Skip to main content
Category

Fréttir

Glæsileg dagskrá – þrátt fyrir samkomubann

By Fréttir

Við látum ekki samkomubannið koma í veg fyrir baráttudagskrá á 1. maí. Við höfum útbúið myndband, þar sem blandað er saman nýjum tónlistaratriðum og brotum úr sögunni. Björn Thoroddsen, gítarleikari, Unnur Birna Björnsdóttir, söngkona og fiðluleikari og Hjörleifur Valsson fiðluleikari taka nokkur vel valin lög í tilefni dagsins. Dagskráin verður hér á vefnum og á Facebooksíðu Hlífar.

Tímaskráningarkerfið Curio App er nú tengt launareikni SGS, félagsmönnum Hlífar að kostnaðarlausu.

By Fréttir

Félagsmenn Hlífar geta nú skráð sig fyrir ókeypis tímaskráningar „appi“ sem getur sent tímaskráningu skv. reiknireglum og kjarasamningum í launareiknivél SGS.

Með einum smelli sendir Curio App skráðar vinnustundir inn í reiknivél SGS og getur félagsmaður skoðað launaútreikning sinn í farsíma sínum í lok mánaðar og borið saman útborguð laun og launaútreikning reiknivélar.

Sækja forrit
Read More

Hörð gagnrýni ASÍ á „afkomubætandi aðgerðir“ í fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar

By Fréttir

Áhersla stjórnvalda á að draga úr skuldum ríkissjóðs getur hægt á efnahagsbata hér á landi og viðhaldið háu atvinnuleysi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í öllum alþjóðlegum samanburði og meginmarkmið stjórnvalda hlýtur að vera að ýta undir fulla atvinnu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026. Í umsögninni er vikið að áætlunum um sjálfbærni opinberra fjármála og gagnrýnt að ekki liggi fyrir hvernig stjórnvöld hyggist ná því markmiði. Miðað við núverandi horfur sé raunveruleg hætta á að efnahagsbati verði hægari en gert er ráð fyrir í áætluninni.  Samkvæmt áætluninni aukist þá líkur á að „afkomubætandi aðgerðir“ sem svo eru nefndar leggist af auknum þunga á almenning og atvinnulíf.

Alþýðusambandið telur að huga beri að styrkingu tekjustofna á komandi árum þannig að eðlilegur viðsnúningur geti náðst í ríkisrekstrinum án þess að ráðist verði í niðurskurð á grunninnviðum samfélagsins. Í því samhengi gagnrýnir ASÍ þær skattabreytingar sem stjórnvöld hafi talið forgangsmál í djúpri efnahagskreppu. Þar megi nefna lækkun bankaskatts og breytingu á fjármagnstekjuskatti sem vinni gegn markmiðum um jöfnuð.

Í umfjöllun um aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við miklu atvinnuleysi telur ASÍ að finna megi „jákvæð skref“ en lögð er áhersla á að bregðast þurfi við atvinnuleysisvandanum sem skemmri tíma áskorun í formi beinna áhrifa af COVID-faraldrinum og lengri tíma áskorun sem birtist í auknu kerfislægu atvinnuleysi. Enn skorti sértækar aðgerðir til að mæta atvinnuleitendum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í COVID-kreppunni og  atvinnuleysistryggingakerfið þurfi að vera fært um að tryggja viðunandi afkomu á meðan efnahagslífið nær sér á strik.

Aðalfundur 6. maí

By Fréttir

Aðalfundur Verkalýðsfélagsins Hlífar verður haldinn fimmtudaginn 6. maí 2021, kl. 17:00.

Fundurinn verður haldinn í félagsheimili Hlífar að Reykjavíkurvegi 64 í Hafnarfirði og rafrænt í gegnum fjarfundabúnað (Zoom).

Á dagskránni eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Slóð á fundinn

https://us02web.zoom.us/j/84016599127?pwd=NkM4RWVCUTdnMEJyUkZ1Z014U25QZz09

Dagskrá:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  3. Lýst kjöri stjórnar og varastjórnar félagsins og félagslegra skoðunarmanna, ásamt stjórnum og varastjórnum sjúkrasjóðs og orlofsheimilasjóðs.
  4. Lagabreytingar
  5. Kosning 2ja manna í kjörstjórn og tveggja til vara.
  6. Önnur mál.

                                               Stjórnin

Skýlaus krafa að sveitarfélög veiti launað leyfi

By Fréttir

„Það er ljóst í mínum huga að lög um greiðslur í sóttkví verður að útvíkka þannig að hægt sé að grípa fólk sem situr uppi tekjulaust vegna nýjustu sóttvarnaraðgerðanna“, segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í föstudagspistli sem fer hér á eftir.

 Mörgum féll allur ketill í eld þegar kynntar voru hertar sóttvarnaraðgerðir í vikunni. Grunnskólar loka fyrr en áætlað var vegna páska og foreldrar þurfa í stærri stíl að vera heima að gæta barna. Það var einkennandi á blaðamannafundinum þegar ráðstafanirnar voru kynntar að fjármálaráðherra fjallaði um stuðning við fyrirtækin en splæsti varla setningu á stöðu heimilanna.

Við fáum hins vegar fregnir af því að fólk er sent heim launalaust eða látið taka út frí sem ýmsir hafa nú þegar þurft að ganga hressilega á. Jafnvel heyrist að einhver sveitarfélög skerði laun fólks sem getur ekki annað en verið heima vegna barna. Þá hafa einnig borist fréttir af því að fólk er fært á milli starfa innan sveitarfélaga eða stofnana án samráðs eða samtals. Slíkt er einungis heimilt í almannavarnaskyni en ekki sem almenn aðgerð!

Það er ljóst í mínum huga að lög um greiðslur í sóttkví verður að útvíkka þannig að hægt sé að grípa fólk sem situr uppi tekjulaust vegna nýjustu sóttvarnaraðgerðanna. Fjölmörg heimili hafa þegar gengið í gegnum miklar tekjuskerðingar undanfarið ár og fjöldi barnafólks var í þeirri stöðu síðastliðið sumar að hafa notað alla sína orlofsdaga til að vera heima með börnum sínum vegna skerts skóla- og leikskólahalds. Afkomu fólks verður að tryggja og ef það þarf að fara heim til að gæta barna vegna sóttvarnaraðgerða þá þarf að brúa það bil, með nákvæmlega sama hætti og komið er til móts við fyrirtæki. Við gerum þá skýlausu kröfu að sveitarfélög og opinberar stofnanir veiti fólki launað leyfi til að sinna börnum sínum. Aðrir atvinnurekendur eiga að gera slíkt hið sama og þar sem þess er þörf eiga stjórnvöld að styðja við fólk og fyrirtæki til að tryggja að svo sé. Að góðu fréttum vikunnar þá tókst að afstýra því að starfsfólki hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum yrði sagt upp og jafnvel lækkað í launum við yfirfærslu frá sveitarfélögunum til ríkisins. Sú óvissa sem starfsfólkið hefur þurft að búa við undanfarnar vikur er óviðunandi, sérstaklega á krepputímum. Verkalýðshreyfingin hefur þurft að fara mikinn til að benda á þá sjálfsögðu lausn sem nú hefur orðið ofan á. Ríki og sveitarfélög eiga að geta haft samskiptin sín í milli í betra horfi en þetta. 

Translate »