Allir póstar eftir

Guðmundur Rúnar Árnason

Enn vinningar í pottinum

By Fréttir

Tveir vinningarhafar hafa til þessa gefið sig fram í Gallupútdrættinum. Enn eru vinningar í pottinum. Þeir félagsmenn sem hafa fengið sent boð frá Gallup um þátttöku í könnuninni, en hafa ekki enn gefið sér tíma til að svara, eru hvattir til að gera það sem fyrst. Hvert svar skiptir máli.

Arnór Guðjónsson tekur við vinningi úr hendi formanns Hlífar

Olga Karin Aadnegard Silvonen tekur við sínum vinningi.

Gallupkönnun í fullum gangi

By Fréttir

Þeir félagsmenn Hlífar sem hafa fengið sendan spurningalista frá Gallup eru hvattir til að svara sem fyrst.

Það skiptir máli að sem flestir sem lentu í úrtakinu svari – það gefur nákvæmari niðurstöður, en það skiptir miklu máli því niðurstöðurnar verða nýttar til að efla starfsemi og þjónustu félagsins.

Auk þess geta heppnir svarendur dottið í lukkupottinn!

Sveitarfélögin sýni ábyrgð

By Fréttir

Alþýðusambandið ítrekar nauðsyn þess að sveitarfélög sýni ábyrgð og styðji við lífskjarasamningana með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám, rétt eins og yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga frá síðasta vori kvað á um.

Alþýðusambandinu hafa borist fregnir af því að sum sveitarfélög hafi gefið út að þau ætli að halda hækkunum á gjaldskrám, þ.m.t. fasteignagjöldum, innan við 2,5% og taka þannig ábyrgð og taka þátt í að stuðla að verðstöðugleika í samfélaginu sem er vel.  

Það á þó því miður ekki við um öll sveitarfélög en fréttir hafa borist af því að sum þeirra ætli sér að láta íbúa bera miklar gjaldskrárhækkanir á komandi ári og draga þannig úr þeim ávinningi sem lífskjarasamningunum var ætlað að skila.

Þá virðast sum sveitarfélög ætla að hækka fasteignaskatta og önnur fasteignagjöld langt umfram verðbólgu og bera fyrir sig þau rök að fasteignaskattar falli ekki undir gjaldskrár sveitarfélaga.

Fasteignaskattar eru meðal þeirra útgjaldaliða sem fasteignagjöld samanstanda af og falla þeir því að sjálfsögðu undir gjaldskrár sveitarfélaga sem eru ákvarðaðar á ári hverju, rétt eins og leikskólagjöld og önnur gjöld. Fasteignagjöld, þ.m.t. fasteignagskattar vega í mörgum tilfellum þungt í útgjöldum heimilanna og ljóst er að það dugar skammt að halda aftur af hækkunum á aðgangseyri ofan í sundlaugar ef hækka á fasteignaskatta á sama tíma.

Alþýðusambandið krefst þess að sá ávinningur sem kjarasamningarnir hafa veitt heimilum landsins verði ekki eyðilagður með hækkun gjalda. Sveitarfélögum landsins ber að fara að fordæmi þeirra sveitarfélaga sem ætla að sýna ábyrgð og halda aftur af hækkunum á öllum þeim gjaldskrám sem snerta heimili landsins.

Boðaðar hækkanir fordæmdar

By Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega þeim hækkunum sem eru að koma fram víða hjá sveitarfélögunum um þessar mundir. Þar má nefna hækkanir á einstökum gjaldskrám á um annan tug prósenta, yfirgengilegar hækkanir á launum bæjarstjórnarmanna og verulegar hækkanir og breytingar á leigukjörum í félagslegu húsnæði. Fasteignagjöld hafa einnig hækkað mikið undanfarin ár og þó sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarhlutfallið vegur það alls ekki upp á móti hækkun á fasteignamati.

Allar þessar hækkanir eru brot á yfirlýsingu sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út í tengslum við lífskjarasamningana í vor. Í henni segir m.a.;

,,Til að stuðla að verðstöðugleika mun Samband íslenskra sveitarfélaga mælast til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmdar.Einnig mun sambandið mælast til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.“

Eitt af meginmarkmiðum lífskjarasamningsins er að lækka húsnæðiskostnað hjá þeim tekjulægstu og óskiljanlegt hvernig hækkun húsaleigu félagslegs húsnæðis samræmist yfirlýsingum sveitarfélaganna. Það er algerlega óþolandiað sjá þær kjarabætur sem samið var um í vor teknar beint af launafólki með þessum hækkunum sveitarfélaganna. Og ekki þarf að hafa mörg orð um þá sveitarstjórn sem hækkar sín eigin laun um 18-30% meðan ekki hefur náðst samningur milli SGS og sveitarfélaganna.

Félagsmenn okkar munu ekki sitja hljóðir hjá ef þeir eiga einir að standa við gerða samninga. SGS skorar  á Samband íslenskra sveitarfélaga og einstök sveitarfélög að standa við fyrrnefnda og axla með því ábyrgð á að markmið samninganna frá því í vor náist.

Munið desemberuppbótina

By Fréttir

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum  að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Uppbótin er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga.

Full desemberuppbót árið 2019:
-92.000 kr. hjá þeim sem vinna á almennum vinnumarkaði.
-89.000 kr. hjá þeim sem vinna hjá ríki (gildir líka um þá sem starfa hjá fyrirtækjum í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu)
-113.000 kr. hjá þeim sem vinna hjá sveitarfélögum (gildir líka um þá sem vinna hjá Hjallastefnunni og Skólum ehf)
-216.711 kr. hjá þeim sem vinna í álverinu í Straumsvík

Ekki er enn búið að semja við ríki, sveitarfélögin og Rio Tinto Alcan. Því gilda þar sömu fjárhæðir og í fyrra. Þegar búið verður að semja við þessa aðila þarf væntanlega að greiða uppbót miðað við það sem samið verður um.

Kjarasamningur SGS við SA (almennur vinnumarkaður)
Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Desemberuppbót innifelur orlof, er föst talar og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Áunna desemberuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Starfsmaður sem er í ráðningarsambandi við fyrirtæki en er ekki á launaskrá vegna hráefnisskorts eða vegna veikinda í desember missir ekki rétt til desemberuppbótar og reiknast sá tími með við útreikning desemberuppbótar mæti hann til vinnu að lokinni fjarveru vegna hráefnisskorts.

Kjarasamningur SGS við ríkið
Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Desemberuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á desemberuppbót reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda desemberuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

Kjarasamningur SGS við sveitarfélögin
Starfsmaður í fullu starfi fær greidda desemberuppbót (persónuuppbót) 1. desember ár hvert. Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár. Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi desemberuppbót. Desemberuppbót skv. gr. 1.7.1. greiðist starfsmönnum sem fóru á eftirlaun á árinu, enda hafi þeir skilað starfi er svari til a.m.k. hálfs starfsárs það ár. Sama regla gildir um þá, sem sökum heilsubrests minnka við sig starf, enda liggi fyrir um það vottorð læknis. Heildargreiðsla til eftirlaunaþega verði aldrei hærri en full desemberuppbót sbr. grein 1.7.1. Desemberuppbót er með inniföldu orlofi og greiðist sjálfstætt og án tengsla við laun.

Kjarasamningur við Rio Tinto Alcan
Starfsmaður sem í nóvemberlok hefur unnið samfleytt hjá ISAL í eitt ár eða lengur skal fá greidda desemberuppbót. Orlofs- og desemberuppbót skal nema hálfum byrjunarlaunum 14 launaflokks að viðbættum 5 ára sveinsbréfsálagi og ferðapeningum. Orlofsuppbótin kemur til greiðslu með maílaunum og desemberuppbótin með nóvemberlaunum. Starfsmenn með skemmri starfstíma og þeir sem ráðnir eru í hlutastarf fá hlutfallslegar greiðslur að undanskildum þeim sem starfa samkvæmt fylgiskjali (19) sjá lið 6.2. Starfsmenn sem unnið hafa hjá fyrirtækinu samfleytt í 20 vikur eða lengur og hætta störfum áður en til greiðslu kemur samkvæmt þessum lið skulu fá hlutfallslegar greiðslur.