Skip to main content

Hjálmur hóf göngu sína árið 1912 – fyrir 110 árum. Í öðru tölublaði, sem kom út 2. desember það ár, birtis fyrri hluti greinar sem bar nafnið ,,Hvernig lítur Hafnarfjörður út árið 2000?“ og niðurlagið birtist í þriðja tölublaði, viku síðar. Framtíðarspáin var því gerð fyrir 110 árum og er um það hvernig Hafnarfjörður kæmi til með að líta út 88 árum síðar, sem sagt fyrir 22 árum.

Það er merkilegt hve mörg atriði í framtíðarspánni hafa gengið eftir. Höfundur spáir meira að segja að jarðefnaeldsneyti víki fyrir rafmagni í fiskiskipaflotanum, sem sýnir hve framsýnn höfundur hefur verið. Spáin um íbúaþróun er svo nákvæm, að það skeikar ekki nema 360 á spánni og tölum Hagstofunnar um íbúafjölda árið 2000 (19.640). Hann virðist meira að segja sjá fyrir Borgarlínuna, að vísu aldarfjórðungi fyrr en raunin verður. Gefum höfundi, sem kallar sig Núma, orðið.

Hvernig lítur Hafnarfjörður út árið 2000?

Mig minnir að það væri í fyrra sem einn af okkar framfara- og bestu ræðumönnum, og um leið hugsjónamönnum – því það þurfa þeir að vera sem slíkt verkefni takast á hendur og hafa líkar hugmyndir og hann framsetti – lýsti því eftir sínu hugboði, hvernig Hafnarfjörður liti út, árið 2000, eða hvernig hann vildi að hann liti út að 88 árum liðnum. Af því að jeg er einn af þeim mönnum sem þykir hugðnæmast og mest hughreystandi að lifa í draumórum ókomna tímans, og ég lít svo á, að allur fjöldi fólks með óspillta sál, hressist við að heyra eitthvað úr ókomna tímanum – sem vér eigum örðugt eða jafnvel ómögulegt með að skignast inní – þó það séu draumórar, skiftir minstu hvort það eru svefndraumar eða vökudraumar, langar mig til að rifja upp draum ræðumannsins sem ég minntist á eins og ég man hann best, með þeim endurbótum og viðaukum frá sjálfum mér, sem mér að sjálfsögðu þikir best við eiga.

Áður en ég byrja á þessum vökudraum, get ég ekki dulið þá skoðun mína, að svona lagaðir draumar, eigi að hafa þau áhrif á tilheyrendurna að þeir geri eins mikið og á þeirra valdi er, til þess að láta þá rætast. Gætu þá slíkir draumar orðið nokkurskonar „Plan” eða áætlun sem íbúar þessa bæjar og eftirkomendur fyndu sér skylt að fara eftir að svo miklu leyti sem tímar og kringumstæður heimta, og að draumarnir séu það markmið sem þessi kynslóð og næstu kynslóðir finni sér skylt að keppa að. – Einnig er það ekki ófróðlegt fyrir afkomendur okkar, þegar þeir líta í litla skrifaða fátæklega blaðið okkar, að sjá hvaða hugmyndir og hugsjónir við gömlu mennirnir höfum gjört okkur um litla fátæka bæinn okkar, einkanlega ef hugsjónirnar rætast. Bregðist vonirnar og hugsjónirnar rætast ekki, verður þessi bjartsýni okkur aldrei lögð út á verri veg, því hún lýsir aðeins góðri og göfugri hugsun. Jeg vona að tilheyrendurnir fyrirgefi hvað formálinn er langur, en nú byrjar

Draumurinn.

 

Íbúarnir verða 15-20 þúsundir. Bærinn tekur yfir svæðið frá Skiphól upp fyrir Brandsbæ, Jófríðarstaði yfir há-Hamarinn, þaðan vestur hraunið fyrir ofan Hraungerði, vitabygginguna og sem leið liggur vestur að fjárréttunum hjá Rvíkurvegi, þaðan alla leið að Bala. Með sjónum verður hlaðið bólverk alla leið frá Bala inn með öllum firði og út að Skiphól hinsvegar. Allt svæðið frá Hafskipaklöpp þeirri sem byggð hefir verið nú í ár, og svo langt sem stórstraums-fjöruborð nær, alla leið vestur fyrir Óseyrargranda, verður fyllt upp. Hvaleyrartjörn verður dýpkuð og gjörð að vetrar- og sumarlægi fyrir skemtibáta og smærri skip sem nauðsynleg eru bæjarbúum.

Út frá Hvaleyrarhöfða verður hlaðinn skjólgarður alla leið út á Helgasker, og norðanmegin samskonar garður á skerjunum niður undan Görðum, þannig að mjótt sund verður á milli garðanna. Bærinn sjálfur lítur þannig út, að á bólverkunum umkring höfnina verða geymsluhús og verslunarbúðir, allt byggt úr steinsteypu.

4 hafskipabryggjur liggja út í höfnina, ein út af Fiskakletti (hún er nú þegar komin), önnur út af Langeyrarmölum, þriðja út af miðbænum nálægt stefnu af S. Bergmann, og mætir hún bryggjunni út af Fiskakletti, fjórða verður út af Óseyrargranda. Hraunið undir bænum verður að mestu slétt út. Bogadregnar götur 5 að tölu með þvergötum á stuttu millibili, verða eftir endilöngum bænum, vestan frá Bala og suður fyrir Óseyri. Sú gatan er nærst verður höfninni, verður þar sem nú flæðir sjór yfir, nærsta gatan verður sú er nú er kölluð Strandgata, hún ber þá ekki lengur það nafn með réttu. Þriðja gatan verður þar sem Austurhverfisvegur er nú byrjaður, og svo hver af annari. Göturnar í miðlengju bæjarins, sem vér nú sjáum, verða steinlagðar eða makademiseraðar, en göturnar í nýja bænum, þeim nú ósýnilega, verða lagðar með togleðri eða með öðrum orðum hljóðlausar, hvað mikil sem umferðin er. Rafmagnssporbrautir 2-3 liggja eftir bænum endilöngum og inn í Reykjavík, og verða járnbrautarstöðvarnar þar sem nú er fiskverkunarsvæði Einars Þorgilssonar og P.J.Th. & Co, og þar út af. Lækurinn sést nú ekki lengur renna yfir bæinn þverann, þar sem hann er nú, verða annaðhvort byggingar eða rennisléttar götur og torg. Ráðhús bæjarins, stór og afar skrautleg bygging, verður á Sýslumannstúninu. 4 kirkjur verða í bænum, 2 með eldra lagi og 2 með nýtýsku sniði þá, önnur af þeim síðarnefndu á stærð við frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn eða dómkirkjuna í Köln á Þýskalandi. Fyrsta kirkjan sem byggð verður, stendur á Undirhamarstúni, og munu margir þeir sem hér eru staddir í kvöld, sjá hana; önnur kirkjan verður þar sem Brýde pakkhúsið stóra stendur nú. Hin þriðja verður á fiskireit verkamannafélagsins Hlífar, og sú fjórða suður á Flensborgartúni. Þá verður trúarlíf og kirkjurækni miklu meiri en nú er, og því verða kirkjurnar svona margar og veglegar. Barnaskólarnir verða 2, stórar og veglegar byggingar. Annar þeirra stendur á túninu í Hraungerði en hinn nálægt kirkjunni á fiskreitnum. Svo verða og 2 aðrir skólar fyrir þroskaðri sálir en blessuð börnin, annar þeirra verður Lýðháskóli en hinn Sjómannaskóli. Sjómannaskólinn verður suður hjá Flensborg, en Lýðháskólinn á túninu hjá honum Jóni gamla í Hamarskoti, og verður þá risinn upp annar Hamarskots-Jón, sem þar hefur skólastjórnina á hendi.

2 stórir listigarðar verða í bænum, annar fyrir innan hamarinn, þar sem nú er tún Odds Ívarssonar og Auðunns Níelssonar, með stöðuvatni sem búið verður til úr læknum á aðra hlið, og hinn í Víðistöðum. Báðir verða þeir að meira eða minna leyti skógji vaxnir. Hér og hvar í bænum má sjá trjárunna við íbúðarhúsin sem mörg verða stór og vegleg, og meðfram götunum má hér og hvar sjá trjáraðir í líkingu við „Under de Linden” í Berlín á Þýskalandi. Vatnið fær nú bærinn ekki eingöngu úr Lækjarbotnunum, heldur og ofan úr Kaldárbotnum og þá þarf ekki að borga manni 1000 krónur á ári fyrir að leysa vind úr vatnsveitunni. Bærinn verður allur raflýstur, og fær hann rafaflið til þess og annars úr Kaldá.

Þá verður búið að finna aðferðina til að „létta rafmagnið” og má þá fá miklu meira rafmagn en nú, framleitt með minni aflstöðvum. Máske verður Hraunholtslækur líka notaður til aflvaka.

Verksmiðjur verða margar í bænum allar reknar með rafmagni, sumar vinna Íslenska ull í dúka, aðrar áburðarefni og önnur ólífræn efni úr loftinu svo sem sykur o.þ.h. og enn aðrar vinna úr fiskiafurðum. Verslun, siglingar og iðnaður verða aðal atvinnuvegir bæjarbúa. Þá þurfum vér og ekki lengur að láta það sameinaða eða Thore-dallana flytja nauðsynjar okkar að og frá landinu, því þá eiga Íslendingar sjálfir milliferða- og strandferðaskipin sín og stjórna þeim sjálfir. Á höfninni hér eða öllu heldur skipadokkunni má sjá stór alíslensk flutningaskip sem ríkir Hafnfirðingar eiga eða félög í bænum, og ganga þau beina leið til Þýskalands Englands og Norður-Ameríku (Hudsonflóans).

Þá eiga og bæjarbúar vænan fiskiflota. Þá verður hætt að nota dýru og vondu kolin, því flest eða öll skipin verða rekin ýmist með jarðolíu (Dísilvélum) eða með rafmagni.

Hraunið á bak við bæinn verður mestalt einn fiskireitur og land kaupstaðarins allt girt svo vel að ekki kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Bærinn verður, í einu orði sagt, í fremri röð íslenskra bæja á þeirri tíð, og á hann legu sína og afstöðu því að þakka, en þó sérstaklega blessuðum firðinum inní landið með höfnina nærri því sjálfgjörðu. Var Guð ekki góður þegar hann skapaði Hafnarfjörð. ?
Jú vissulega: – Jæja þá, góðir hálsar. Þykir ykkur draumurinn ekki yfirgripsmikill? En jeg bið ykkur gæta að því, að það eru 88 ár sem hann á ólifað. Jeg býst samt við að einhver ykkar kunni að hugsa í hljóði, að þetta sé sú yfirgripsmesta vitleysa sem þið hafið heyrt á æfi ykkar, og að það sé Jóns-heimskan stærri.

 

Númi