Allir póstar eftir

Guðmundur Rúnar Árnason

Megum aldrei gefa afslátt…

By Fréttir

„Verkalýðshreyfingin þarf að breytast með vinnumarkaðnum en við verðum þó alltaf að halda í staðarþekkingu og grunneiningar þar sem félagsmenn stýra ferðinni. Við megum aldrei gefa afslátt af áunnum réttindum, kjörum og öryggi á vinnustað heldur leita leiða til að bæta enn frekar í. Það eru stór verkefni sem bíða okkar en verkalýðshreyfingin á Íslandi er vel skipulögð grasrótarhreyfing og tilbúin í það sem koma skal. Krafa okkar í dag er meiri jöfnuðuður og samfélag þar sem allir fá tækifæri til að blómstra. Förum þangað og öllum farnast betur.“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ávarpi Drífu Snædal, forseta ASÍ á 1. maí.

Ávarpið í heildStuðningur við aðgerðir Eflingar

By Fréttir

Verkalýðsfélagið Hlíf lýsir yfir fullum stuðningi við boðað verkfall félaga í Eflingu 8. mars nk. Við hvetjum félagsmenn Hlífar til þess að ganga alls ekki í störf félagsmanna Eflingar komi til verkfalls.

Samninganefnd SGS hefur jafnframt samþykkt stuðningsyfirlýsingu við aðgerðir Eflingar.

Á fundi sínum síðdegis í dag, miðvikudag, samþykkti miðstjórn ASÍ yfirlýsingu til stuðnings aðgerðum Eflingar.

Sveitarfélögin haldi aftur af kostnaðarhækkunum

By Fréttir

Fyrsti fundur SGS og SA hjá ríkissáttasemjara var haldinn í gær, miðvikudag. Á fundinum var lögð um áætlun um vinnuna næstu daga. Í kjölfarið fundaði samninganefnd SGS, þar sem m.a. var rætt um ábyrgð sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga. Samninganefndin ályktaði eftirfarandi:

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands skorar á sveitarfélög landsins að standa undir þeirri ábyrgð sem þau bera vegna kjarasamninga. SGS krefst þess að sveitarfélögin haldi aftur af kostnaðarhækkunum og hækkunum á margvíslegum þjónustugjöldum og velti ekki auknum kostnaði yfir á almennt launafólk.Sjálfvirkar hækkanir á fasteignagjöldum í fjölmörgum sveitarfélögum eru algerlega óásættanlegar og bitna harðast á þeim sem síst skyldi.

Það þurfa allir í samfélaginu að taka höndum saman um að bæta afkomu þeirra lægst launuðu í samfélaginu og tyggja þeim raunverulegar kjarabætur.

Orlofshús um páska

By Fréttir

Föstudaginn 1. mars opnar bókunarvefurinn fyrir umsóknir um orlofshús um páskana. Sækja þarf um fyrir páskaúthlutun fyrir 15. mars. Opnað verður fyrir bókanir vegna sumarúthlutunar 17. mars.

Vegna páskaúthlutunar þarf að vera búið að greiða 22. mars. Ef ekki er búið að ganga frá greiðslu fyrir tilsettan tíma, verður endurúthlutað.

Úthlutun vegna páska og sumarúthlutunar byggir á áunnum punktum, þannig að röð umsókna skiptir ekki máli, einungis að sótt sé um áður en umsóknarfresti lýkur.

Til að bóka á vefnum, þarf umsækjandi að vera með rafræn skilríki. Sé félagsmaður ekki með rafræn skilríki þarf hann að koma á skrifstofuna, eða hafa samband í síma 5100800.

Næsti viðtalstími lögmanna

By Fréttir

Lögmenn Hlífar verða næst með viðtalstíma á skrifstofu Hlífar milli 11:00 og 12:00 næstkomandi föstudag, 1. mars. Vegna ásóknar er nauðsynlegt að panta tíma fyrirfram, í síma 5100 800 eða með tölvupósti á hlif@hlif.is.

Félagsmenn í Hlíf eiga rétt á viðtali hjá lögmanni félagsins. Þeir eru með viðtalstíma á skrfstofu félagsins annan hvern föstudag. Nauðsynlegt er að panta tíma fyrirfam.

Tími sanngirni er runninn upp – þess vegna átök

By Fréttir

„Tími sanngirni er runninn upp, vinnandi fólk er tilbúið að sækja það sem því ber; lífsgæði, velferð og réttlátt kaup fyrir sína vinnu.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í föstudagspistli Drífu Snædal, forseta ASÍ í dag. Pistill Drífu fer hér á eftir

Að vera þerna á hóteli er eitt erfiðasta starf sem hægt er að vinna. Lágmarkslaun í dagvinnu fyrir slíkt starf er 300.000 krónur (eftir 6 mánuði). Eftir skatt fær viðkomandi 236.000 krónur í vasann sem dugir ekki fyrir leigu á þriggja herbergja íbúð. Á mánudaginn hefst atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hótelþerna, sem ráðgert er að hefjist á baráttudegi kvenna 8. mars, til að knýja á um mannsæmandi laun.

Mikil er ábyrgð þeirra sem hafa leyft misréttinu að aukast síðustu ár og áratugi þannig að hagsældin í okkar ríka landi hefur ekki skilað sér til allra. Þeirra er ábyrgðin á því að nú stefnir í hörðustu átök á vinnumarkaði í áratugi.

Það er hárrétt sem bent hefur verið á að deilurnar eru á milli vinnandi fólks og atvinnurekenda. Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því að stjórnvöld hafa tækið í höndunum til að jafna kjör og tryggja velferð. Að skattkerfið hafi fengið að þróast með þeim hætti að hinir ríkari fái skattalækkanir á meðan skattbyrðin eykst hjá hinum tekjulægstu er uppskriftin að deilum á vinnumarkaði. Það var því ekkert nema eðlilegt að verkalýðshreyfingin gæfi stjórnvöldum tækifæri til að afstýra átökum með því að laga skattkerfið. En hvað gerðist? Skattalækkun á alla, þar með talið bankastjórana sem hafa fengið ríflegar launahækkanir undanfarið, svo ekki sé minnst á kjörnu fulltrúana sem kjararáð hefur verið svo rausnarlegt við. Skattalækkunin nemur svo tæplega sjö þúsund krónum sem eiga að koma til framkvæmda einhverntíman á næstu þremur árum. Þetta voru mikil vonbrigði. Réttlætiskenndinni er greinilega ekki fyrir að fara við ríkisstjórnarborðið. En nú er ljóst að vinnandi fólk þarf að einbeita sér að atvinnurekendum til að ná fram réttlæti og sanngirni.

Í gær var viðræðum fjögurra stéttarfélaga við atvinnurekendur slitið og fleiri stéttarfélög til viðbótar vísuðu deilunni til sáttasemjara. Ekki er loku fyrir það skotið að fleiri félög vísi á næstunni. Tími sanngirni er runninn upp, vinnandi fólk er tilbúið að sækja það sem því ber; lífsgæði, velferð og réttlátt kaup fyrir sína vinnu.

Njótið helgarinnar,
Drífa