Skip to main content

Fundur með SA næsta fimmtudag

By 7.02.2011April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized
 

Síðasti fundur ríkissáttasemjara með samninganefnd Starfsgreinasambandsins og Samtökum atvinnulífsins reyndist árangurslaus. Sú niðurstaða hefur að sjálfsögðu víðtæk áhrif á kjaraviðræður Flóabandalagins sem og annarra samtaka launafólks í landinu.  Atvinnurekendur lögðu fram svohljóðandi bókun: ,,Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að þau muni hvorki gera kjarasamninga við Starfsgreinasamband Íslands né aðra nema því aðeins að Samtök atvinnulísins leysi fyrst úr ágreiningi sínum við ríkisvaldið um stöðu sjávarútvegsins og að viðunandi niðurstaða fáist í það mál.

Ljóst er að með þessu eru Samtök atvinnulífsins að vanvirða gildandi lög í landinu um meðferð kjaraviðræðna.  Á sama tíma er verkfall bræðslumanna í fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi og Vestmannaeyjum dæmt ólöglegt vegna formgalla en verkfall þeirra átti að hefjast 7. febrúar. 

Að sögn Kolbeins Gunnarssonar, formanns Hlífar, er næsti fundur Flóabandalagsins með SA á fimmtudaginn og á þeim fundi ætti að skýrast um framhald á viðræðum. Um kvöldið verður fundur með samningsnefndum félaganna á Grand Hótel þar sem farið verður yfir stöðuna í viðræðunum.