Skip to main content

Næstum allir almennir starfsmenn á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar segja álag hafa aukist í síðustu sex mánuðum. Meira en helmingur segir óalgengt að deild sé fullmönnuð. Um fjórir af hverjum 10 segja að deild hafi verið lokað á undanförnum sex mánuðum vegna manneklu og tveir af hverjum þremur segja að þær aðstæður hafi komið upp að það hefði átt að loka – þótt það hafi ekki verið gert. Um 70% starfsfólks segjast hafa íhugað að hætta vegna álags á undanförnum sex mánuðum.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi sem Verkalýðsfélagið Hlíf hélt með fulltrúum í foreldrafélögum og foreldraráðum til upplýsingafundar í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn bæði „á staðnum“ og á zoom. Tilgangurinn var einkum að upplýsa fulltrúana um samskipti félagsins við Hafnarfjarðarbæ út af málefnum leikskólastarfsfólks og segja þeim frá niðurstöðum könnunar sem félagið hefur gert meðal almenns starfsfólks á leikskólum bæjarins.  

Á fundinum voru samskipti félagsins við ráðamenn undanfarin misseri rakin.