Skip to main content

Nýverið birti Alþýðusamband Íslands skýrslu um brot gegn launafólki á vinnumarkaði. Þar kom fram, að brotastarfsemi gagnvart erlendu launafólki og ungmennum sé alvarleg meinsemd sem þurfi að uppræta með öllum tiltækum ráðum.

Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

  • Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári.
  • Fjögur aðildarfélög ASÍ gerðu 768 launakröfur árið 2018 upp á samtals 450 milljónir króna og nam miðgildi kröfuupphæðar 262.534 kr. 
  • Meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga eru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna.
  • Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð. 
  • Niðurstöður spurningakönnunar Gallup eru í takt við launakröfur stéttarfélaga og benda til þess að brotastarfsemi beinist fremur gegn erlendu launafólki og yngra fólki, með lægri tekjur og í óreglulegu ráðningarsambandi og hlutastörfum. 
  • Skoðun á launakröfum og spurningakönnunin benda til að brotin felist m.a. í vangreiðslum á launum, álagsgreiðslum og ýmsum réttindabrotum.
  • Hjá meirihluta launafólks, einkum hjá þeim sem hafa lengri starfsaldur og hærri tekjur, er brotastarfsemi nærri óþekkt.

Alþýðusamband Íslands áréttar, af gefnu tilefni, að laun samkvæmt kjarasamningum hér á landi eru lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði. Það gildir einnig um útlendinga sem koma hingað til starfa og það gildir frá fyrsta starfsdegi. Skiptir þá ekki máli hvort þeir starfa fyrir íslensk eða erlend fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem ekki virða þennan rétt starfsmanna sinna eru brotleg við íslensk lög og stunda launaþjófnað gagnvart starfsmönnum sínum. Slíkt verður aldrei liðið.

Ítrekað heyrist því haldið fram að erlent launafólk sem kemur til starfa hér á landi eigi að þurfa, a.m.k. tímabundið, að sætta sig við önnur og lakari laun og önnur starfskjör en gilda fyrir aðra á íslenskum vinnumarkaði. Í því samhengi er m.a. gjarnan vísað í „10 daga regluna“ eða „183 daga regluna“. Staðreyndin er sú að engar slíkar „reglur“ eru til sem veita atvinnurekendum rétt til að hlunnfara starfsmenn sína, þ.m.t. erlenda rútubílstjóra, fararstjóra og byggingamenn sem starfa tímabundið hér á landi. Sama gildir um sjálfboðaliða og starfsnema sem nýttir eru í efnahagslegri starfsemi.

ÍSLENSKUR VINNUMARKAÐUR 2019 – Erlent launafólk og brotastarfsemi á vinnumarkaði