Skip to main content

Megináherslur í nýjum kjarasamningi

By 30.05.2015April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized

Kjarasamningurinn og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er að finna í heild sinni hér að neðan undir flipanum Lesa meira…  en helstu atriði eru eftirfarandi:

Hækkun lægri launa og millitekna

Mikilvæg opnunarákvæði í samningnum

Ríkisstjórnin fellur frá því að draga jöfnun á örorkubyrði til baka

Fjölmennur fundur samninganefndar Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK samþykkti nú um hádegisbilið með yfirgnæfandi meirihluta að heimila undirritun nýs kjarasamnings sem hefur verið í undirbúningi undanfarna daga og senda samninginn síðan í póstatkvæðagreiðslu til félagsmanna. Samningurinn hefur verið unninn með Flóafélögunum, Stéttarfélagi Vesturlands, VR og LÍV og virðist sem breið samstaða hafi myndast um samninginn.

Megineinkenni þessa samnings er áherslan á lægri laun og meðaltekjur. Lágmarkstekjutrygging hækkar um 86 þúsund krónur á samningstímanum og fer í  kr. 245 þúsund á mánuði við gildistöku samningsins og kr. 300 þúsund á mánuði frá og með maí 2018.

Þá skiptir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um stuðning við launafólk í húsnæðismálum og breytingar á skattamálum miklu máli fyrir þá sem njóta góðs af því. Ríkisstjórnin heitir því að draga til baka ákvörðunina um að falla frá framlagi til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna en sú ákvörðun hefur mikið að segja fyrir félagsmenn innan Flóafélaganna sem hefðu fengið skertan lífeyri að óbreyttu.

Gildistími samningsins er frá 1. maí 2015 – 31. desember 2018. Samhliða gerð aðalkjarasamningsins var gengið frá ýmsum meginatriðum og bókunum í sérkjarasamningum og fyrirtækjasamningum sem fylgja aðalkjarasamningum Flóafélaganna. 

 

 

Mikilvæg opnunarákvæði eru í samningnum

Mikilvæg opnunarákvæði eru í kjarasamningnum  sem snúa að kaupmætti, launum annarra og fyrirheitum ríkisstjórnarinnar. Við ákveðnar dagsetningar í kjarasamningnum reynir á það hvort kaupmáttarþróun hefur staðist, hvort kjarasamningurinn hefur verið stefnumarkandi fyrir vinnumarkaðinn og hvort stjórnvöld hafa staðið við gefin fyrirheit samkvæmt yfirlýsingum þeirra. Ef samningsaðilar meta það svo að forsendur hafi brugðist, skulu aðilar leita viðbragða til að fullnægja ákvæðum samningsins en ella geta þeir sagt sig frá samningnum með rökstuðningi við þá ákvörðun. Þetta eru viðbrögð við atburðarás kjaramála á síðasta samningstímabili þegar engin slík opnunarákvæði voru í kjarasamningum og nokkur samtök launafólks sömdu ofan á kjarasamninga almennu félaganna og sóttu þannig kaupmátt langt umfram það sem almennu félögin voru að skila.

Launahækkanir

Í launahækkunum er stuðst við taxtahækkanir og launaþróunartryggingu árin 2015 og 2016 en taxta- og prósentuhækkanir árin 2017 og 2018.

Sérstök áhersla lögð á hækkun lægstu launa

Tekjutrygging hækkar um 40,2% eða 86.000 kr. á tímabilinu

Það sem einkennir þennan kjarasamning öðru fremur er hækkun lægri launa og meðaltekna.   Þetta gerist með mikilli hækkun tekjutryggingar um 40,2%  eða 86.000 kr. á samningstímabilinu en einnig með því að launaflokki er steypt undan launatöflunni við gildistöku samningsins. Síðan færast starfsheiti milli launaflokka bæði árin 2017 og 2018. Í  launatöflum Flóafélaganna má sjá hvernig tekjutryggingin grípur inn í launatöfluna öll árin en það er þekkt staðreynd úr launamálum margra hópa hjá Flóafélögunum að tekjutryggingin er það öryggisnet sem aðstoðar marga launamenn í neðri hluta launastigans til að ná betri kjörum en ella.Lægstu taxtar Flóabandalagsins hækka um 32,5% á samningstímanum. Í dag er lágmarkstekjutrygging kr. 214 þúsund en verður kr. 245 þúsund við undirritun samningsins og endar í kr. 300 þúsund við lok gildistíma hans.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka talsvert

Orlofs- og desemberuppbætur hækka talsvert á tímabilinu og fer orlofsuppbót í 48.000 kr. í lok samningstímans og desemberuppbót hækkar í 89.000 kr. í lok gildistíma samningsins.

Dagsetningar launahækkana

1. maí 2015

Launataxtar hækka um 25.000 kr.

Launaþróunartrygging í sama starfi frá 1. feb. 2014: Laun undir 300.000 kr. hækka um 7,2% að lágmarki, fer stiglækkandi í 3,2% að 750.000 kr. Lágmarkslaunahækkun er 3,2%

 

1. maí 2016

Launataxtar hækka um 15.000 kr.

Launaþróunartrygging 5,5%

 

1. maí 2017

Taxtahækkanir 4,5%

Almennar hækkanir 3%

 

1. maí 2018

Taxtahækkanir 3%

Almennar hækkanir 2%

 

Breyting á vinnutíma – verkalýðshreyfingin réði miklu um stefnuna

Tillögur SA um breytingar á lengd dagvinnutíma settu samningaviðræður í mjög erfiða stöðu á tímabili en stéttarfélögunum tókst að koma þessu máli í betri farveg þar sem félögin tóku undir þá stefnu að stuðla að styttingu vinnutíma og koma á fjölskylduvænni vinnumarkaði eins og gerist á Norðurlöndunum. En það yrði einungis gert með umræðum og kynningu á vinnustöðunum og síðan yrði málið afgreitt  í sameiginlegri atkvæðagreiðslu eftir vandaða yfirferð málanna í lok árs 2016 þar sem meirihluti launafólks réði niðurstöðunni.

 

Ákvæði í menntamálum geta komið sér vel fyrir launafólk

Mikilvægt atriði er í samningnum við Samtök atvinnulífsins þar sem atvinnurekendur samþykktu að meta raunfærnimat til launabreytinga inni í kjarasamningnum á árinu 2016 og getur þetta skipt launafólk talsverðu máli.

Fjöldi annarra atriða er einnig að finna í samningnum sem koma launafólki til góða.

 

Yfirlýsingar ríkisstjórnar

Tekjuskattslækkun kemur þeim tekjuhærri meira til góða

Ekki liggja fyrir nákvæmir útreikningar hjá stéttarfélögunum um það hvernig skattabreytingar munu koma á alla tekjuhópa en þó er ljóst að áhrifin á vinnumarkaðinn eru umtalsverð þar sem áætlað er að verja um 16 milljörðum króna til heildarlækkunar á tekjuskatti einstaklinga á árunum 2014-2017. Fyrirheit um að persónuafsláttur muni hækka í takt við verðlagsbreytingar er jákvætt fyrir launafólks almennt en vitað er að tekjuskattslækkunin mun koma þeim mun meira til góða sem eru á hærri tekjum eða ofan við 500 – 600 þúsund krónur en áherslur verkalýðsfélaganna vega hér á móti með sérstakri áherslu á lægri launin enda eru skattabreytingar ríkisstjórnarinnar ekki samningsatriði við stéttarfélögin heldur einhliða ákvarðanir fjármálaráðuneytisins.

Mikilvæg ákvæði um stuðning í húsnæðismálum

Gera má ráð fyrir að það ákvæði um stuðning í húsnæðismálum sem er að finna í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar geti komið mörgu launafólki til góða, en þar er að finna áform um að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, styðja við leigumarkað og styðja við kaup fólks á fyrstu íbúð.  Þá á að tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði, leggja grunn að nýju félagslegu íbúðakerfi og er gert ráð fyrir átaki í byggingu félagslegra leiguíbúða.  Einnig er fyrirhugað að byggja 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum.

Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er einhliða af hennar hálfu en ef framkvæmdin er í samræmi við yfirlýsinguna, getur hún komið mörgu launafólki til góða þar sem viðhorfskannanir Flóafélaganna sýna að mjög margt launafólk, bæði leigjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis hefur farið illa út úr húsnæðismálum sínum eftir kreppuna.

Tryggja námstækifæri fyrir 25 ára og eldri

Hitt er ekki síður mikilvægt að inni í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru áform stjórnarinnar um að tryggja áfram námstækifæri fyrir 25 ára og eldri og þetta getur skipt miklu máli fyrir launafólk eldra en 25 ára sem búið var að svipta rétti til menntunar hjá símenntunarstöðvum.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar koma einnig fram önnur atriði sem munu nýtast launafólki. 

 

Yfirlýsing ríkistjórnarinnar í heild sinni er að finna hér………..

Kjarasmingurinn í heid sinni er að finna hér……