Skip to main content

Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.
Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði námskeiðanna en mestur verðmunur er 148% á 4 klst. fimleikanámskeiði fyrir 8-10 ára börn og 119% verðmunur á 6. flokki í handbolta. Þetta kom fram í könnun sem verðlagseftirlit ASÍ tók saman um hvað það kostar að æfa handbolta og fimleika hjá fjölmennustu íþróttafélögum landsins. Bæði Hafnarfjarðarfélögin Haukar og FH eru í hærri kantinum í könnuninni.

 
 
Fimleikar
Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 6-8 ára börn sem æfa 2 klst. á viku og fyrir 8-10 ára börn sem æfa 4 klst. á viku, en tekinn er saman æfingakostnaður fram að jólum (4. mánuðir). Ekki er tekið tillit til þess hvaða tegund fimleika sé verið að æfa (t.d. almenna, hóp- eða áhalda). Öll félögin eiga það sameiginlegt að setja saman gjaldskrá eftir fjölda klukkustunda sem æft er í viku hverri. 
 
Dýrast er að æfa í 2 klst. á viku fyrir 6-8 ára börn hjá Gerplu en það kostar 40.617 kr. en ódýrast á 17.000 kr. hjá Hamri Hveragerði sem er 23.617 kr. verðmunur eða 139%. Dýrast er að æfa í 4 klst. á viku fyrir 8-10 ára börn á 54.579 kr. hjá Gerplu en ódýrast á 22.000 kr. hjá Ungmannafélaginu Selfossi sem er 32.579 kr. verðmunur eða 148%.
 
Handbolti
Verðlagseftirlitið tók saman gjaldskrá fyrir 4.,6. og 8. flokk í handbolta fyrir allan veturinn 2013-14. Ekki er tekið tillit til hvað félögin eru að bjóða upp á margar æfingar í viku, en ekki er mikill munur á fjölda æfinga milli félaga. Hjá 8. flokki eru það 2-3 æfingar á viku, hjá 6. flokk eru það um 3 æfingar á viku og hjá 4. flokk eru þetta 4-6 æfingar á viku auk þrekæfinga hjá sumum félögunum.
 
Af þeim félögum sem bjóða upp á æfingar fyrir 8. flokk (6 og 7 ára) er dýrasta árgjaldið 45.000 kr. hjá Haukum og Gróttu en ódýrast 24.000 kr. hjá ÍR sem er 21.000 kr. verðmunur eða 88%. Í 6. flokki (10 og 11 ára) er dýrast að æfa hjá ÍR 59.000 kr. en ódýrasta árgjaldið er 27.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 32.000 kr. verðmunur eða 119%. Hjá 4. flokk (15 og 16 ára) er dýrasta árgjaldið 70.000 kr. hjá Gróttu en ódýrast 45.000 kr. hjá Þór, KA og Umf. Selfoss sem er 25.000 kr. verðmunur eða 56%. Taka má fram að árgjaldið hjá ÍBV er bæði fyrir handbolta og fótbolta. 
 
Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin. Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.

Sjá nánar í töflu.

is Icelandic
X