Skip to main content

Höfða mál fyrir Félagsdómi

By 8.08.2019Fréttir

Formannafundur Starfsgreinasambandsins ákvað í dag að höfða mál fyrir Félagsdómi til að útkljá deilu við Samband íslenskra sveitarfélaga um túlkun samningsákvæðis um jöfnun lífeyrisréttinda frá 2009.

Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Starfsgreinasamband Íslands harmar þá afstöðu Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, að neita að ganga til kjarasamningsviðræðna um hvernig ná megi fram jöfnuði milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins, sérstaklega hvað félagsmenn aðildarfélaga SGS og almennt verkafólk í þjónustu sveitarfélaganna varðar, líkt og samið var um í kjarasamningum 7.júlí 2009. Nú þegar hefur stærsta sveitarfélag landsins ákveðið að efna samkomulag aðila fyrir sitt leiti en önnur þverskallast við og neita einfaldlega að ganga til viðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda starfsmanna sinna á þeirri forsendu að þau hafi aldrei undirgengist slíka skyldu. SGS hafnar þeirri afstöðu alfarið enda ráð gert fyrir þessari óefndu jöfnun í öllum forsendum og útreikningum aðila eftir 2009.

Formannafundur SGS samþykkir því sambandið muni höfða mál fyrir Félagsdómi þar sem látið verður reyna á túlkun samningsákvæðisins frá 2009 um skyldu sveitarfélaga til þess að ganga til kjarasamningsviðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda.