Skip to main content
ATHUGIÐ.
Eftirfarandi efni var srkáð fyrir meira en 1 ári.

Matvara hefur hækkað mikið í verði eftir hrun og munurinn milli þjónustuverslana og lágvöruverðsverslana hefur minnkað. Áhyggjuefni er að nauðsynjavörur hafa hækkað í verði og það hefur haft áhrif á alla og sérstaklega tekjulægstu hópanna í samfélaginu. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa þegar dregist mikið saman í kjölfar hrunsins og er þessi þróun ekki til þess að bæta kjör heimilanna. Vörukarfa Alþýðusambandsins. Verðlagseftirlitið gerir reglulega verðmælingar á vörukörfu ASÍ sem endurspeglar öll almenn innkaup meðalheimilis í öllum helstu matvöruverslunarkeðjum landsins í þeim tilgangi að skoða hvernig verð þróast yfir tíma í einstaka verslunum. Hér er verið er að fjalla um verðbreytingar í prósentum. Til að sjá hvernig verðlag matvöruverslana á landinu hefur verið að breytast síðastliðin 2 ár má sjá hér súlurit sem sýnir þessar verðbreytingar.

 

Frá því í maí 2009, má sjá miklar verðbreytingar á markaðnum. Eins og taflan sýnir hefur verð hækkað mest í Bónus á þessum tíma eða um 17%, en einnig má sjá mikla hækkun í Ellefu-ellefu og Samkaupum-Strax eða 16% og hjá Krónunni um 10%. Hafa hinar matvöruverslanirnar ekki hækkað verðið hjá sér jafnmikið á þessu tímabili. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hækkaði vísitala neysluverðs um 11,7% á sama tímabili. Þessar hækkanir hafa því verið töluvert hærri en almennar verðlagshækkanir. Hvað þýðir þetta fyrir neytendurna? Þetta þýðir að verðmunurinn á milli lágvöruverðverslana og þjónustuverslana hefur dregist saman. En það má sjá á því að Bónus hefur hækkað verðið um 17% á þessu tímabili en Nóatún og Samkaup-Úrval aðeins um 3%. Þessi þróun bendir til þess að samkeppni milli verslana fari minnkandi sem er auðvitað áhyggjuefni fyrir heimilin. Ráðstöfunartekjur heimilanna minnkuðu mikið í hruninu og þessi þróun þýðir að enn mun þrengja að heimilunum í rekstrarkostnaði. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslunum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum haft áhrif á niðurstöðurnar.