Skip to main content

Í byrjun júlí sendi formaður Hlífar bréf til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Garðabæ, þar sem þess var óskað að sveitarfélögin greiddu því starfsfólki sveitarfélaganna sem eru félagsmenn í Hlíf sambærilega eingreiðslu (105 þúsund krónur 1. ágúst) og ríkið og Reykjavíkurborg ætla að gera – og mörg sveitarfélög hafa ákveðið að gera í tengslum við ógerða samninga við ýmis önnur verkalýðsfélög.

Engin viðbrögð hafa borist frá Garðabæ, en bréfið var tekið fyrir í bæjarráði Hafnarfjarðar þann 4. júlí. Þar er vísað til þess að Hafnarfjarðarbær hafi framselt umboð sitt til Sambands íslenskra sveitarfélaga í ársbyrjun. Í umboðinu er að finna eftirfarandi málsgrein, sem bæjarráð gerir að bókun sinni:

„Umboð þetta er fullnaðarumboð og eftir að það hefur verið gefið er sveitarfélaginu/stofnuninni ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð. Sveitarfélagið/stofnunin skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins.“

Með þessu er ljóst að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ætla að una fautalegri framgöngu Sambandsins, sem hefur sagt að ekki verði komið á neinn hátt til móts við félaga í aðildarfélögum SGS, þar sem þau vísuðu kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara og vilja ekki hvika frá kröfunni um jöfnun lífeyrisréttinda. Sveitarfélögunum hefði verið í lófa lagið að greiða þessa eingreiðslu einhliða, án þess að verið væri að taka fram fyrir hendurnar á Ríkissáttasemjara.

Einstrengisleg framganga Sambandsins og kjaramálasviðs þess er ekki líkleg til annars en að herða hnútinn og auka líkur á hörðum átökum í haust, í stað þess að nýta þetta tækifæri til þess að draga úr þeim líkum.