Skip to main content

Samkvæmt klassískum hagfræðikenningum þá yrðu ríki Norðurlanda mun auðugri ef við lækkuðum skatta, fækkuðum opinberum störfum, fækkuðum félagslegum úrræðum og lækkuðum bótagreiðslur. Þetta stangast aftur á móti á við veruleikann, eins og dregið er fram í grein sem hagfræðingar Alþýðusambanda Norðurlandanna skrifuðu sameiginlega nýverið. Greinin fer hér á eftir.

Norrænir hagfræðingar skrifa – Styrkjum hina norrænu þversögn

Eftir Henný Hinz, Kaukoranta Ilkka, Ola Pettersson, Roger Bjørnstad og Allan Lyngsø Madsen, aðalhagfræðinga hjá ASÍ Ísland, FFC Finnland, LO Svíþjóð, LO Noregi og FH Danmörku

Norðurlöndin eru velmegandi ríki. Ríki Norðurlanda eru einnig á meðal þeirra landa í heiminum þar sem tekjumunur er einna minnstur. Þannig var það bæði árið 2000 og árið 2010. Og þrátt fyrir Covid-19 farsóttina þá er það einnig svo árið 2020. Í stuttu máli sagt þá hefur það verið raunin árum saman.

Engu að síður heyrum oft frjálslyndar raddir sem halda því fram að tiltölulega mikil skattbyrði á Norðurlöndunum sé eins og þungur baggi sem haldi hagkerfinu niðri og telja að grípa þurfi til breytinga á skattkerfinu til þess að koma landinu út úr kreppunni. Ef aðeins persónuafsláttur og fjármagnsskattar væru lækkaðir – ef aðeins væru færri opinberir starfsmenn – ef aðeins hið opinbera væri umfangsminna – ef aðeins félagslegar bætur og greiðslur yrðu lækkaðar – já, hvað myndi þá eiginlega gerast?

Samkvæmt klassískum hagfræðikenningum þá yrðu ríki Norðurlanda mun auðugri ef við fylgdum hinum frjálslyndu tillögum og hugmyndum. Þess vegna eru Norðurlöndin raunveruleg þversögn ef maður skoðar þau með þessum frjálslyndu gleraugum. Hvernig geta Norðurlönd sýknt og heilagt verið heimshluti þar sem fólk hefur háar tekjur, atvinnuþátttaka er mikil, opinberi geirinn er stór, tekjuöryggi er gott og fyrirtæki standa sig almennt vel á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta ætti ekki að vera hægt.

Þetta er engu að síður staðreynd og það má fyrst og fremst rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi þá byggja klassískar hagfræðikenningar á þeirri forsendu að markaðnum sé best borgið án afskipta hins opinbera. Með öðrum orðum, afskipti stjórnvalda eru upphaf og endir alls ills.

Í öðru lagi þá er eina framlag hins opinbera að endurdreifa fjármunum, því er litið á það sem óvirkan þátttakanda sem eingöngu stuðlar að því að skekkja efnahagslífið með skattheimtu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fólk vilji ekki vinna, heldur vilji fremur lifa á félagslegum bótum.

Við sjáum hins vegar að daglegt líf er talsvert flóknara en hinar einföldu forsendur gera ráð fyrir. Tilveran er ekki bara svört eða hvít. Hin klassíska röksemdafærsla hagfræðinnar stenst því ekki í veruleikanum. Ímyndið ykkur bara hversu mikilvægt aðgengi að menntun, dagvistun, heilsugæslu, öldrunarþjónustu o.s.frv. er til aukins hagvaxtar og þátttöku í afkastamiklu atvinnulífi.

Covid-19 farsóttin hefur, með sama hætti, sýnt fram á að skattgreiðslur og tekjutrygging í gegnum hið félagslega kerfi eiga mikinn þátt í að standa vörð um áframhaldandi starfsemi fyrirtækja á almennum markaði á fordæmalausum tímum sem líkjast í engu okkar hefðbundnu tilveru. Hið opinbera hefur gert það mögulegt að mæta þessum utanaðkomandi þáttum með sameiginlegum lausnum sem hafa gagnast samfélaginu í heild og þar með átt ríkan þátt í að viðhalda eftirspurn í hagkerfinu.

Þá staðreynd að við höfum á síðustu áratugum verið á meðal auðugustu og jöfnustu samfélaga veraldar, má að miklu leyti þakka uppbyggingu norrænu velferðarsamfélaganna. Sterkum og vel skipulögðum vinnumarkaði. Opinberu kerfi, sem byggir á velferð til handa öllum. Og þjóðhagsstefnu sem miðar að því að tryggja fulla atvinnu. Með öðrum orðum, samfélagsskipulag sem byggir á samstöðu. Við skulum styrkja þann grunn svo hann megi verða okkar leið út úr kreppunni.