Skip to main content
Category

Fréttir

Miðstjórn ASÍ mótmælir félagslegum undirboðum Play

By Fréttir

Miðstjórn ASÍ samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag.

Flugfélagið Play ætlar að bjóða lægri flugfargjöld með því að greiða starfsfólki sínu lægri laun en þekkist á íslenskum vinnumarkaði. Grunnlaunin eru töluvert undir grunn atvinnuleysisbótum. Sá samningur sem Play hefur skilað til ríkissáttasemjara er óundirritaður og ekki ljóst hvernig hann er til kominn. Þó er ljóst að hann var gerður áður en hafist var handa við að ráða inn flugfreyjur og -þjóna og enn fremur er ljóst að Play fjármagnar stéttarfélagið (ÍFF) sem gerir þennan samning. Það er því með engu móti hægt að segja að Play fari eftir hefðum og reglum á íslenskum vinnumarkaði og með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar. Við það verður ekki unað og er félagið að boða til ófriðar og deilna um ófyrirsjáanlega framtíð ef ekki verður gengið til raunverulegra kjarasamningsviðræðna við félag sem sannanlega er skipulagt af þeim sem eiga að vinna samkvæmt kjarasamningnum.

Í samningi Play við ÍFF, sem óljóst er af hverjum er undirritaður, eru lægstu laun 266.500 krónur. Til samanburðar eru lægstu laun flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair 307.000, atvinnuleysisbætur eru 307.430 krónur og lægsti taxti verkafólks er 331.735 krónur. Flugtímar innifaldir í grunnlaunum eru fleiri hjá Play en hjá Icelandair, greiddir yfirvinnutímar færri, greiðslur í lífeyrissjóð eru lægri, dagpeningar lægri og sömuleiðis bifreiðastyrkur og desemberuppbót svo eitthvað sé nefnt. Í samningnum er ekki kveðið á um framlög til starfsendurhæfingar, í orlofssjóð, starfsmenntasjóð eða sjúkrasjóð og ekki gert ráð fyrir launagreiðslum vegna veikinda barna.

Allar stoðir í kjaraumhverfi launafólks á Íslandi eru virtar að vettugi.

Alþýðusamband Íslands krefst þess að Play gangi til kjaraviðræðna við raunverulegt stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi – Flugfreyjufélag Íslands – og ætlast jafnframt til þess að Samtök atvinnulífsins, sem Play er hluti af, beiti sér fyrir raunverulegum kjarasamningi.

Alþýðusamband Íslands hvetur landsmenn til að sniðganga félagið þangað til það hefur sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi.

Alþýðusamband Íslands hvetur lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að sniðganga félagið sömuleiðis en félagið hefur reynt að gera sig gildandi gagnvart fjárfestum með því að stæra sig af óboðlegum launakjörum.

Alþýðusambandið telur vafa vera um lögmæti þess samnings sem Play vísar til sem kjarasamnings og mun beita þeim úrræðum sem tæk eru samkvæmt lögum nr. 80/1938 til þess að verja grunnréttindi launafólks á Íslandi og knýja á um kjarasamning.

Varað við neikvæðum afleiðingum niðurskurðar og samdráttar á velferð

By Fréttir

Í nýrri skýrslu sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar er varað við neikvæðum afleiðingum niðurskurðar og samdráttar á velferð og lýðheilsu. Bent er á, að ekki hafi verið gert nóg til þess að koma til móts við þá sem verst hafa orðið úti vegna þeirrar efnahagskreppu sem faraldurinn hefur framkallað.

Hópurinn telur skuldir ríkisins ekki vera áhyggjuefni svo lengi sem vextir eru lægri en hagvöxtur. Skuldahlutfall Íslands sé í lægra lagi í alþjóðlegu samhengi og atvinna og afkoma ættu að vera lykilhugtök til að tryggja að hagvöxtur framtíðarinnar geti létt á skuldaálaginu. Lög og reglur um opinber fjármál eigi að styðja við þessi áhersluatriði og nauðsynlegt sé að endurmeta fjármálareglur laga um opinber fjármál áður en þær eru settar í samband að nýju.

Í skýrslunni fjallar sérfræðingahópurinn um opinber fjármál í tengslum við COVID-kreppuna og hvort tilefni sé til að endurskoða lagarammann í kringum þau. Fjallað er um gjörbreytta afstöðu helstu alþjóðastofnana til niðurskurðar sem viðbragðs við efnahagsþrengingum. Þá er fjallað um fjármálareglur, fjármálaáætlun 2022-2026, skuldir hins opinbera og hlutverk ríkisins þegar efnahagslegar hamfarir ríða yfir.

Skýrsla sérfræðingahópsins

Alþjóðleg verkalýðshreyfing fordæmir ofbeldi Ísraels

By Fréttir

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana, segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í föstudagspistli. Þar fjallar hún að auki um nauðsyn þess að fyrirtæki setji sér stefnu um ásættanlegt launabil og veikingu skattrannsókna. Pistill Drífu, sem ber yfirskriftina „Það er víst nóg til„, fer hér á eftir.

 

Það er víst nóg til

Áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur þessa lands fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til” legg ég til þessi viðbrögð í staðinn: Að innleiða skyldu á fyrirtæki um að greina frá launabili innan fyrirtækja og setja sér stefnu um ásættanlegt launabil. Enn fremur að lækka ofurlaun og taka á bónusum og ofurarðgreiðslum.  Að sama skapi þarf fjármálaráðherra að svara því af hverju verið er að lækka gjöld á þá sem eru aflögufærir (fjármagnstekjuskatt, hlutabréfakaupendur, atvinnurekendur í gegnum tryggingagjald hvort sem þeir þurfa aðstoð eða ekki o.s.frv.) á meðan ríkissjóður er rekinn með tapi.

Veiking skattrannsókna er svo kapítuli út af fyrir sig þegar skattaundanskot eru metin af fjármálaráðuneytinu á 3-7% af landsframleiðslu. Það má líka vinda ofan af markaðsvæðingu húsnæðismarkaðarins þannig að fólk hafi í raun möguleika á öryggi í sínu daglega lífi óháð tekjum. Krafan um mannsæmandi laun er krafan um öryggi, sanngirni og lífsgæði. Til hvers eru ráðamenn ef ekki til að skilja þetta grundvallaratriði í lífi almennings? Ef ráðamenn og atvinnurekendur vilja fleiri góð ráð er af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há.

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana. Systursamtök ASÍ í Palestínu er PGFTU og góður félagi í þeim samtökum Dr. Ashraf Al-A’war var handtekinn af Ísraelsher þann 8. maí síðastliðinn, yfirheyrður um stéttafélagaþátttöku sína og hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum eða verkalýðsmálum í einn mánuð. Þetta er dæmi um hið hversdagslega ofbeldi sem Palestínumenn mega sæta til viðbótar við hreinar loftárásir, landnám, aðskilnaðarstefnu, fangelsanir, morð og brottflutninga. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin fordæmir þetta og það hef ég einnig gert við sendiherra Ísraela.

Konur rísa upp – aftur!

By Fréttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ, fjallar meðal annars um nýja #metoo-bylgju, sjálftöku sumra fyrirtækja og einkavæðingu þjónustu við aldraða, í föstudagspistli sínum, sem hér fer á eftir.

Ný #metoo-bylgja er hafin á samfélagsmiðlum. Enn á ný rísa konur upp og greina frá kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem þær hafa þurft að þola. Réttarkerfið nær aðeins utan um brotabrot, fæstar konur kæra ofbeldið enda hefur kerfið brugðist konum miklum mun oftar en það hefur reynst þeim vel. Í heimi vinnunnar verða konur fyrir áreitni og ofbeldi og nýjar sögur minna á hve langt við eigum í land. Öryggi á vinnustöðum snýst ekki bara um öryggisbúnað, heldur líka um andlegt og félagslegt öryggi og þar með varnir gegn ofbeldi og áreitni. Hér skal minnt á að hægt er að leita til stéttarfélaga eftir ráðgjöf vegna ofbeldis og áreitni á vinnustað.

Enn er nóg til

Í vikunni tók einhver pistlahöfundur að sér að útskýra landsföðurlega fyrir verkalýðshreyfingunni að það væri sannanlega ekki nóg til og því væri slagorð ASÍ „það er nóg til“ ekki sæmandi. Þessi rödd drukknaði hins vegar í öðrum fréttum af gríðarlegum hagnaði bankanna. Það eru hjáróma raddir sem telja að ekki sé hægt að gera betur í skiptingu gæða í samfélaginu og það er vaxandi óþol fyrir misskiptingu auðs. Við fáum reglulega áminningar um skekkjuna í samfélaginu og tvö nýleg dæmi sýna hana vel. Init, fyrirtæki sem þjónustar lífeyrissjóði og stéttarfélög, virðist mjólka félagslegar eignir launafólks með afar óeðlilegum hætti. Ég hef fullvissu fyrir því að óháð rannsókn verði gerð á framgangi og viðskiptum þessa fyrirtækis. Annað mál er einkavæðing hjúkrunarheimila á Akureyri, sem er væntanlega upptaktur að frekari einkavæðingu hjúkrunarheimila. Fyrirtæki sem er í gróðarekstri (ekki sameignafélag eða félag án arðsemissjónarmiða) ætlar að reka hjúkrunarheimili og byrjar á því að lækka laun hjá nýráðnum.

Það er ljóst að næstu kjarasamningar munu litast af þessari staðreynd. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta fyrirtæki muni sýna fram á hagnað og þá mun söngurinn heyrast um að einkaaðilar séu betur til þess fallnir að standa í rekstri en hið opinbera. En hvernig verður hagnaðinum náð? Leiða má líkum að því að þar verði eftirfarandi þættir ráðandi: lægri laun, minna menntað starfsfólk, skert þjónusta, reikningar sendir á ríkið þar sem hægt er o.s.frv. Við þurfum ekki að leita langt til að vita hvað er næst á dagskrá og ég veit ekki hversu margir þurfa að gera hryllileg mistök til að við sannmælumst um grundvallarstefnu: Gamalt fólk er ekki verslunarvara!

Baráttudagskrá Hlífar á 1. maí – Það er nóg til!

By Fréttir

Verkalýðsfélagið Hlíf sendir félagsmönnum og landsmönnum öllum baráttukveðjur á 1. maí. Vegna samkomutakmarkana höfum við brugðið á það ráð að gera myndband, með klippum úr sögunni og tónlistaratriðum sem voru sérstaklega tekin upp fyrir myndbandið, með listamönnunum Birni Thoroddsen, Hjörleifi Valssyni og Unni Birnu Björnsdóttur.

Translate »