Flokkur

Fréttir

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamning starfsfólks á Sólvangi og Hrafnistuheimilunum

By Fréttir

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamning Hlífar og VSFK við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu stendur nú yfir.

Samningurinn gildir fyrir þá félagsmenn Hlífar sem starfa á hjúkrunarheimilinu Sólvangi og Hrafnistuheimilunum í Hafnarfirði og Garðabæ.

Kjósa hér

Til að greiða atkvæði þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Þeir sem ekki geta kosið rafrænt geta greitt atkvæði á skrifstofu Hlífar á skrifstofutíma, frá hádegi 10. júlí, til föstudagins 17. júlí kl. 16:00.

Rafræna atkvæðagreiðslan stendur til kl. 12:00, mánudaginn 20. júlí.

Geti félagsmaður ekki á kjörskrá en telji sig hafa atkvæðisrétt, getur viðkomandi sent tölvupóst á gra@hlif.is, með afriti af nýjasta launaseðli.

Hér má finna samninginn og ýmislegt kynningarefni um hann.

Kynningarfundur um nýjan kjarasamning við SFV

By Fréttir

Kynningarfundur um nýjan kjarasamning Hlífar og VSFK við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónstu verður haldinn fimmtudaginn 9. júlí, kl. 17:00. Fundurinn verður haldinn í félagsheimili eldri borgara, Hraunseli, Flatahrauni 3.

Fundinum verður streymt hér á vefnum.

Samningurinn gildir fyrir þá félagsmenn Hlífar sem starfa á Sólvangi og á Hrafnistuheimilunum í Hafnarfirði og Garðabæ.

Yfirlit yfir helstu atriði samningsins er að finna hér.

Helstu atriði kjarasamnings við SFV

By Fréttir

Þann 30. júní sl. var undirritaður kjarasamningur milli Verkalýðsfélagins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis annars vegar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu hins vegar. Samningurinn er með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu.

Atkvæðagreiðslan hefst kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 10 júlí og lýkur kl. 12:00 á hádegi mánudaginn 20. júlí.

Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 og til 31. mars 2023.


Kynningarglærur

Samningurinn sjálfur

English

Helstu atriði

Upptaka frá kynningarfundi

Helstu atriði samningsins

Launaliður

 • Þann 1. apríl 2019 hækka mánaðarlaun afturvirkt um 17.000 kr. Greiðsla inn á samninginn (105 þúsund krónur sumarið 2019) dregst frá við uppgjör afturvirkrar hækkunar.
 • Þann 1. apríl 2020 hækka mánaðarlaun um 24.000 kr. fyrir launaflokka 1-17 og um 18.000 kr. fyrir launaflokka þar fyrir ofan.
 • Þann 1. janúar 2021 tekur gildi ný launatafla. Við yfirfærslu í nýja launatöflu er tryggt að enginn sem raðast fyrir neðan launaflokk 17 fái minna en 24.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum. Aðrir fá að lágmarki 18.000 kr. hækkun mánaðarlauna.
 • Frá 1. janúar 2021 verður ráðstafað allt að 60 milljónum kr. á ársgrundvelli til endurskoðunar á stofnanasamningum og vegna röðunar í nýja launatöflu.
 • Þann 1. janúar 2022 hækka mánaðarlaun um 17.250 kr.
 • Laun í launaflokkum 1-17 hækka um 82.250 kr. á samningstímanum (+ áhrif af launatöflubreytingu)
 • Laun í launaflokkum 18 og ofar hækka samtals um 70.250 kr.
 • Sérstök ákvæði um laun ungmenna falla brott og taka ungmenni því sömu röðun og aðrir starfsmenn.

Greiðslur fyrir yfirvinnu verða tvenns konar. Annars vegar 1,0385% af mánaðarlaunum eins og verið hefur (yfirvinna 2) og hins vegar lægri yfirvinnutaxti fyrir vinnu frá kl. 08:00 til 17:00 virka daga, upp að 40 stundum á viku, sem verður 0,9385% af mánaðarlaunum (yfirvinna 1).

Desemberuppbót:

 • 92.000 kr. í desember 2019
 • 94.000 kr. í desember 2020
 • 96.000 kr. í desember 2021
 • 98. 000 kr. í desember 2022

Orlofsuppbót:

 • 50.000 kr. í júní 2019
 • 51.000 kr. í júní 2020
 • 52.000 kr. í júní 2021
 • 53.000 kr. í júní 2022

Stytting vinnuvikunnar – dagvinna

 • Sjá Fylgiskjal 1 í nýjum samningi og sérstaka kynningu
 • Tryggt verður að vinnutími styttist um 13 mínútur á dag (65 mínútur á viku) 1. janúar 2021 án nokkurrar skerðingar á launum eða öðrum réttindum.
 • Með sérstöku samkomulagi á vinnustöðum má stytta vinnuviku frekar, eða um allt að 4 klukkutíma á viku niður í 36 virkar vinnustundir.
 • Stytting niður í 36 vinnustundir krefst þess að gefa upp forræði yfir kaffitímum. Engu að síður er tryggt að fólk fái neysluhlé.
 • Vinnutímahópar skipaðir fulltrúum starfsfólks og stjórnenda útfæra samkomulag. Þann 1. október 2020 á niðurstaða viðræðna þessara hópa að liggja fyrir. Greidd verða atkvæði áður en útfærslan kemur til framkvæmda, 1. janúar 2021.

Stytting vinnuvikunnar – vaktavinna

 • Sjá Fylgiskjal 2 í nýjum samningi og sérstaka kynningu
 • Vinnuvikan styttist og verður 36 vinnustundir og getur farið niður í 32 vinnustundir.
 • Kemur til framkvæmda 1. maí 2021
 • Breytingar verða gerðar á vinnufyrirkomulagi og launakerfi. Markmið kerfisbreytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari.
 • Sjá sérstaka kynningu
  • Útreikningur vinnuskila er mismunandi fyrir þá starfsmenn sem vinna vaktavinnu utan dagvinnumarka samkvæmt skipulegri vaktskrá
  • Hver klukkutími á næturvakt er talinn 1,2 klukkutími eða 72 mín upp í vinnuskyldu.
  • Hver klukkutími á kvöldvakt og dagvakt um helgar er talinn 1,05 klukkutími eða 63 mín upp í vinnuskyldu.
 • Árleg vinnuskylda vaktavinnufólks sem vinnur á reglubundnum vöktum skal að jafnaði vera sú sama og hjá dagvinnufólki. Jöfnun vinnuskila kemur í staða helgidagafrís og bætingar.
  • Starfsmaður fær helgidagana jafnóðum en þarf ekki að bíða í ár með að fara í frí.
  • Starfsmaður getur óskað eftir að safna upp fríi og taka dagana saman.
 • Árleg vinnuskylda vaktavinnufólks sem vinnur á reglubundnum vöktum skal að jafnaði vera sú sama og hjá dagvinnufólki. Jöfnun vinnuskila kemur í stað helgidagafrís og bætingar.
 • Inn kemur vaktahvati sem greiðist sem hlutfall mánaðarlauna vegna fjölbreytileika og fjölda vakta á launatímabili samkvæmt skiplögðum vöktum innan vinnutímaskyldu.
  • Vaktahvati miðast við að unnar séu 42 stundir utan dagvinnu á mánuði. Teknar séu mismunandi tegundir vakta (dagvaktir, kvöldvaktir, næturvaktir virka daga og helgarvaktir). Mætt sé oftar en 14 sinnum í mánuði
 • 25 mín. vegna kaffitíma fellur út
 • Sjá vaktareikni: https://betrivinnutimi.is/vaktareiknir/
  • Nýir starfsmenn: skal kveðið á um í ráðningarsamningi.
  • Eldri / núverandi starfsmenn: ekki skylt að gera nýjan ráðningarsamning en þarf að gera skriflegt samkomulag að loknu samtali við yfirmann – þarf að liggja fyrir eigi síðar en 1. maí 2021
  • Allir fái 30 daga í orlof á ári

Samið við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu

By Fréttir

Í dag var gengið frá kjarasamningi Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Í meginatriðum er samningurinn á svipuðum nótum og aðrir kjarasamningar sem gerðir hafa verið undanfarna mánuði, auk þess sem ýmis ákvæði og bókanir eiga sérstaklega við um þann hóp sem samningurinn nær til.

Samningurinn verður kynntur fljótlega, bæði hér á vefnum og á fundum. Gert er ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla hefjist 10. júlí og henni ljúki 20. júlí.

Samningurinn nær til starfsfólks á Hrafnistuheimilunum í Hafnarfirði og Garðabæ og starfsfólks á hjúkrunarheimilinu Sólvangi, Hrafnistu Hlévangi og Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ.

Sorgardagur segir forseti ASÍ – íslenskt samfélag hefur ítrekað brugðist erlendu verkafólki

By Fréttir

Það er lágmark að atvinnurekendur sem stofna lífi og heilsu starfsfólks í hættu séu leiddir til ábyrgðar. Í dag er meira púðri eytt í að elta uppi erlent verkafólk, en að taka á þeim sem misnota það, segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í föstudagspistli sínum. Pistill Drífu fer hér á eftir:

Í dag er sorgardagur, þrjár manneskjur létust í bruna á Bræðraborgarstíg þegar óíbúðarhæft húsnæði brann til grunna. Það hefur engum dulist sem þekkir þetta hús að það er varla mannabústaður og hafa borist um það fjölmargar ábendingar. Engu að síður eru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu, mest fólk af erlendum uppruna. Að líkindum er þar á ferðinni erlent verkafólk sem hefur komið hingað til lands til að vinna og bæta sinn hag. Erlent verkafólk hefur átt stóran þátt í að skapa lífsgæðaaukninguna sem við höfum velflest notið góðs af, en íslenskt samfélag hefur ítrekað brugðist þessum hópi. Við höfum vitað það um langa hríð að erlent verkafólk býr oft við óviðunandi aðstæður. Í mörgum tilvikum er húsnæðið á vegum atvinnurekenda og því fer fjarri að allir atvinnurekendur standi undir slíkri ábyrgð. Glæpamenn hafa nýtt sér þessa stöðu, haft af fólki launin í gegnum óhóflega leigu eða annan frádrátt, komið fram við fólk eins og dýr í vinnu og látið fara eða sent aftur til síns heima ef það mótmælir eða slasast. Hættulegar aðstæður í vinnu og húsnæði hafa verið hlutskipti margra.

Það er endalaus barátta að bæta hag vinnandi fólks og stundum að koma í veg fyrir lífshættulegar aðstæður. Það er algert lágmark að atvinnurekendur séu gerðir ábyrgir fyrir að stofna ekki lífi og heilsu fólks í hættu, að allt fólk sem starfar á íslenskum vinnumarkaði njóti virðingar og viðunandi aðbúnaðar og að glæpamenn í atvinnulífinu fái aldrei frið til að misnota fólk. Í dag fer meira púður í að elta uppi verkafólk en að taka á glæpamönnum og óheiðarlegum atvinnurekendum sem nýta sér  bága stöðu erlends verkafólks. Þetta þarf að breytast og það strax. ASÍ hefur ítrekað kallað eftir öflugra eftirliti og sterkari eftirlitsstofnunum.

Á Íslandi á ekki að þurfa bruna og mannfall til að takast á við óboðlegt íbúðarhúsnæði. Við verðum að tryggja að ekkert þessu líkt hendi aftur. Til að svo megi verða þarf rannsóknin á brunanum, aðdraganda hans og ástæðum þess að fjöldi fólks var með skráð lögheimili í óíbúðarhæfu húsi að vera fumlaus og ítarleg. Það þarf líka að rannsaka margt annað því Bræðraborgarstígur 1 er fjarri því að vera eina húsnæði af þessari gerð.

Rannsóknar krafist

By Fréttir

Alþýðusamband Íslands kallar eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans á Bræðraborgarstíg 1 í gær. Staðfest hefur verið að þrír létu lífið í brunanum. Langflestir íbúanna í húsinu er erlendir og flest bendir til þess að um sé að ræða verkafólk sem atvinnurekandi hefur útvegað húsnæði. Yfirlýsing ASÍ fer hér á eftir:

Staðfest hefur verið að þrír einstaklingar létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg 1 og tveir eru nú á gjörgæsludeild Landspítalans. Aðstandendum látinna eru vottaðar djúpar samúðarkveðjur.

Alþýðusamband Íslands kallar eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans. Samkvæmt fréttum eru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu og langstærstur hluti þeirra er erlent fólk. Það leiðir líkum að því að um sé að ræða erlent verkafólk sem atvinnurekandinn hefur útvegað húsnæði.

Verkalýðshreyfingin hefur um langt skeið kallað eftir samhæfðum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi, sporna gegn mansali og koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Enn skortir á að staðið sé við fyrirheit Lífskjarasamninganna þar að lútandi. Sérstaklega hefur verkalýðshreyfingin farið fram með kröfur til að tryggja aðbúnað verkafólks sem dvelur í húsnæði á vegum atvinnurekanda og að atvinnurekendur séu kallaðir til ábyrgðar ef húsnæði er óviðunandi. Vitað er um fleiri tilfelli þar sem grunur leikur á að fjöldi fólks hafist við í óviðunandi húsnæði.

Drífa Snædal, forseti ASÍ:

„Hugur okkar er nú fyrst og fremst hjá því fólki sem var í húsinu þegar eldurinn braust út og aðstandendum þess. Við köllum eftir því að málið sé rannsakað af fullum þunga. Enn er óljóst á hvers vegum fólkið dvaldi í húsinu og hvers vegna svo margt fólk var þar með skráð lögheimili. Við vitum að ítrekað hefur verið kallað eftir að þetta húsnæði – og annað sambærilegt – væri tekið til skoðunar vegna ástands þess. Bruninn á Bræðraborgarstíg kallar á ítarlega og fumlausa rannsókn og það er krafa ASÍ að þar sé hverjum einasta steini velt við. Svona má aldrei gerast aftur.“