
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun sem var upphaflega stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í maí 2008. Í janúar 2009 var síðan undirrituð ný stofnskrá sjóðsins með aðkomu stéttarfélaga og atvinnurekenda á opinberum vinnumarkaði. Sjóðurinn byggir á samkomulagi um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar í kjarasamningum á vinnumarkaði á árinu 2008.
Starfsendurhæfingarráðgjafar starfa víðsvegar um land, oftast í nánu sambandi við verkalýðsfélög og sjúkrasjóði þeirra. Á skrifstofu Vlf. Hlífar starfa tveir Virk ráðgjafar.
Verkalýðsfélagið Hlíf er aðili að Virk í gegnum Alþýðusamband Íslands

Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar
Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar var sett á stofn haustið 2008. Stofnaðilar voru Verkalýðsfélagið Hlíf, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Hafnarfjarðarbær og Sjúkraþjálfarinn.
Endurhæfingin er einstaklingsmiðuð og þátttakendur fara ólíkar leiðir og á mismunandi hraða. Leitast er við að nýta úrræði sem eru til staðar í nærsamfélaginu, svo sem í heilbrigðis-, félags-, og menntakerfinu.
Talsverður hluti endurhæfingarinnar fer fram í hópi þar sem fram fer samvinnunám og þátttakendur vinna að því að efla og styrkja sjálfa sig í samstarfi og samskiptum hver við annan. Stefnt er að vaxandi sjálfstæði þátttakenda eftir því sem á líður endurhæfinguna.
Reynt er að koma til móts við þarfir hvers og eins þátttakanda eftir því sem kostur er. Þeim er hjálpað að átta sig á eigin stöðu, vinnugetu, námsþörfum og möguleikum. Haldin eru ýmis grunnnámskeið og einnig gefst þeim kostur á námstengdri endurhæfingu. Námshluti endurhæfingarinnar fer þá fram utan starfsstöðvar endurhæfingarinnar en Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar veitir stuðning, ráðgjöf og heldur utan um aðra þætti endurhæfingarinnar.
Sem dæmi um sérfræðiþjónustu sem getur staðið þátttakendum til boða má nefna félagsráðgjöf, fjármálaráðgjöf, fjöldkylduráðgjöf, iðjuþjálfun, náms- og starfsráðgjöf, næringarráðgjöf, ráðgjöf sjúkraþjálfara og sálfræðiviðtöl.
Allan endurhæfingartímann eru þátttakendur í reglulegum stuðningsviðtölum hjá ákveðnum ráðgjafa Starfsendurhæfingarinnar og fá hvatningu og aðhald við að vinna að markmiðum sínum. Þeir fá aðstoð við atvinnuleit eða að velja sér nám við hæfi og geta hætt í endurhæfingu og hafið störf á vinnumarkaði hvenær sem þeir eru tilbúnir til. Því eru þeir misjafnlega lengi í endurhæfingu, allt eftir þörfum hvers og eins og eðli endurhæfingarinnar.