Skip to main content

Fækkað verður um 41 stöðugildi hjá Ísal á næstunni vegna hallareksturs fyrirtækisins sem var 2 milljarðar á síðasta ári og er 840 milljónir það sem af er þessu ári. Í dag fundaði trúnaðarráð starfsmanna Ísal í fundarsal Hlífar. Á fundinum var farið yfir stöðuna en álverinu er ætlað að spara í ár og næsta ár 15% hvort árið í rekstrinum. Það þýðir sparnað upp á 960 milljónir í ár og 750 milljónir á næsta ári. Þessi krafa kemur frá móðurfyrirtækinu Rio Tinto Alcan.

Sl. miðvikudag var haldinn upplýsingafundur með starfsmönnum fyrirtækisins og þar kom fram að til að ná þessum markmiðum verður fækkað um 41 stöðugildi hjá fyrirtækinu, þar af eru það 33 stöðugildi hjá almennum starfsmönnum og 8 stöðugildi hjá sérfræðingum og stjórnendum. 10 starfsmönnum verður sagt upp, 5 almennum starfsmönnum og 5 stjórnendum/sérfræðingum. Óskað verður eftir því að 10 starfsmenn fari í flýtt starfslok. Þá verður ekki ráðið í lausar stöður.

Fækka á um 10 manns í steypuskála, þrjá í kerskála, 9 í viðhaldi, einn á fjármálasviði og 10 á starfsmannasviði.

Aðrar aðgerðir sem grípa á til er að hagræða í rekstri sem snýr að verktökum. Óma verkstæðið verður lagt niður og kerskálum þjónað af aðalverkstæði. Þá á að kaupa ódýrari skaut frá Kína. Dregið verður úr viðhaldi og fræðslu og skorið niður í ferðakostnaði.