Skip to main content

Það er víða pottur brotinn á íslenskum vinnumarkaði. Brotið er ítrekað á nokkrum hópum, útlendingum, ungu fólki og þeim launalægstu. Í mörgum tilvikum er um að ræða skipulögð og mjög meðvituð brot. Skýrsla Félagsmáladeildar ASÍ og Félagsmálaráðuneytisins um hvað mæti útlendingum á íslenskum vinnumarkaði veitir innsýn í þau brot sem erlent vinnuafl verður fyrir á íslenskum vinnumarkaði.

Í skýrslunni er fjallað um brotastarfsemi á vinnumarkaði og launaþjófnað. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á brot sem starfsfólk verður fyrir. Rannsóknin byggir á gögnum úr þremur ólíkum áttum. Í fyrsta lagi voru skoðaðar launakröfur fjögurra af stærri aðildarfélögum Alþýðusambandsins og þær greindar m.t.t. bakgrunns félagsmanna og launagreiðenda. Í öðru lagi voru skoðaðar niðurstöður spurningakönnunar Gallup um brot á kjarasamningsbundnum réttindum einstaklinga á aldrinum 18–35 ára hér á landi. Í þriðja lagi var sama spurningakönnun framkvæmd á úrtaki erlendra félagsmanna innan aðildarfélaga ASÍ.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til verulegrar tvískiptingar íslensks vinnumarkaðar. Annars vegar er það sá veruleiki sem meirihluti launafólks býr við þar sem brot á kjarasamningum eru fátíð eða nær óþekkt. Hins vegar er það veruleikinn sem mætir erlendu launafólki, ungu fólki og hinum tekjulægstu þar sem launaþjófnaður hleypur á hundruðum milljóna króna ár hver. Meira en helmingur allra krafna sem aðildarfélögin fjögur gerðu á síðasta ári voru fyrir hönd erlendra félagsmanna en þeir eru aðeins um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði og um 25% af félagsmönnum umræddra stéttarfélaga. Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð.

Niðurstöður spurningakönnunarinnar sem Gallup gerði fyrir ASÍ gefa vísbendingu um með hvaða hætti launaþjófnaður kunni að birtast á vinnumarkaði. Í könnuninni voru þátttakendur spurðir hvort þeir teldu að brotið hafi verið á sér á vinnumarkaði, t.d. á réttindum um lágmarkskjör, um álagsgreiðslur, vinnutíma o.s.frv. Þegar svör þátttakenda voru skoðuð eftir bakgrunni mátti greina að erlent launafólk, tekjulágir og yngri aldurshópar eru í hættu á að verða fyrir brotum á kjarasamningsbundnum kjörum og réttindum. Líklegra er að þessir hópar verði fyrir brotum á formreglum (t.d. fá ekki launaseðla eða ráðningarsamning), þeir eru líklegri til að verða fyrir réttindabrotum (t.d. fá ekki veikindarétt, orlofslaun), lágmarkslauna og álagsbrotum (t.d. fá ekki greitt eftir kjarasamningi, fyrir yfirvinnu eða greitt stórhátíðarálag).

Hvað mætir útlendingum á íslenskum vinnumarkaði?

Sjá einnig: Íslenskur vinnumarkaður 2019: Erlent launafólk og brotastarfsemi á vinnumarkaði