Skip to main content
  • segir Lucyna Bednarek, sem settist að á Íslandi fyrir röð tilviljana

Lucyna Bednarek kom fyrir 16 árum til Íslands til að vinna, fyrir áeggjan vinar síns. Starfsferillinn byrjaði ekkert sérstaklega vel, en núna er Lucy, eins og hún er oftast kölluð, búin að koma sér vel fyrir, mennta sig og eignast fjölskyldu. Lucy segist ekkert vera á leiðinni burt. Hún eigi heima á Íslandi og sjái fyrir sér að eiga hér heima áfram.

Lucy er fædd í Póllandi, í borginni Slupsk, sem er um 120 kílómetra norður af Gdansk. „Þar átti ég heima þar til ég var 18 ára. Þá flutti ég til stórborgarinnar Wroclaw og bjó þar í rúmlega ár en flutti svo aftur heim til Slupsk. Þar hitti ég vin minn sem hafði búið á Íslandi í nokkur ár. Hann spurði hvort ég vildi ekki koma til Íslands til að vinna. Af hverju ekki að prófa, hugsaði ég.”

Allt gekk á afturfótunum

Eftir að Lucy kom til Íslands, fékk hún vinnu hjá Foodex í Grafarvogi, fyrirtæki sem er ekki starfrækt lengur. „Þarna vann ég alla daga eins og brjálæðingur á 12 tíma vöktum. Svo fékk ég útborgað eftir einn mánuð. Ég fékk 30 þúsund. Ég spurði af hverju þetta væri svona lítið eftir svona mikla vinnu og var sagt að þeir væru að loka fyrirtækinu og það væru ekki til meiri peningar.”

Með þessar 30 þúsund krónur í höndunum þurfti Lucy að ákveða hvort hún ætlaði að kaupa sér flugmiða til Póllands, eða borga fyrir herbergið sem hún leigði hjá vinafólki vinar síns. „Ég borgaði 15 þúsund fyrir herbergið og átti þá 15 þúsund eftir.” Lucy ákvað sjálf að leita sér að vinnu, gekk á milli atvinnurekenda og spurði hvort það vantaði starfskraft. „Þetta var erfiður tími, ég átti litla peninga og það var ískalt hérna þá” segir Lucy. Hún fékk vinnu í Háskóla Íslands, við skúringar. Einhvern tíma var hún að fletta Fréttablaðinu og rakst á auglýsingu á ensku, þar sem maður auglýsti eftir fólki í byggingarvinnu; í smíðar, pípulagnir, flísalagnir og þess háttar. „Það voru margir Pólverjar að vinna í byggingarvinnu við háskólann á þessum tíma og þegar ég fór út með ruslið og svona, þá rakst ég á nokkra Pólverja. Ég sagði þeim frá auglýsingunni sem ég hafði rekist á og spurði hvort þeir vildu ekki koma með mér og spyrja um vinnu?“ Þannig kynntist hún verðandi manninum sínum, Jóhannesi Skúlasyni. Pólverjarnir fóru að vinna hjá honum. „Síðan var ég einhvern tíma á Kaffi París með vinafólki og hann var þar. Hann sagði: „Heyrðu – ég þekki þig. Viltu ekki bara sitja með okkur?“ Við kynntumst betur eftir þetta og eignuðumst fyrsta barnið, Viktoríu Rós, eftir eitt ár. Hún er núna 14 ára.”

Fjórum árum síðar eignuðust hún og Jóhannes eiginmaður hennar, aðra dóttur, Ísabellu Rós. „Ég var að vinna hjá Hrafnistu í Boðasölum og lenti þar í erfiðum vaktstjóra, sem var kona. Ég var ólétt og leið illa og fór í veikindaleyfi út af verkjum í baki. Hún varð mjög reið þegar ég veiktist og Jóhannes fór með læknisvottorð til hennar.“

Formsatriði var ekki fullnægt

„Þegar ég mætti til vinnu eftir fæðingarorlofið, var að setja á mig svuntuna og ætlaði inn í eldhús að vinna, kom vaktstjórinn til mín og spurði: „Hvað ert þú að gera hér?“ Ég sagðist vera búin í fæðingarorlofinu og væri að byrja að vinna aftur. „Nei, þú ert rekin,“ sagði vaktstjórinn.” Í ljós kom, að Lucy var rekin af því að formsatriði var ekki fullnægt. Hún hafði ekki fyllt út eyðublað þegar hún veiktist, sem segði hvenær hún kæmi til baka. „Ég vissi ekkert að ég þyrfti að fylla það út og enginn sagði mér frá því,“ útskýrir Lucy. „Ég vissi ekki einu sinni að það væri til svoleiðis eyðublað.”

Þegar þetta gerðist, vissi Lucy ekki að hún gæti leitað hjálpar hjá verkalýðsfélaginu. Hún var ekki vön því frá Póllandi og réttindi fólks og aðstoð félaganna þar væru ekki jafn mikil og hér. „Ég held að það hafi verið viljandi gert hjá vaktstjóranum að láta mig ekki vita hvaða réttindi ég ætti og hvaða eyðublað þyrfti að fylla út.”

Þriðja barnið

Lucy var að vinna í Laugardalshöllinni, við að skúra, undirbúa tónleika og þess háttar, þegar hún og Jóhannes eignuðust þriðju dótturina, Sylvíu Rós, sem í dag er 6 ára. „Þetta var mjög góður vinnustaður og gott fólk sem ég vann með. Ég ákvað samt að fara ekki aftur þangað eftir fæðingarorlof. Við áttum heima í Hafnarfirði og það var langt að fara.” Henni þótti þó gott að vinna þarna og fékk mikla hjálp við að læra íslensku. Boðið var upp á íslenskukennslu í vinnutíma og það var stutt að fara. „Vinnan borgaði skólann og ég var á launum á meðan. Þegar ég var búin með allt sem ég gat lært þar, sagði kennarinn að ef ég vildi læra meira, gæti ég farið á skrifstofubraut í MK í Kópavogi.” Og þangað fór hún. Námið þar var eins árs nám, sniðið að þörfum útlendinga sem vildu læra íslensku, bókfærslu og þess háttar. Námið fram fór á kvöldin, frá fimm til átta. „Þarna lærði ég mikið í íslensku,” bætir Lucy við.

Eftir þetta fór Lucy að vinna í Leikskólanum Stekkjarási, hálfan daginn í eldhúsinu og hálfan daginn inni á deild. Hún hætti eftir fimm ár og fór að vinna sem matráður í Heilsuleikskólanum Hamravöllum, sem þá var rekinn af einkafyrirtæki. Hún fór aftur í MK, að læra að verða matsveinn. Það var kvöldskóli, frá fimm til níu. „Það var erfiður tími, mikið nám og ég að vinna til fjögur, með þrjú börn, og svo í skólann klukkan fimm. Það var því ekki mikill tími til að sinna börnunum. Tengdamóðir mín hjálpaði okkur mjög mikið með börnin. Þegar ég kom heim eftir klukkan níu á kvöldin, þurfti að vinna verkefni fyrir næsta dag.” Skólinn tók eitt og hálft ár. Allt var kennt á íslensku. „Þetta var mjög skemmtilegt nám og mér gekk mjög vel, útskrifaðist með 9,5 í meðaleinkunn.”

Lucy vildi læra meira. Henni var sagt að hún gæti farið í kokkanám, en treysti sér ekki til að lifa af nemalaunum þann tíma sem það tæki. „Þá var mér bent á að ég gæti lært matartækni og að vinna með sérfæði. Það hentaði mjög vel, því ég þurfti talsvert að vinna með sérfæði í leikskólanum.” Að loknu sumarleyfi settist hún því aftur á skólabekk á kvöldin. Þangað fór hún að loknum vinnudegi og var í skólanum alla virka daga til tíu á kvöldin. „Þetta var auðvitað mjög erfitt, í vinnu og með fjölskyldu og þrjú börn. Ég ákvað samt að þetta væri bara tímabil sem tæki enda og að ég yrði að gera þetta, fyrir sjálfa mig. Ég lærði eins og ég er vön og hafði mikinn áhuga. Ég var samt viss um að íslensk kona, sem var með mér í náminu og gekk alltaf mjög vel, fengi hæstu einkunnirnar. Ég varð því mjög hissa þegar ég var kölluð upp á svið í útskriftinni. Ég fékk viðurkenningu fyrir bestan árangur og var með 9,9 í meðaleinkunn, með hæstu einkunn í bekknum,” segir Lucy og stoltið leynir sér ekki. „Ég hætti í námi eftir þetta, þótt ég geti alltaf byrjað aftur ef ég vil og orðið kokkur til dæmis. Ég lét meta mig hjá Iðunni og þyrfti líklega að bæta við mig einu ári í verklegu og einu og hálfu í bóklegu námi til að klára kokkanám. Það er ekki á dagskrá núna, en hver veit hvað síðar verður.”

Hittumst öll í Póllandi

Móðir Lucy býr í Slupsk í Póllandi, en faðir hennar er látinn. Hún á tvær systur, sem báðar búa í Bretlandi. „Við hittumst stundum í Póllandi. Það var auðvitað ekki hægt að fara á Covid-tímanum, en við fórum núna í sumar og hittumst öll heima hjá mömmu.” Dæturnar tala ekki pólsku, en skilja dálítið. „Ég talaði stundum við elstu dótturina á pólsku, en svo þegar hún fór í leikskóla og ég í skóla, þá minnkaði það mjög mikið. Ég er samt viss um að þetta væri fljótt að koma, ef þær væru einhvern tíma með mömmu í Póllandi. Það er ekki mikil þörf á því í minni fjölskyldu hér að tala pólsku og flestir vinir mínir eru Íslendingar. Ég er sjálf farin að ryðga í pólskunni og er ekki í miklu sambandi við aðra Pólverja hér. Þegar ég kem til Póllands finnst fólki ég tala skrítna pólsku og ég á ekki eins auðvelt með að skrifa hana og áður og er farin að gleyma pólskum orðum. Mig er farið að dreyma á íslensku.”

Lucy líkar vel við Íslendinga og finnst þeir almennilegt fólk. Hún segist tvívegis hafa upplifað að henni hafi verið hafnað í vinnu þegar hún sagðist vera Pólverji, en annars hafi hún ekki fundið fyrir mismunun eða slæmum viðhorfum. „Mér finnst hafa verið vel tekið á móti mér á Íslandi. Annars voru Íslendingar opnari fyrir útlendingum þegar ég kom hingað fyrst árið 2006. Núna nenna þeir ekki að bíða á meðan fólk reynir að tjá sig á íslensku, þeir skipta næstum strax yfir í ensku. Þetta er ekki gott. Ég vil tala íslensku á Íslandi og veit að það eru margir sem vilja gera það.” Lucy segir að erfitt sé að finna réttu leiðina. Núna sé allt þýtt, svo sem í bankanum og hjá lækninum, og það sé líka hægt að panta túlk. „Þetta er að sumu leyti gott, en það getur líka haft þau áhrif að fólk er lengur að læra íslensku ef það þarf ekki að nota hana. Það á að leggja meiri áherslu á að fólk læri íslensku. Það er meira að segja hægt að fara til tannlæknis sem talar pólsku. Fólk segir stundum við mig að það sé ekki skrítið að ég tali íslensku, af því að ég á íslenskan mann, en hann kenndi mér ekki íslensku, við töluðum alltaf ensku saman fyrst. Ég byrjaði sjálf að læra íslensku og reyna að tala hana. Fyrst blandaði ég henni saman við ensku en svo einn góðan veðurdag talaði ég bara íslensku. Tengdamamma mín talaði alltaf íslensku við mig og ég lærði mikið af því, en ég held að ég hafi lært mest í skólanum.”

Gott að læra málið í leikskóla

Lucy segir að leikskólar séu mjög góðir staðir til að læra íslensku. „Útlendingur sem vinnur með litlum börnum, lærir með þeim og af þeim. Ég hef séð það gerast. Þú lærir tungumálið af börnunum. Orðaforðinn er ekki mikill hjá ungum börnum og þeir sem vinna með þeim læra hann fljótt og bæta svo við um leið og börnin. Svo þarf auðvitað að fara á námskeið. Þú lærir ekki íslensku ef þú vinnur með Pólverjum allan daginn og talar ekki annað en pólsku, hittir svo Pólverja á kvöldin og talar aldrei íslensku. Hvernig áttu að læra málið ef þú notar það aldrei?” Lucy segist lesa íslenskar bækur og Yrsa sé í uppáhaldi. Hún kaupi stundum pólskar bækur, en finnist orðið auðveldara að lesa á íslensku.

Hún segir að feimnin við að tala málið sé stærsti þröskuldurinn. Það hafi tekið hana fimm ár að yfirstíga þann þröskuld. Núna geti hún bjargað sér ágætlega á íslensku og þurfi ekki túlk til að fara til læknis eða í banka. „Og ég tala við þig á íslensku,” segir hún og brosir. Hún segist læra mikið við að aðstoða dætur sínar við skólaverkefni. „Það er erfiðast með þessa fjórtán ára, af því að hún er komin svo langt fram úr mér. Þegar ég er spurð af hverju börnin mín tali ekki pólsku, þá á ég ekki annað svar en það, að við búum á Íslandi og ætlum að gera það í framtíðinni. Ef þau vilja læra pólsku þá gera þau það á sínum forsendum og ég hjálpa þeim. Ef mamma mín væri hér, þá töluðu þau örugglega meiri pólsku.”

Lucy segir mikinn mun á lífsgæðum á Íslandi og í Póllandi. Þar sé vinnudagurinn miklu lengri og fólk sé oft þreytt. Margir hafi komið hingað í leit að betra lífi, en eyði svo fríum í Póllandi. Flest sé ódýrara þar, en launin séu lægri. Réttur til sumarleyfa sé skemmri í Póllandi en á Íslandi og ýmis réttindi sem séu sjálfsagt mál hér, séu veikari þar. Desemberuppbót þekkist til dæmis ekki þar og sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga séu mun sterkari hér. Annað sé aftur á móti ekki síðra í Póllandi, til dæmis ókeypis tannlæknaþjónusta og heilsugæsla. Að vísu geti þurft að bíða eftir tíma og hægt sé að fá þessa þjónustu á einkareknum stofum. „Það er dýrt og það hafa alls ekki allir efni á því.”

Getur ekki borðað lambakjöt

Fjölskyldan býr á Völlunum í Hafnarfirði og hefur gert síðan 2007. Þegar þau kynntust rak Jóhannes símsvörunarfyrirtæki, en fór síðan að vinna hjá Ríkisútvarpinu, við að markaðssetja íslenskt efni erlendis og kaupa inn efni. Eftir að hann hætti sem starfsmaður RÚV, hefur hann sinnt verkefnum af þessu tagi sjálfstætt. Núna rekur hann pakkasendingaþjónustu og keypti nýlega matsölustað ásamt félaga sínum. Lucy vinnur núna í Leikskólanum Hamravöllum. „Hamravellir eru góður vinnustaður. Þar er gott fólk og góður starfsandi. Leikskólastjórinn er frábær og mismunar ekki fólki eftir því hvaðan það kemur.“

Lucy segist borða flestallan íslenskan mat. „En ég borða ekki lambakjöt. Ég get eldað það og finnst lyktin góð,  en ég get ekki borðað það, nema soðið af kjötsúpu. Ég vildi að ég gæti það. Ég borða svínakjöt og kjúkling, en ég er samt hrifnust af fiski. Hann er mjög góður hér, þótt ég skilji ekki af hverju fiskur veiddur við Ísland þarf að vera svona dýr. Ég skildi það ef það þyrfti að flytja hann á milli landa.”

Lucy er að lokum spurð að því hvort hún fái aldrei heimþrá. „Mér finnst gott að fara til Póllands í frí, hitta fjölskylduna, fara á ströndina, vera í góðu veðri og borða öðruvísi mat. Eftir eina til tvær vikur þá fæ ég heimþrá til Íslands, því hér á ég heima,” segir Lucy að lokum.