Skip to main content

Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.

Ferðbúast verð ég, feigðin mig kallar,
dregur að kveldi, deginum hallar.
Lífs míns á himni lækka fer sólin,
færðina þyngir, fýkur í skjólin.

Þannig orti Sigurður T. Sigurðsson, eða Siggi T. eins og hann var alltaf kallaður, fyrir nokkrum árum. Þetta er hið fyrsta af nokkrum erindum í ljóðinu Hérvistardvölin. Sigurður stóð í stafni í kjarabaráttu hafnfirsks launafólks í áraraðir og margir muna eftir honum fara fyrir kröfugöngu félaganna í bænum á 1. maí, með rauða fánann á lofti.

Sigurður fór snemma að vinna, eins og tíðkaðist á þessum árum, fyrst hjá Kaupfélagi Hafnfirðinga árið sem hann fermdist. Hann lauk síðan námi frá Flensborg árið 1949 og fór þegar að vinna fyrir sér.

Siggi T. kynntist verkalýðsmálum ungur að árum, en faðir hans sat í stjórn Hlífar 1940-1950. Það hefur vafalítið sett mark sitt á barnið og unglinginn á því tímabili sem skoðanir og viðhorf til lífsins og tilverunnar mótast einna mest. Hann gekk strax í félagið hann lauk námi 1949 og var félagsmaður óslitið þaðan í frá, ef undan eru skilin tímabil þegar hann var á sjó, eða vann á Keflavíkurflugvelli. Þá var hann félagsmaður í öðrum verkalýðsfélögum.

Sigurður hóf störf í álverinu í Straumsvík síðsumars 1972 og var strax kjörinn trúnaðarmaður. Í álverinu starfaði hann til 1981, þegar hann hóf störf á skrifstofu Hlífar, þar sem hann var til ársins 2007. Sigurður var fyrst kjörinn í stjórn félagsins árið 1973 og var stjórnarmaður í um 30 ár, ekki óslitið þó. Hann var formaður Verkamannafélagsins Hlífar frá 1987 til 1999, er félagið sameinaðist Verkakvennafélaginu Framtíðinni og var síðan formaður hins sameinaða félags, Verkalýðsfélagsins Hlífar, til ársins 2002.

Siguður var vel ritfær og skrifaði fjölda greina í bæjarblöð og landsmálablöð, auk þess að ritstýra blaði félagsins, Hjálmi, með miklum myndarbrag. Viðfangsefnin voru fjölbreytt, en snertu þó oftast hagsmuni launafólks. Hann skrifaði ótal greinar gegn verðtryggingu, okurvöxtum og sérhagsmunum í hvaða mynd sem þeir birtust. Hann skrifaði þó fleira en greinar í blöð, því eftir hann liggur nokkuð af ljóðum og lausavísum, sem flest er óbirt. Þar kemur vel í ljós hve blíður og auðmjúkur hann var gagnvart lífinu og sem lífinu fylgir,  þar með talið dauðanum.

Siggi T. var ekki hávaxinn maður, en fólk tók eftir honum þar sem hann kom. Hann var léttur á fæti og snaggaralegur í hreyfingum. Hann var þægilegur í viðmóti og fór ekki í manngreinarálit, mátti ekkert aumt sjá og tók alltaf málstað þeirra sem minna máttu sín.

Við Siggi T. unnum saman um árabil. Ég kynntist honum þegar ég vann í Straumsvík og var trúnaðarmaður og enn betur eftir að ég hóf störf á skrifstofunni árið 1995, við hlið hans. Við vorum ekki alltaf sammála og stundum hvein í, en það varði aldrei lengi.

Fyrir hönd Verkalýðsfélagins Hlífar þakka ég Sigga T. fyrir störf hans í þágu félagsins og hafnfirsks verkafólks. Það er viðeigandi að enda þessi kveðjuorð á síðustu línunum í ljóði Sigurðar Hérvistardvölin.

Þegar svo lýkur lífsgöngu minni,
sáttur ég sofna síðasta sinni.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar

is Icelandic
X