Allir póstar eftir

Guðmundur Rúnar Árnason

Orlofshús um páska

By Fréttir

Föstudaginn 1. mars opnar bókunarvefurinn fyrir umsóknir um orlofshús um páskana. Sækja þarf um fyrir páskaúthlutun fyrir 15. mars. Opnað verður fyrir bókanir vegna sumarúthlutunar 17. mars.

Vegna páskaúthlutunar þarf að vera búið að greiða 22. mars. Ef ekki er búið að ganga frá greiðslu fyrir tilsettan tíma, verður endurúthlutað.

Úthlutun vegna páska og sumarúthlutunar byggir á áunnum punktum, þannig að röð umsókna skiptir ekki máli, einungis að sótt sé um áður en umsóknarfresti lýkur.

Til að bóka á vefnum, þarf umsækjandi að vera með rafræn skilríki. Sé félagsmaður ekki með rafræn skilríki þarf hann að koma á skrifstofuna, eða hafa samband í síma 5100800.

Næsti viðtalstími lögmanna

By Fréttir

Lögmenn Hlífar verða næst með viðtalstíma á skrifstofu Hlífar milli 11:00 og 12:00 næstkomandi föstudag, 1. mars. Vegna ásóknar er nauðsynlegt að panta tíma fyrirfram, í síma 5100 800 eða með tölvupósti á hlif@hlif.is.

Félagsmenn í Hlíf eiga rétt á viðtali hjá lögmanni félagsins. Þeir eru með viðtalstíma á skrfstofu félagsins annan hvern föstudag. Nauðsynlegt er að panta tíma fyrirfam.

Tími sanngirni er runninn upp – þess vegna átök

By Fréttir

„Tími sanngirni er runninn upp, vinnandi fólk er tilbúið að sækja það sem því ber; lífsgæði, velferð og réttlátt kaup fyrir sína vinnu.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í föstudagspistli Drífu Snædal, forseta ASÍ í dag. Pistill Drífu fer hér á eftir

Að vera þerna á hóteli er eitt erfiðasta starf sem hægt er að vinna. Lágmarkslaun í dagvinnu fyrir slíkt starf er 300.000 krónur (eftir 6 mánuði). Eftir skatt fær viðkomandi 236.000 krónur í vasann sem dugir ekki fyrir leigu á þriggja herbergja íbúð. Á mánudaginn hefst atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hótelþerna, sem ráðgert er að hefjist á baráttudegi kvenna 8. mars, til að knýja á um mannsæmandi laun.

Mikil er ábyrgð þeirra sem hafa leyft misréttinu að aukast síðustu ár og áratugi þannig að hagsældin í okkar ríka landi hefur ekki skilað sér til allra. Þeirra er ábyrgðin á því að nú stefnir í hörðustu átök á vinnumarkaði í áratugi.

Það er hárrétt sem bent hefur verið á að deilurnar eru á milli vinnandi fólks og atvinnurekenda. Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því að stjórnvöld hafa tækið í höndunum til að jafna kjör og tryggja velferð. Að skattkerfið hafi fengið að þróast með þeim hætti að hinir ríkari fái skattalækkanir á meðan skattbyrðin eykst hjá hinum tekjulægstu er uppskriftin að deilum á vinnumarkaði. Það var því ekkert nema eðlilegt að verkalýðshreyfingin gæfi stjórnvöldum tækifæri til að afstýra átökum með því að laga skattkerfið. En hvað gerðist? Skattalækkun á alla, þar með talið bankastjórana sem hafa fengið ríflegar launahækkanir undanfarið, svo ekki sé minnst á kjörnu fulltrúana sem kjararáð hefur verið svo rausnarlegt við. Skattalækkunin nemur svo tæplega sjö þúsund krónum sem eiga að koma til framkvæmda einhverntíman á næstu þremur árum. Þetta voru mikil vonbrigði. Réttlætiskenndinni er greinilega ekki fyrir að fara við ríkisstjórnarborðið. En nú er ljóst að vinnandi fólk þarf að einbeita sér að atvinnurekendum til að ná fram réttlæti og sanngirni.

Í gær var viðræðum fjögurra stéttarfélaga við atvinnurekendur slitið og fleiri stéttarfélög til viðbótar vísuðu deilunni til sáttasemjara. Ekki er loku fyrir það skotið að fleiri félög vísi á næstunni. Tími sanngirni er runninn upp, vinnandi fólk er tilbúið að sækja það sem því ber; lífsgæði, velferð og réttlátt kaup fyrir sína vinnu.

Njótið helgarinnar,
Drífa

Starfsgreinasambandið vísar deilunni til ríkissáttasemjara

By Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands vísaði í dag deilunni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið frá í október og þótt ýmislegt hafi þokast áfram í einstökum málum, er það mat viðræðunefndar SGS að lengra verði ekki komist án atbeina ríkissáttasemjara. 

Haldnir hafa verið næstum 80 fundir um sértæk mál og viðræðunefndir SGS og SA hafa fundað næstum 30 sinnum um forsendur og innihald kjarasamnings. 

Ýmislegt hefur þokast áfram á undangegnum vikum í einstökum málum og umræðugrundvöllur til staðar á öðrum sviðum. Þrátt fyrir það er það mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra nema með  aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni, sem er eðlilegt skref í áframhaldandi vinnu. Það sem einkum steytir á, er sá mikli munur sem er á kröfum félaganna um launahækkanir og þess sem SA er tilbúið til að gera í þeim efnum.

Verkalýðsfélagið Hlíf er eitt 16 félaga sem Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir.

Miðstjórn ASÍ lýsir vonbrigðum með skattatillögur

By Fréttir

Miðstjórn ASÍ lýsir verulegum vonbrigðum með þau áform um breytingar á skattkerfinu sem fjármálaráðherra kynnti í gær.

Tillögurnar mæta engan veginn kröfum verkalýðshreyfingarinnar um tekjujöfnunar- og tekjuöflunarhlutverk skattkerfisins og geta að óbreyttu ekki orðið grundvöllur sáttar í samfélaginu.

Tillögurnar byggja á því að létta skattbyrði allra tekjuhópa og auka ráðstöfunartekjur láglaunafólks og bankastjóra um sömu krónutölu. Stór hluti af því „svigrúmi“ sem fjármálaráðherra telur til skattalækkana er þannig nýtt til að lækka skatta á tekjuhæstu hópana þvert gegn því sem kallað er eftir í samfélaginu.

Launafólk ætlar ekki að borga skattalækkunina sjálft 
Engin áform er að sjá um að auka eigi stuðning við barnafjölskyldur og endurreisa vaxtabótakerfið og full ástæða er til að óttast að stór hluti skattalækkunarinnar verði tekin aftur með enn frekari tekjuskerðingum í barna- og vaxtabótakerfinu.

Stjórnvöld virðast ekki ætla að styrkja aðra tekjustofna ríkisins samhliða breytingunni s.s. með upptöku hátekjuskatts, auðlegðarskatti, hækkun fjármagnstekjuskatts eða afgjaldi fyrir auðlindanýtingu. Breytingin mun því þýða að minna verður til ráðstöfunar til brýnna úrbóta, t.d. í velferðarkerfinu og í samgöngumálum.

Launafólk mun aldrei sætta sig við skattkerfisbreytingar sem það borgar sjálft fyrir með veikara velferðarkerfi, verri innviðum og auknum nefsköttum. Slík stefna hefur verið viðhöfð um langt skeið og kemur alltaf verst niður á þeim tekjulægstu. Launafólk vill sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð.

Skattatillögur ríkisstjórnarinnar valda vonbrigðum

By Fréttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ segir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum mikil vonbrigði og þær muni ekki liðka fyrir kjarasamningum. Illa sé farið með það fé sem hafi verið eyrnamerkt í þetta verkefni – t.d. með því að lækka skatta upp allan stigann. Auk þess sé engin viðbótartekjuöflun, svo sem með hækkun auðlindagjalda og fjármagnstekjuskatts, auk hátekjuskatts. Ekki sé bætt í barnabóta- og húsnæðiskerfin umfram það sem þegar hefur verið gert og fjárveitingar í barnabætur hafi ekki náð raungildi ársins 2010. Að sögn Drífu dugar skattalækkun hjá þeim hópum sem ekki ná endum saman varla fyrir einni ferð í Bónus – og hún komi einhvern tíma á næstu þremur árum.