Skip to main content

FréttirUncategorized

SA setur launþegum fótinn fyrir dyrnar

By 27.01.2011apríl 12th, 2019No Comments
Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.
Nú þegar verkalýðshreyfingin vill ganga til samninga um kaup og kjör félagsmanna sinna, vekur það athygli að forsvarsmenn atvinnulífsins setja það m.a. fram sem sína kröfu að ríkisstjórnin verði búin að ganga frá frumvörpum um breytingar á fiskveiðistjórnunarlögum. Að öðrum kosti verði ekki gengið til samninga við stéttarfélög vinnandi fólks. Þetta er m.ö.o. bein hótun frá kvótaeigendum til ríkisstjórnarinnar um að ef hún hefur sig ekki hæga verði ekki samið um kaup og kjör. Með þessu er ekki eingöngu ráðist að ríkisstjórninni heldur einnig vinnandi fólki sem þ.m. er haldið í gíslingu af eigendum fyrirtækja þar sem tæp 5% vinnuafls á Íslandi starfa hjá.
Í gegnum áratugina hafa atvinnurekendur gengið á fund hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri þegar komið hefur að gerð kjarasamninga og krafist þess að ríkisvaldið komi að samningsgerðinni með félagsmálapökkum af öllum stærðum og gerðum. Þetta hefur í flestum tilfellum þýtt aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, sem fjármögnuð hafa verið með skatttekjum. Á íslensku þýðir þetta að fólkið í landinu hefur niðurgreitt kjarasamninga og eigin kaupmáttaraukningu fyrir atvinnurekendur um áratugaskeið. Það virðist vera að máltækið ,,að sjaldan launi kálfur ofeldi” eigi vel við, því að nú þegar stendur til að ríkissjóður (þ.e. alþýða fólks) fari jafnvel að taka til sín arð af auðlindum sínum sem notaður er til uppbyggingar samfélagsins, s.s. menntakerfis, samgöngukerfis, heilsugæslu og annarra velferðarmála, hóta samtök atvinnurekenda öllu illu. Neita að ganga til samninga og jafnvel að sigla skipum sínum í land ef ekki er staðið og setið eins og þeim þóknast.

is Icelandic
X