Skip to main content

Ávarp verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði á 1. maí

By 28.04.2011April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized

Fyrir ári síðan töluðum við um að okkur óraði ekki fyrir því að ástandið gæti orðið eins og raunin varð. Við sögðum einnig að þó að á móti blési þá væru tækifærin mörg, við þyrftum að virkja vinnufúsar hendur og þá gætum við í sameiningu staðið af okkur þær hamfarir sem efnahagshrunið olli okkur. Og nauðsynlegt væri að skapa ný atvinnutækifæri og láta einskis ófreistað til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. En hvar erum við stödd ENN einu ári síðar?“

Bankarnir sem eru nú flestir í eigu erlendra kröfuhafa bólgna út af fjármagni, fjármagni sem komið er til af því þeir fengu skuldir landsmanna á útsölu og því til viðbótar milljarðatugi úr ríkissjóði svo að eiginfjárstaða þeirra stæðist lög um bankastarfssemi. Þessar stofnanir ganga nú harkalega fram í innheimtu á útsöluskuldunum með vöxtum og kostnaði, enga miskunn þar að hafa, almúginn skal borga. En þeir sem stjórnuðu bönkunum og stjórna margir þar enn hafa fengið sínar skuldir afskrifaðar.

Sett voru lög um frystingu húsnæðislána til að koma til mótsvið þá sem misst höfðu vinnu og voru í fjárhagserfiðleikum. En hvað gerist þegar þau falla úr gildi? Þessi hörku duglega og vinnusama þjóð sem hefur í gegnum aldirnar unnið eins og skepna myrkanna á milli til að eignast þak yfir höfuðið, fæða sig og klæða mun brátt standa berrössuð og betlandi á götum úti verði ekkert að gert. Heimilin eru komin að fótum fram þau þola ekki meira.

Stjórnvöld í þessu landi eru í engum takti við þegna þessa lands. Hvað hafa þau verið að gera, hvað ERU þau að gera? Hækka skatta? Hækka álögur á eldsneyti? Hækka gjaldstofna og auka álögur af öllum þeim mögulegu og ómögulegu þáttum sem þeir hafa hugmyndaflug til? JÁ og aftur JÁ.  Að ógleymdum þeim lífsnauðsynlega þætti að versla í matinn, þar skal sultarólin hert, því ekkert annað er í boði í þessari veislu.

Er Alþingi Íslendinga að koma sér saman um hvernig leysa megi úr þessum efnahagslegu ógöngum sem eru búnar að standa yfir í þrjú ár? NEI. Alþingi rífst yfir því hver er hæfastur til að koma þjóðinni út úr þessari kvöl og hæst heyrist í þeim sem komu okkur á heljarþröm, þeir  telja sig hæfasta. Já það glymur hátt í tómri tunnu og tunnan hefur fengið nafn, Alþingishúsið við Austurvöll.

Sveitafélögin, hvernig höguðu ráðamenn þeirra sér? Ekki var nú skynseminni fyrir að fara þar á bæjum. Það er sama hvert litið er, óráðsía ráðamanna algjör. Almúganum talið trú um í hverjum kosningum á fætur öðrum að þeir séu bestir til að gera „góða hluti“. Fólk sem misst hefur vinnu leitar í löngum röðum eftir aðstoð sveitafélaga til að geta brauðfætt sig og sína í algerri örvæntingu.

Hversu djúpt getur ein þjóð sokkið. Þrátt fyrir þær gríðarlegu auðlindir sem þjóðin á og mannauð þá virðist ekkert vera aðhafast til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það getur hver heilvita maður séð að þeir sem misst hafa atvinnuna að öllu leyti eða að hluta, ef þeim er ekki gefið tækifæri til að halda reisn sinni með því að afla tekna fyrir sig og sína með löglegum og heiðvirðum hætti þá verður erfitt að snúa til betri vegar. Margir standa frammi fyrir því að þurfa að setja sig og heimilin sín í gjaldþrot. Og er það orðið svo að það sé þjóðhagslega hægkvæmt? Eina hugsunin virðist vera sú að fjármagnseigendur skulu fá sitt. Gera ráðamenn sér ekki ljóst að þeir eru að drepa gullgæsina. Ljúfi draumurinn er orðin að hryllilegri martröð. VAKNIÐ, hlúið að því eina sem getur bjargað þjóðinni, hlúið að OKKUR, mannauðnum, það er hinn eini sanni auður.

Kosið var um Icesave lögin í þriðja sinn fyrir þremur vikum og niðurstaðan liggur fyrir, þeim var hafnað. Þetta mál hefur verið okkur fjötur um fót í þrjú löng ár og ekki sér fyrir endann á því enn. Ábyrgð og skuldir hverfa ekki með því að segja nei. Næstu misseri verða okkur enn erfiðari en sá tími sem við höfum lifað í óvissu og niðurskurði. Þjóðin hefur dæmt sig inní þessa óvissu,  framtíðarsýnin er óskýrari en áður. Það er ekki gott að stíga næstu skref því við vitum í rauninni ekkert hvert við erum að stefna.

Allir kjarasamningar í landinu eru lausir og hafa verið frá því í desember 2010. Búið er að vinna við  gerð kjarasamninga í langan tíma.  ASÍ og SA lögðu fram sameiginlegan lista sem beint var að stjórnvöldum til lausnar á kjarasamningsdeilunni. Má þar nefna, sókn í atvinnumálum og nýsköpun í atvinnulífinu til að vinna bug á atvinnuleysinu, koma opinberum framkvæmdum í gang, efla menntun í samræmi við tillögur samráðshóps, jafna lífeyrisréttindi milli almenna- og opinbera markaðarins, hækka bótafjárhæðir og persónuafslátt, að sett yrði löggjöf um kennitöluflakk og svarta atvinnustarfsemi, tekið yrði á húsnæðismálunum o.s.f.v.

Samningar voru að takast um miðjan apríl þegar LÍÚ tók kjarasamningana í gíslingu vegna væntanlegrar löggjafar um fiskveiðistjórnunarkerfið og ætlar sér að nota verkafólk sem svipu á stjórnvöld til að ná sínum sérhagsmunum fram. Það verður ekki liðið og er algjörlega óþolandi að ota launafólki til slíkra verka. Þeir gerðu árás á okkur  og blésu til orrustu sem er óásættanlegt við þær kringumstæður sem eru í þjóðfélaginu. Þetta stríð ætlum við að  vinna.

Launafólk, auður þjóðar!!

Það er sárara en tárum tekur að verða fórnarlamb misvitra mann. Eitt getum við þó verið viss um, verkafólk hafði engin efni á því að skuldsetja sig uppí rjáfur á svokölluðum góðæristíma, við höfðum það örlítið betra og héldum í horfinu en aðrir sáu um skuldsetninguna. Það er komin tími til breytinga. Við launafólk, sameinað, auður þessa lands, getum ein breytt til rétts vegar. Það er á okkar valdi að snúa vörn í sókn, stöðva ofbeldið sem er skuldlagning, gjaldtaka, minkað starfshlutfall, atvinnumissir, heimilishrakningar og þannig mætti lengi telja. Við getum stjórnað því hver lifir af, skilaboðin eru skýr. Verslum við þá sem sýna mannúð og ráðdeild og láta velgengnina jafnt til uppbyggingar til þeirra sem vinna og versla hjá þeim. Beinum viðskiptum okkar til þeirra sem koma fram við viðskiptavini sína sem fólk, ekki sem fjármagn, þeir eru ekkert án okkar. Þeir lifa ef við lifum og við ætlum að lifa.