Skip to main content

Í nýrri könnun sem Capacent gerði fyrir Flóafélögin kemur m.a. fram að talsvert hefur dregið úr atvinnuleysi hjá félagsmönnum Flóafélaganna. Þannig voru 67 án atvinnu núna en 115 í fyrra. 12 voru að hluta á atvinnuleysisbótum miðað við 19 í fyrra. Hins vegar er einu fleiri á uppsagnafresti núna eða sjö miðað við sex í fyrra. Sé litið til hversu margir hafa verið atvinnulausir sl. þrjú ár þá hafa mun færri Hlífarfélagar verið án atvinnu en hjá hinum félögunum. 7,1% félagsmanna Hlífar hafa kynnst atvinnuleysi á tímabilinu, 15,7% Eflingarfélaga og 16,3% félagsmanna VSFK. Þá sýnir könnunin að atvinnuleysistíminn styttist á milli ára.

Starfsöryggi versnar

Könnunin sýnir að starfsöryggi fer versnandi og tengist óöryggið m.a. áhyggjum af fjárhagsstöðu. Lægst er starfsöryggið hjá þeim sem starfa hjá ríki, eru í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð, í málmframleiðslu, heildsölu og smásölu. Þeir sem telja sig örugga með starf eru rúm 60% núna en voru yfir 70% á sama tíma í fyrra.

Áhyggjur af fjárhagsstöðu

Vaxandi áhyggjur af fjárhagsstöðu er hjá öllum aldurshópum. Þannig hafa 18,1% félagsmanna í Hlíf mjög miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni og 41,6% frekar miklar áhyggjur. Samtals eru því tæp 60% félagsmanna með áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni.

Ánægja með Hlíf

22,8% félagsmanna Hlífar eru mjög ánægðir með stéttarfélagið og 35,7% frekar ánægðir með það. Samtals eru því 58,5% félagsmanna ánægðir með félagið. 31,1% taka ekki afstöðu, 7,9% eru frekar óánægðir og 2,9% mjög óánægðir. Sé litið til hinna Flóafélaganna, Eflingar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur (VSFK) kemur í ljós að álíka margir eru ánægðir með félagið sitt hjá Hlíf og Eflingu en talsvert færri eru ánægðir með VSFK.

Heildarlaun hækkað um 10%

Heildarlaun þeirra sem eru í 70% starfi eða meira hækka að meðaltali um 10%, úr 432 þúndum króna í fyrra í 357 þúsund í ár. Meðallaun Hlífarfélaga eru 375 þúsund krónur. Ríflega 63% félagsmanna í Hlíf eru ósáttir við laun sín. Þá eru 57% félagsmanna í Hlíf þeirrar skoðunar að starfsálagið sé of mikið og 66% eru á því að það hafi aukist frá því í fyrra,

Kynbundinn launamunur 18%

Könnunin leiddi í ljós að á meðal fólks í uppreiknuðu 100% starfshlutfalli eru konur að jafnaði með tæplega 29% lægri heildarlaun en karlar. Meðalheildargreiðslur karla voru tæpar 414 þúsund krónur, en meðalheildargreiðslur kvenna rúmar 294 þúsund krónur. Að teknu tilliti til aldurs, aldurs í öðru veldi, starfsaldurs, starfsaldurs í öðru veldi, starfsstéttar og fjölda vinnustunda lækkaði kynbundinn munur á heildarlaunum í tæplega 18%. Árið áður mældist kynbundinn launamunur 19%. Kynbundinn launamunur hefur því lækkað um 1% á milli áranna.

Að jafnaði voru dagvinnulaun kvenna rúmlega 14% lægri en meðaldagvinnulaun karla. Meðaldagvinnulaun karla í uppreiknuðu 100% starfshlutfalli voru tæplega 298 þúsund krónur en dagvinnulaun kvenna að meðaltali tæplega 255 þúsund krónur. Þegar búið var að taka út áhrif aldurs, aldurs í öðru veldi, starfsaldurs, starfsaldurs í öðru veldi, starfsstéttar og vinnustundar á viku var kynbundinn munur á dagvinnulaunum 12,0%. Árið áður var kynbundinn launamunur 12,6%.

Þjónusta stéttarfélaganna

Sé skoðað hvaða þjónustu félagsmenn nota hjá stéttarfélögunum kemur í ljós að flestir nýta heilsueflingarstyrki eða 18,4%, næst á eftir eru námskeiðs- og fræðslusjóðsstyrkir 15%, í þriðja sæti eru svo sjúkrasjóðirnir 13,9%. Mun færri nýta sér aðra þjónustu félaganna 5,6% aðstoð við kjaramál, 2,7% lögfræðiþjónustu, 1,6% þjónustu Virk og 9,6% aðra þjónustu.

Þegar spurt er um orlofshús kemur í ljós að 27% félagsmanna í Hlíf hafa leigt orlofshús á vegum félagsins á sl. tveimur árum, þar af 12,4% þrisvar sinnum eða oftar.58% félagsmanna eru ánægðir með staðsetningu húsanna. Tæp 40% hafa enga skoðun á því en 2,2% eru mjög óánægðir með staðsetninguna.

Framkvæmd könnunarinnar

Könnunin fór fram í gegnum tölvupóst og síma frá 5. september til 23. október. Spyrlarnir voru íslenskir, pólskir og enskir. Netföngum var safnað í síma. Send voru bréf á þátttakendur með upplýsingum um könnunina, vefslóð og lykilorð. Af 3.300 bréfum voru 329 endursend þar sem þátttakendur fundust ekki eða 10%. Í framhaldinu var hringt í þátttakendur og þeim boðið að svara könnuninni í síma eða á neti. Af þeim sem náðist í neituðu 725 að svara en 519 fundust ekki. Það náðist í 1.449 og af þeim sem náðist í og fengu senda könnun svöruðu 1.082. Upphaflegt úrtak 3.300 en endanlegt úrtak 2.781. Svarendur voru 1.082 og svarhlutfallið 39%.

Sjá könnunina hér