Skip to main content

Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.

Auk ályktunar um kjaramál sem birt er hér fyrir neðan samþykkti 4. þing Starfsgreinasambandsins ályktanir um húsnæðismál, um ríkisfjármál og um atvinnumál. Í ályktuninni um húsnæðismál sem hefur yfirskriftina "Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi er lýst yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi húsnæðismála á Íslandi og þess krafist að ríkisstjórnin ásamt sveitarstjórnum hefji tafarlaust samstarf með aðilum vinnumarkaðarins til að leysa vandann. Í ályktun um ríkisfjármál er þess krafist að skattkerfið verði nýtt til tekjujöfnunar. Í ályktunni um atvinnumál segir að vinna þurfi gegn atvinnuleysi með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og fjölgun starfa.

Ályktanirnar birtast hér fyrir neðan.

Ályktun um húsnæðismál

“Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi”

4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16. – 18. október 2013, lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi húsnæðismála á Íslandi. Sífellt verður erfiðara fyrir fólk að kaupa eða leigja húsnæði og eiga fjölmargir erfitt með að standa undir hækkandi afborgunum lána eða húsaleigu. Stjórnvöld verða að koma til móts við kaupendur meðal annars í formi skattaívilnunar sem tryggir hraðari eignamyndun og huga að þeim sem misst hafa sína fasteign vegna þess að forsendur brugðust við hrun bankanna. Jafnframt leggur þingið áherslu á að húsaleigubætur verði hækkaðar og skerðingarmörkin endurskoðuð.

Þing Starfsgreinasambandsins hvetur stjórnvöld í samstarf við banka og aðrar lánastofnanir til að veita ungu fólki sérstakan stuðning til dæmis í formi sparnaðarreiknings sem myndi njóta góðra vaxtakjara og hagstæðrar skattalegrar meðferðar við fyrstu kaup á fasteign. Unga fólkið verður einfaldlega að fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn.

Þing Starfsgreinasambandsins leggur áherslu á að hér verði byggt upp húsnæðiskerfi á félagslegum grunni til að tryggja öllum viðunandi húsnæði og bendir í því sambandi á tillögur ASÍ í húsnæðismálum.

Þing Starfsgreinasambandsins krefst þess að ríkisstjórnin ásamt sveitarstjórnum hefji tafarlaust samstarf með aðilum vinnumarkaðarins til að leysa þann húsnæðisvanda sem þjóðin glímir við í dag.

 

Ályktun um ríkisfjármál

4. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið í Hofi á Akureyri 16. – 18. október 2013 krefst þess að skattkerfið verði nýtt til tekjujöfnunar og hagsbóta fyrir þá lægst launuðu í landinu. Það er sanngirniskrafa að fólk með hæstu tekjurnar leggi hlutfallslega meira til samneyslunnar en fólk með lágar tekjur. Því leggur þing SGS áherslu á að viðhalda þrepaskiptu skattkerfi og boðaðar skattalækkanir verði nýttar til að mæta þörfum þeirra sem hafa lægstar tekjur, t.d. með því að hækka persónuafslátt.

Þing SGS krefst þess að breytingar á lífeyri eldri borgara og öryrkja miðist að því að bæta kjör þeirra sem minnst bera úr býtum. Tiltrú fólks á lífeyriskerfinu hefur minnkað vegna víxlverkana og skerðinga á milli almannatryggingakerfisins og lífeyriskerfisins. Það veldur því að fólk sjái sér síður hag í því að greiða í lífeyrissjóði alla starfsævina.

Þing Starfsgreinasambandsins mótmælir harðlega þeim auknu álögum á sjúklinga sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu. Nú á enn að hækka kostnaðinn sem hlýst af þvíað veikjast. Lágtekjufólk á Íslandi er þegar farið að neita sér um tannlækna- og læknaþjónustu vegna of hárra gjalda.Eðlilegra er að velferðarþjónustan sé fjármögnuð  með sköttum frekar en með notendagjöldum frá veiku fólki.

Þing Starfsgreinasambandsins fagnar sérstaklega því sem kom fram í  máli félags- og húsnæðismálaráðherra á þinginu að áfram verði tryggt fjármagn í vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnuleitendur. Þær hafa skilað miklum árangri á síðustu árum. Hluti af þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við atvinnuleysi síðustu ár má þakka ýmsum tilraunaverkefnum á vegum verkalýðshreyfingarinnar. 

Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir að stjórnvöld hafi einhliða ákveðið að grípa inn í starfskjör  og kjarasamninga fiskvinnslufólks með því að fella burt greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna rekstrarstöðvunar af völdum hráefnisskorts.  Forsenda þess er að 3. málsgrein laga nr. 19/1979 sem heimilar fyrirtækjum að senda fiskvinnslufólk heim í hráefniskorti án launa verði breytt. Starfsgreinasambandið hefur margoft  boðist til að ræða breytingar á þessu fyrirkomulagi til að tryggja að fiskvinnslufólk búi við sama starfsöryggi og annað launafólk.

 

Ályktun um atvinnumál

4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, minnir á þau grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að vinnu. Þó vissulega hafi náðst ákveðinn árangur í baráttunni við atvinnuleysið þá eigum við enn langt í land að ná viðunandi stöðu í atvinnumálum. Atvinnuleysi er mikið og vinna verður af hörku gegn því. Hafa verður í huga að bak við opinberar atvinnuleysistölur er falið atvinnuleysi. Launafólk hefur sótt vinnu erlendis, fallið út af vinnumarkaði, tæmt bótarétt sinn, sótt nám og tekið þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Það er sameiginlegt verkefni að vinna gegn atvinnuleysi með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og fjölgun starfa.

Þing Starfsgreinasambandsins leggur jafnframt áherslu á að ný fyrirtæki, hvort sem þau eru smá eða stór, byggi upp sína atvinnustarfsemi í góðri sátt við stéttarfélög launafólks og innan þeirra reglna sem vinnumarkaðurinn hefur sett sér. Það er með öllu óþolandi að í ákveðnum atvinnugreinum þrífist svört atvinnustarfsemi og gerviverktaka í stórum stíl. Slíkt er ólíðandi og á ábyrgð okkar allra að vinna gegn. Það er vaxandi áhyggjuefni að hér á landi fjölgi þeim sem vinna svart. Þetta fólk er algjörlega réttindalaust sem er óásættanlegt. Nauðsynlegt er að halda áfram og efla samstarf verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisskattstjóra. Þing SGS leggur áherslu á að yfirvöld fái auknar heimildir til að beita hörðum viðurlögum gegn svartri atvinnustarfsemi.

is Icelandic
X