegs lífs hafa því ekki verið jafn harkalegar hér og víða annars staðar. Þetta má þakka öflugu, opinberu heilbrigðiskerfi sem inniber nægilega sérfræðiþekkingu til að geta veitt stjórnmálunum leiðsögn til að takast á við faraldurinn. Stjórnmálin eiga líka sitt, það er að hafa tekið leiðsögninni, fremur en að reyna að keyra heimsfaraldurinn í pólitískan átakafarveg. Hér á landi hefur hins vegar ekki tekist að tryggja afkomu fólks og það er fullt tilefni til að hafa áhyggjur af spillingu og auknum ójöfnuði. Það verður ekki sagt nógu oft að grundvöllur friðar og lýðræðis er að tryggja afkomu. Það má enginn vera undanskilinn; launafólk, atvinnuleitendur, öryrkjar, aldraðir. Allir eiga að búa við afkomuöryggi í sanngjörnu samfélagi. Misréttið var til staðar fyrir kófið. Fólk hefur löngum verið sett í spennitreyju víxlverkandi skerðinga í velferðarkerfinu og oft og tíðum gert ómögulegt að bæta líf sitt án þess að eiga á hættu að missa framfærslu til framtíðar. Þetta er ósanngjarnt og býr til meiri erfiðleika en þurfa að vera. Vísbendingar eru um að kófið muni heldur auka á ójöfnuð og koma verst við þá sem höllum fæti standa en vænka hag hinna. 

Nú þegar við horfum fram á tíma þar sem skerðingar á ferðafrelsi og samkomum falla smám saman niður er við hæfi að líta til hinna frelsisskerðinganna sem stórir hópar fólks hafa þurft að búa við á Íslandi vegna skorts á mannsæmandi afkomu. Árið 2022 gæti orðið skerðingarlaust ár, svona svipað og skattlausa árið á níunda áratugnum. Þá hefði fólk tækifæri til að bæta líf sitt, vinna eftir getu og losna tímabundið úr spennitreyjunni. Það gefur okkur líka færi á að byggja sanngjarnara velferðarkerfi fyrir alla og taka stórt skref í átt að auknu afkomuöryggi. Það væri við hæfi að gera þetta um leið og við komum saman, föllumst í faðma og gerum allt sem heimsfaraldurinn hefur komið í veg fyrir.