Skip to main content

Category

Fréttir

Allar almennar fréttir

Alvarlegt ástand á leikskólum í Hafnarfirði vegna undirmönnunar

By Fréttir

Almennt starfsfólk á hafnfirskum leikskólum hefur dregist aftur úr í kjörum, í samanburði við starfsfólk í nágrannasveitarfélögunum. Mörg dæmi eru um að starfsfólk hafi leitað í önnur sambærileg störf annars staðar og þess eru allmörg dæmi að loka hafi þurft deildum vegna undirmönnunar. Auk þess eru mörg dæmi um að eðlilegt hefði verið að loka deildum, vegna þess að ekki voru nógu margir starfsmenn til að tryggja eðlilega þjónustu og öryggi barnanna.

Hlíf hefur vakið athygli bæjaryfirvalda á þessari stöðu í alllangan tíma og krafist úrbóta. Fyrir nokkru sendi stjórn félagsins bréf til bæjarstjórnar, sem var lagt fram á fundi bæjarráðs í gær, miðvikudag. Erindinu var vísað til fjárhagsáætlunar og umfjöllunar í fræðsluráði.

Hlíf mun fylgja málinu eftir af fullum þunga.

Hér má lesa bréf Hlífar til bæjarstjórnarinnar

Fundað með Félagi eldri borgara

By Fréttir

Nýlega heimsóttu formaður og framkvæmdastjóri Hlífar Félag eldri borgara á Hafnarfirði. Starfsemi FEBH er sem kunnugt er í húsnæði í eigu Hlífar að Flatahrauni og hefur verið þar í um tvo áratugi. Félögin tvö hafa haft með sér afar gott samstarf, Hlíf hefur fengið inni hjá félaginu með stærri fundi og samkomur og hefur á móti verið FEBH innan handar með eitt og annað sem félagið hefur vanhagað um.

Valgerður Sigurðardóttir, formaður FEBH og Linda Leifsdóttir, sem stjórnar rekstri hússins fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar (sem er hinn formlegi leigutaki) fóru yfir starfsemina, sem hefur farið vaxandi á undanförnum misserum. Á fundinum kom fram mikil ánægja með farsælt samstarf og báðir aðilar lýstu miklum vilja til þess að efla það.

Miðstjórn ASÍ lýsir stuðningi við sjómenn

By Fréttir

Sjómenn hafa verið samningslausir í meira en eitt og hálft ár. Miðstjórn ASÍ lýsir fullum stuðningi við kröfur þeirra.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn í kjaraviðræðum þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Framganga útgerðarinnar í viðræðum við sjómenn vekur furðu og er með öllu óásættanleg.

Þann 6. september slitu sjómenn kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hjá ríkissáttasemjara. Sýnt var að vilji stórútgerðarinnar til að finna lausn á kjaradeilunni var ekki fyrir hendi. Sérhverri tillögu sjómanna var svarað með gagntilboðum sem voru með öllu óaðgengileg.

Steininn tók úr þegar útgerðin lýsti sig ekki tilbúna til að auka framlag í lífeyrissjóð nema sá kostnaður yrði að fullu bættur með skertum kjörum sjómanna. Minnt skal á að krafan um aukið framlag í lífeyrissjóð felur það eitt í sér að sjómenn njóti þess sama og samið hefur verið um við aðra hópa.

Vart getur það talist undrunarefni að sjómenn neiti að taka á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samningsins.
Sjómenn hafa nú verið samningslausir í 19 mánuði. Miðstjórn ASÍ telur þá stöðu mála ólíðandi og krefst þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi láti af þvermóðsku og óbilgirni í viðræðum við sjómenn. Álögur á sjávarútveginn eru ekki slíkar að sú framganga geti með nokkru móti talist réttlætanleg, hvað þá eðlileg.

Korter yfir sjö

Korter yfir sjö – verkfallið mikla 1955

By Fréttir

„Korter yfir sjö“, heimildarmynd um verkfallið 1955, var frumsýnd í gær. Myndin segir frá aðdragandanum, kjörum og aðstæðum almennings á þessum tíma og bregður upp glöggri mynd af gangi mála í verkfallinu sjálfu. Verkalýðsfélagið Hlíf, ásamt Dagsbrún og í Reykjavík og fleiri félögum stóðu fyrir verkfallinu, sem hófst 18. mars og lauk með því að undirritaðir voru samningar 28. apríl. Meðal þess sem náðist í gegn í þessum samningum var stofnun Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Hlíf náði samningum við Hafnarfjarðarbæ og nokkra atvinnurekendur í bænum nokkrum vikum fyrr, eða 26. mars. Það samkomulag veikti mjög samstöðu atvinnrekenda á svæðinu.

Nokkrar sýningar verða í Bíó Paradís. Félagsmenn eru hvattir til að láta ekki þessa merku mynd fram hjá sér fara.

Skattbyrði færð af þeim tekjuhæstu yfir á þá tekjulægri

By Fréttir

Fjármagnstekjur bera mun minni skattbyrði en launatekjur, andstætt markmiðum framsækinna skattkerfa, sem byggja á því að skattbyrði aukist með auknum tekjum. Inn í íslenska kerfið er innbyggður hvati fyrir þá sem stunda atvinnurekstur að telja laun fram sem fjármagnstekjur. Í nýrri skýrslu ASÍ kemur fram, að skattasniðganga í formi slíks tekjutilflutnings viðgangist á Íslandi. ASÍ telur að hægt væri að auka árlegar skatttekjur um 3-8 milljarðameð því að taka á þessu. Jafnframt kemur fram, að hægt væri að auka tekjur ríkissjóðs um meira en 20 milljarða á ári með skynsamlega útfærðum stóreignaskatti. Þessu til viðbótar er bent á að auðlindarenta fiskveiða sé á bilinu 30 – 70 milljarðar á ári, en á síðasta ári voru veiðigjöld 4,9 milljarðar.

Það er því ljóst, að ríkið hefur mikil tækifæri til tekjuöflunar, án þess að byrðum af efnahagslegum áhrifum Covid-19 verði velt á almennt launafólk. Um leið væri tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins eflt, en markvisst og meðvitað hefur verið dregið úr því á undanförnum árum og áratugum.

Hér má nálgast skýrsluna, en helstu niðurstöður eru hér að neðan:

  • Íslendingar tóku skref í átt að upptöku tvíþætts skattkerfis þegar samræmdri skattlagningu fjármagnstekna var komið á 1997.
  • Á Íslandi bera fjármagnstekjur mun lægri skattbyrði en launatekjur. Skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkar eftir því sem tekjur aukast. Þetta er andstætt markmiði framsækinna skattkerfa, sem byggir á því að skattbyrði hækkar eftir því sem tekjur aukast.
  • Þegar skattur á fjármagnstekjur er lægri en skattur á laun skapast hvatar fyrir þá í eigin atvinnurekstri til að telja laun fram sem fjármagnstekjur, svokallaður tekjutilflutningur (e. income shifting). Komi skattkerfið ekki í veg fyrir tekjutilflutning er brotið í bága við hlutleysissjónarmið. Hlutleysi skattkerfis dregur úr því að ákvarðanir séu teknar út frá sjónarmiði skattahagræðis.
  • Tekjutilflutningur felst í því að launatekjur eru ranglega skráðar sem fjármagnstekjur. Skýrar vísbendingar eru um að skattasniðganga í formi tekjutilflutnings viðgangist hér á landi. Það á aðallega við um atvinnurekendur með háar tekjur.
  • Ólíkt Norðurlöndunum hafa Íslendingar ekki brugðist við framangreindum veikleikum. ASÍ metur að reglur sem takmarka tekjutilflutning myndu auka árlegar skatttekjur um á bilinu 3-8 milljarða króna og styrkja tekjuöflun sveitarfélaga.
  • Auðlegðarskatturinn tryggði að skattbyrði fari stigvaxandi með hækkandi tekjum. Afnám skattsins dró úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Innleiðing á skynsamlega útfærðum stóreignaskatti á verulegar eignir myndi auka tekjur ríkissjóðs um meira en 20 milljarða á ári og jafnframt tryggja að skattbyrði fari stigvaxandi með hækkandi tekjum.
  • Móta þarf skýran ramma um auðlindagjöld. Gjaldheimta þarf að ná yfir nýtingu ólíkra auðlinda, t.d. fiskveiði, fiskeldi, framleiðslu raforku og nýtingu sem felst í þjónustu við ferðamenn. Færa þarf gjaldheimtu auðlindagjalda undir eitt ráðuneyti.
  • Veiðigjöld voru 4,9 milljarðar á síðasta ári en mat á auðlindarentu fiskveiða fyrir árin 2008-2019 er á bilinu 30-70 milljarðar á ári.
  • Ráðast þarf í markvissar aðgerðir gegn skattsvikum og undanskotum sem áætlað er að kosti samfélagið tugi milljarða ár hvert.
is Icelandic
X