Skip to main content

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem þess er krafist að hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvar frá 1. janúar verði afturkölluð og að staðið verði við gefin loforð ríkisstjórnarinnar í aðdraganda kjarasamninga um að opinberar hækkanir verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands sem eru 2,5% á 12 mánuðum. Hækkanir komugjalda eru hins vegar á bilinu 15 – 20%. Miðstjórn ASÍ krefst þess einnig að hækkanir verði dregnar til baka.

Ályktun SGS fer hér á eftir:

"Blekið er ekki þornað af nýgerðum kjarasamningum þegar stjórnvöld senda kaldar kveðjur til launafólks í formi gjaldskrárhækkana. Komugjöld á heilsugæslustöðvar hækkuðu um 15-20% þann 1. janúar síðastliðinn. Rétt fyrir jól var undirritaður kjarasamningur með hógværum launahækkunum en með þeim samningi fylgdi ásetningur um að halda aftur af hækkunum hjá fyrirtækjum og í opinberum gjaldskrám. Stærstu sveitarfélög landsins hafa dregið til baka fyrirhugaðar hækkanir og í tengslum við kjarasamninga undirritaði fjármálaráðherra bréf með „skuldbindandi fyrirheitum“ um svipað. Reyndar segir orðrétt í bréfinu sem fjármálaráðherra undirritaði þann 21. desember síðastliðinn: „Næstu tvö ár verði gjaldskrárhækkanir ríkisins undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.“ Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% á tólf mánuðum en rúmri viku eftir undirritum yfirlýsingarinnar hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar um 15-20%.

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands krefst þess að þessi hækkun verði afturkölluð og staðið verði við gefin loforð í aðdraganda kjarasamninga."

Miðstjórn ASÍ krafðist þess einnig í dag að hækkanir opinberra aðila verslunar- og þjónustufyrirtækja verði dregnar til baka. Ályktun miðstjórnar ASÍ fer hér á eftir:

"Ein helsta forsenda þeirra kjarasamninga sem gerðir voru 21. desember er að verðbólga verði lág þannig  að kaupmáttur í landinu aukist. Til þess að þetta takist er mikilvægt að opinberir aðilar og verslunar- og þjónustufyrirtæki haldi aftur af verðhækkunum á næstu misserum. Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa brugðist vel við kallinu. Nú berast hins vegar váleg tíðindi af fyrirtækjum og opinberum aðilum sem tilkynnt hafa verðhækkanir og eru þar með að vinna gegn markmiðum þess kjarasamnings sem undirritaður var fyrir jól. Þessi fyrirtæki ögra ekki bara launafólki í landinu heldur og þeim stöðugleika og kaupmáttaraukningu sem er leiðarljós kjarasamningsins.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að þessar verðhækkanir verði dregnar til baka.  Alþýðusambandið mun fylgjast grannt með verðhækkunum fyrirtækja og opinberra  aðila. Ef verðhækkunum verður haldið til streitu mun ASÍ  birta nöfn þeirra fyrirtækja sem hækka verð til upplýsingar fyrir neytendur."