Skip to main content

Ótímabundið útflutningsbann á áli mun hefjast í byrjun dags þann 24. febrúar.

By 16.02.2016April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized

Atkvæðagreiðsla um útflutningsbann var samþykkt af starfsmönnum hjá Rio Tinto Alcan þann 15. febrúar 2016 og eftir að hafa tilkynnt viðsemjendum og ríkissáttasemjara um niðurstöðuna hefur eftirfarandi fréttatylkinning verið send frá félaginu:

Efni: Tilkynning um vinnustöðvun hjá Rio Tinto Alcan á Íslandi hf.

Verkalýðsfélagið Hlíf hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna endurnýjunar á aðalkjarasamningi milli Rio Tinto Alcan/Samtaka atvinnulífsins og Vlf. Hlífar og annarra hlutaðeigandi verkalýðsfélaga en samningur aðila rann út skv. efni sínu þann 31. desember 2014. Viðræður um framlagðar kröfur reyndust árangurslausar og þann 15. apríl 2015 var deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Þann 29. apríl 2015 var lýst yfir árangursleysi viðræðna þrátt fyrir milligöngu ríkissáttasemjara.

Samninganefnd verkalýðsfélaganna ákvað þann 9. febrúar 2016 að leita heimildar til undirbúnings og boðunar vinnustöðvunar hjá Rio Tinto Alcan. Í framhaldi af því var tillaga samninganefndar um ótímabundna en takmarkaða vinnustöðvun þeirra félagsmanna Vlf. Hlífar er tilheyra flutningasveit fyrirtækisins og starfa á hafnar og vinnusvæði fyrirtækisins við útskipun á áli. Felur vinnustöðvunin í sér að engu áli verði skipað um borð í skip í Straumsvíkurhöfn, þ.e. ótímabundið útskipunarbann á áli frá byrjun dags (kl. 00:00) 24. febrúar 2016.  Vinnustöðvunin var samþykkt af hlutaðeigandi félagsmönnum Vlf. Hlífar.

Ótímabundið útflutningsbann á áli mun því að óbreyttu hefjast í byrjun dags þann 24. febrúar n.k.

F.h. Verkalýðsfélagsins Hlífar

Kolbeinn Gunnarsson, formaður