Skip to main content

Mikil ólga er í leikskólum bæjarins, meðal annars vegna áforma um að hafa skólana opna í allt sumar. Trúnaðarmenn á leikskólum og stjórn félagsins funduðu í gær og þar var samþykkt eftirafarandi ályktun:

Fjölmennur fundur trúnaðarmanna félaga í Verkalýðsfélaginu Hlíf sem starfa á leikskólum í Hafnarfirði, ásamt stjórn félagsins, mótmælir harðlega illa undirbúnum áformum um að hafa leikskóla bæjarins opna í allt sumar. Það er ljóst að þetta mun bitna á faglegu starfi skólanna, raska bæði starfi útskriftarhópa og aðlögun að hausti og breyta leikskólum úr fræðslustofnunum í geymslustaði fyrir börn. Fundurinn hvetur bæjarstjórn til þess að endurskoða ákvörðunina.

Jafnframt harmar fundurinn áhugaleysi bæjaryfirvalda varðandi ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnutímans og bætta vinnustaðamenningu. Fyrsti janúar er skammt undan og sums staðar er undirbúningur mjög skammt á veg kominn. Fundurinn minnir á, að útfærslan á að vera niðurstaða samkomulags á hverjum vinnustað sem bera skal undir atkvæði, en ekki einhliða ákvörðun stjórnenda og yfirmanna.

Að lokum bendir fundurinn á, að leikskólarnir eru verulega undirmannaðir og með auknum kröfum, sem m.a. fylgja kjarasamningum háskólamenntaðs starfsfólks leikskólanna, er stöðugt verið að auka álag á ófaglært starfsfólk leikskólanna. Það gengur ekki endalaust. Fundurinn hvetur bæjaryfirvöld til að taka sér tak og meta þennan hóp starfsfólks að verðleikum, til jafns við aðra. Án þessa hóps væri ekki hægt að halda úti leikskólastarfi í bænum.