Skip to main content
ATHUGIÐ.
Eftirfarandi efni var srkáð fyrir meira en 1 ári.

Verð á jólamat hefur hækkað síðan í fyrra í flestum verslunum, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í verslunum sl. mánudag. Nettó sker sig þó úr en þar hefur vöruverð lækkað oftar en hækkað síðan í fyrra. Verð hefur hækkað um allt að 61%, en algengast er að sjá um 4-5% hækkun á vöruverði. Mjólkurvörur hækka í öllum verslunum nema hjá Nettó, þar hækka aðeins 2 af 8 mjólkurvörum.

Nettó er eina verslunin þar sem verð lækkar oftar en hækkar á milli ára. Þannig hefur verð á úrbeinuðu KEA hangilæri lækkað um 6%, Lindu 460 gr. konfektkassi hefur lækkað um 15%, ½ l. af Egils malti hefur lækkað um 12% og Ocean sprey cranberries 340 gr. poki hefur lækkað um 14% hjá Nettó.

Mjólkurvörur hækka

500 gr. MS smjör sem er mikið notað yfir jólahátíðarnar á heimilum landsins hefur hækkað töluvert í verði síðan í desember 2012. Mesta hækkunin er hjá Iceland um 31%, Fjarðarkaupum um 27%, Hagkaupum um 20%, Samkaupum–Úrvali um 18%, hjá Bónus og Nettó um 5% og Krónunni um 4%. MS gullostur 250 gr. sem er einnig vinsæll hefur hækkað í verði hjá Hagkaupum um 11%, Iceland um 10%, Fjarðarkaupum og Samkaupum–Úrvali um 4%, hjá Bónus og Krónunni um 2% en er á sama verði og í fyrra hjá Nettó. Sem dæmi um verðbreytingar á annarri vöru má nefna að 135 gr. Nóa konfektkassi hefur hækkað í verði hjá Iceland um 24%, hjá Hagkaupum um 12%, Fjarðarkaupum um 8%, Bónus um 1%, er á sama verði og í fyrra hjá Krónunni og Samkaupum–Úrvali en hefur lækkað í verði hjá Nettó um 11%.

Einstöku lækkanir eru sjáanlegar í flestum verslununum. Benda má á að Papco jólaeldhúsrúllur hafa lækkað í verði hjá Fjarðarkaupum um 11%, Hagkaupum um 8%, Krónunni um 2% en er á sama verði og í fyrra hjá Iceland, Nettó og Bónus. Beuvais rauðkál hefur einnig lækkað í verði hjá Krónunni um 7%, Hagkaupum og Fjarðarkaupum um 2% og hjá Iceland um 1%.

Samanburð milli verslana og tímabila má skoða á töfluformi hér.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 11. desember 2012 og 16. desember 2013. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali, Iceland og Hagkaupum .