Flokkur

Fréttir

Gallup könnun í gangi

By Fréttir

Nú stendur yfir gagnasöfnun vegna könnunar Gallup meðal úrtaks félagsmanna. Könnunin er unnin í samvinnu við Stéttarfélag vesturlands. Félagar sem fá boð um þátttöku eru hvattir til að svara við fyrsta tækifæri.

Þátttakendur lenda í happapotti, þar sem dregið verður um veglega vinninga. Sumir þátttakendur fá jafnframt tilkynningu um vinning strax eftir að þeir hafa svarað spurningalistanum.

Fjármálastofnanir skili vaxtalækkunum til neytenda

By Fréttir

Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega hækkun vaxtaálags banka og krefst þess að fjármálastofnanir skili vaxtalækkunum og lægri bankasköttum til neytenda.  

Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði 2019, Lífskjarasamningunum, var samið um launahækkanir þar sem einkum var hugað að lægstu launum. Samið var um krónutöluhækkanir með það að markmiði að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör almennings í landinu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

Í kjölfar kjarasamninganna vorið 2019 skapaðist svigrúm til lækkunar vaxta eins og til stóð. Vaxtalækkanir hafa gengið eftir en meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 0,75% og hafa lækkað um 3,75 prósentustig frá byrjun síðasta árs. Fyrir komu kórónuveirunnar til landsins lækkuðu meginvextir Seðlabanka Íslands um 1,75 prósentustig, niður í 2,75%.

Því til viðbótar hafa stjórnvöld forgangsraðað þannig að bankaskattur verði lækkaður. Meginrökin fyrir lækkun skattsins eru þau að hann leiði til hærri vaxta til heimilanna. Með lagasetningu er unnið að lækkun bankaskatts sem nemur 7,7 milljörðum króna í fjórum þrepum á árunum 2020–2023 og ákveðið var að flýta þessari lækkun vegna Covid-19. 

Það skýtur því skökku við að bankarnir ákveði við þessar aðstæður að hækka vaxtaálag. Gengur sú aðgerð þvert gegn markmiðum Lífskjarasamningsins og vinnur beinlínis gegn viðspyrnu í kjölfar COVID-kreppunnar. Með þessu taka bankarnir til sín stóran hlut af lækkun vaxta og axla ekki ábyrgð á erfiðum tímum. Á sama tíma eru bankarnir að auka hagnað sinn og eigið fé á kostnað heimila og fyrirtækja í landinu. 

Miðstjórn ASÍ krefst þess að lækkun vaxta skili sér til almennings og að bankar hverfi frá áformum um hækkun vaxtaálags þegar í stað. Að öðrum kosti þarf að endurskoða nálgun stjórnvalda og hverfa frá áformum um lækkun bankaskatts en beita heldur öðrum aðferðum við að tryggja lága vexti til almennings.

Launareiknivél

By Fréttir, Front-right

Starfsgreinasambandið hefur látið setja upp reiknivél þar sem félagsmenn geta reiknað út laun, kannað hvort launaseðlar séu réttir og annað það sem snertir margvíslegar greiðslur. 

Reiknivélin

Leitast hefur verið við að hafa reiknivélina eins einfalda í notkun og kostur er og má því búast við að hún nái ekki utan um öll möguleg tilfelli. Hér er um fyrstu útgáfu að ræða og m.a. á eftir að leggja lokahönd á þýðingar og fleira. Notendur eru beðnir að koma ábendingu og athugasemdum á framfæri á sgs@sgs.is.

Kjarasamningur við Rio Tinto í Straumsvík samþykktur

By Fréttir

Nýr kjarasamningur við Rio Tinto í Straumsvík var samþykktur með ríflega 90% atkvæða. Alls tóku um 70% félagsmanna í Híf og VR sem starfa í álverinu þátt í atkvæðagreiðslunni.

Á sama tíma fór fram atvæðagreiðsla meðal iðnaðarmanna um samning sem þeir gerðu á sama tíma og Hlíf og VR. Iðnaðarmenn samþykktu einnig samninginn með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Sumarhús Hlífar lokuð til 20. nóvember

By Fréttir

Vegna hertra sóttvarnaraðgerða og tilmæla um að halda ferðum í lágmarki, hefur Verkalýðsfélagið Hlíf ákveðið að loka sumarhúsum sínum til föstudagsins 20. nóvember. Þeir sem eiga bókað á þessu tímabili geta bókað ný tímabil í samráði við skrifstofu, eða fengið endurgreitt.