Skip to main content

Áherslur ASÍ vegna þingkosninga 2021

 

Það er nóg til – bæklingur á PDF formi

 

„Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Jafnvel þegar þú heldur að ekki sé nóg til, þá fá hin sér bara aðeins minna svo öll fái eitthvað.

Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því allra besta sem þekkt er í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi.

 

Hægur er vandinn, það er nóg til.

Kjósum!

Nú þegar kosningar eru í nánd er mikilvægt fyrir okkur öll að huga að því hvernig næsta þing verður samansett. Það ríður á að velja fulltrúa sem treystandi er fyrir heildarhagsmunum samfélagsins, fulltrúa sem hafa kunnáttu, vilja og getu til að feta veginn til farsældar þegar tekist verður á við eftirleik COVID-kreppunnar.

Hartnær 135 þúsund félagar gera Alþýðusamband Íslands að stærstu fjöldahreyfingu landsins. Stjórnmálin geta ekki litið framhjá þeim málefnum sem varða þennan hóp mestu. Æðsta vald samfélagsins, valdið til að velja hvaða einstaklingar setjast á þing, er í höndum kjósenda. Í aðdraganda kosninga verður tilvonandi fulltrúum á Alþingi að vera ljóst að vilji þjóðarinnar stendur til þess að byggja samfélagið upp með sjálfbærni, jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi. Kjósendur verða líka að nýta atkvæðisréttinn og kjósa með réttindum sínum. Virkt lýðræði dregur úr misskiptingu og ýtir undir jöfnuð.

 

Virkjum lýðræðið – kjósum með réttindum okkar.

Hvernig samfélag viljum við að rísi upp úr COVID?

Alþýðusamband Íslands hefur frá upphafi heimsfaraldursins unnið eftir skýrri sýn um hvernig eigi að bregðast við bráðavanda vegna efnahagskreppunnar og með hvaða hætti megi tryggja að aðgerðir sem gripið er til núna varði veginn til sjálfbærrar framtíðar. Líkt og alþjóðlega verkalýðshreyfingin og flestar alþjóðastofnanir, hefur ASÍ lagt áherslu á að fyrst beri að bjarga lífum, næst að tryggja afkomu fólks og í þriðja lagi að koma fyrirtækjum til hjálpar. Ýmsar af þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld hafa gripið til eru í samræmi við tillögur ASÍ, einkum er varða úrbætur á atvinnuleysistryggingum, menntunar- og símenntunarúrræði, atvinnusköpun og aðrar vinnumarkaðsaðgerðir. Hins vegar hefur ASÍ gagnrýnt þær aðgerðir stjórnvalda sem hafa verið of almenns eðlis og að skort hafi á sértækar, en um leið stórtækar, aðgerðir til að mæta vandanum á þeim landssvæðum og hjá þeim hópum sem hafa orðið verst úti í kreppunni.

Framtíðarsýnin er fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf þar sem verkfúsar hendur hafa aðgang að fullri atvinnu fyrir sanngjörn laun og auðlindir landsins eru nýttar í þágu samfélagsins. Réttindi aldraðra og öryrkja til mannsæmandi kjara eiga að vera tryggð, um leið og börnum og ungmennum eru búnar heilbrigðar og innihaldsríkar aðstæður til uppvaxtar og þroska. Íslenskt samfélag þarf jafnframt að aðlagast breyttri samsetningu íbúa landsins.

Grunnþjónusta sem lýtur að menntun, velferð og heilbrigði á að vera gjaldfrjáls og öllum aðgengileg. Þannig tekst Ísland á við loftslagsbreytingar og býr sig undir tæknibreytingar og nýja atvinnu- og lifnaðarhætti.

 

Frá faraldri til farsældar.

Afkoman

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðasamband verkalýðsfélaga tala ekki oft einum rómi en þetta hafa þau sagt: tryggið afkomu fólks í gegnum COVID-kreppuna. Alþjóðastofnanir sem fyrir rúmum áratug sögðu ríkjum að skera niður velferð og selja sameiginlegar eignir hafa allar horfið frá þeim ráðleggingum, enda er slóðin blóði drifin. Niðurskurðaraðferðin hefur hægt á efnahagsbata, ýtt undir ójöfnuð og aukið á fátækt. Lærum af reynslunni, sleppum takinu á niðurskurðarhnífnum og látum heimilunum ekki blæða þegar kemur að því að rétta úr kútnum eftir COVID-19.

Örugg afkoma heimilanna kemur í veg fyrir fjárhagsvanda til frambúðar og stuðlar að því að halda uppi kaupmætti sem er lykilþáttur í viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Íslenskt samfélag, með auðlindirnar og mannauðinn í burðarvirki sínu, hefur styrk til að taka höggið og milda það. Hér er ekki þörf á að fara í stórfelldan niðurskurð í velferðarkerfinu eða að hækka skatta og gjöld á þá sem fyrir hafa úr litlu að spila. Afkoma fólks verður best tryggð með öruggum ráðningasamböndum, öflugu velferðarkerfi og traustu öryggisneti. Enn fremur er núna rétti tíminn til að bæta kjör þeirra sem minnst bera úr býtum fyrir vinnu sína og draga úr skerðingum almannatrygginga; það skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þegar atvinnuleysi er í sögulegum hæðum nægir ekki að bíða eftir að ferðaþjónustan rétti úr kútnum. Atvinnumál verða eitt stærsta viðfangsefni þessara kosninga.

ASÍ kallar eftir skýrri sýn stjórnmálaflokkanna á afkomutryggingu, atvinnuuppbyggingu og aðgerðir sem gagnast þeim landsvæðum og hópum sem verst hafa orðið úti.

 

Rétta leiðin út úr kreppu er að tryggja afkomu fólks og verja heimilin.

Húsnæðismál

Frá Ísafirði til Egilsstaða, Akureyri til Reykjavíkur, alls staðar er viðkvæðið hið sama: það skortir húsnæði og bæði kaupverð fasteigna og leiguverð er alltof hátt. Ungt fólk, sem getur, býr lengur heima og þröskuldurinn á milli leigumarkaðar og eignarmarkaðar er mörgum óyfirstíganlegur. Forskot þeirra sem eiga eykst og það verður sífellt dýrara að vera fátækur. Þörfin fyrir íbúðir var og er fyrirsjáanleg og það á ekki að koma stjórnvöldum og sveitarstjórnum hverju sinni á óvart hversu margar íbúðir skortir. Þetta er eitt af stærstu pólitísku viðfangsefnum 21. aldarinnar og um leið eitt mikilvægasta kjaramálið. Hærri laun gagnast lítið ef þau fara beina leið í hækkaðar afborganir eða óhóflegar leigugreiðslur.

Það á að heyra sögunni til að fólk þurfi að vera í öngum sínum um hver mánaðamót vegna sligandi húsnæðiskostnaðar. Öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum léttir óhóflegu vinnuálagi af launafólki og skapar því tíma og tækifæri til jafnari fjölskylduábyrgðar, aukinnar menntunar, fjölbreyttari tækifæra og innihaldsríkara lífs. Verkalýðshreyfingin hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar í húsnæðismálum, en á sama tíma skortir heildarsýn af hálfu stjórnvalda.

ASÍ fer fram á að stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til Alþingis skýri áform sín í húsnæðismálum.

 

Húsnæðisöryggi er grundvallarréttindi.

Heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið hefur ekki náð að rétta úr kútnum eftir niðurskurð eftirhrunsáranna og viðvarandi sveltistefnu nýfrjálshyggjuáranna. Það á ekki að koma neinum í opna skjöldu að fólk veikist bæði á líkama og sál, fólk eldist og börn fæðast. Þetta á við um allt land og þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu, fæðingarþjónustu og öldrunarþjónustu breytist ekki þótt dregið sé úr þjónustunni og hún færð úr heimabyggð. Engum vandkvæðum er bundið að spá fyrir um hversu mörg pláss þurfa að vera á hjúkrunarheimilum, en samt er skorturinn mikill og viðvarandi. Þótt endurgreiðsla á ferða- og dvalarkostnaði hafi verið aukin hefur hún ekki mætt þeirri þörf sem skapaðist með niðurskurði á þjónustu á landsbyggðinni,  íbúar þar bera talsverðan kostnað umfram aðra af því að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Líta má á þetta sem aukaskatt á landsbyggðina og þá gjaldheimtu ber að stöðva strax.

Heilbrigðiskerfið er bæði grunnþjónusta sem við eigum öll rétt á og einn stærsti vinnustaður landsins. Niðurskurður, sem einnig er kallaður hagræðing, í heilbrigðiskerfinu er því ógn við bæði heilsu og grundvallarréttindi fólks og við atvinnuöryggi, kjör og aðbúnað í vinnu. Krafan um hagræðingu má ekki öðlast sjálfstætt líf enda getur hún verið dýrkeypt fyrir fólk og samfélagið allt.

ASÍ styður þá stefnu að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og stýra flæðinu úr krananum sem sérfræðilæknar hafa einir aðgang að. ASÍ mun aldrei fallast á frekari áform um að draga úr framlögum til heilbrigðismála. Hvað þá að lækka launakostnað með útvistun starfa og með því að láta lægst launaða starfsfólkið hlaupa hraðar fyrir lægri laun.

ASÍ kallar eftir stefnu stjórnmálaflokkanna í heilbrigðismálum – fyrir allt landið.

 

Heilbrigðisþjónustu á að efla, ekki skerða.

Menntun og réttlát umskipti

Velferð þjóða byggir á góðri, almennri menntun frá leikskóla til grunnskóla og í gegnum framhaldsskóla og háskóla fyrir þau sem það kjósa. Formlega skólakerfið er þó ekki upphaf og endir menntunar. Sí- og endurmenntun er lykillinn að öflugu atvinnulífi og jafnframt leiðarljós í gegnum tímabil nýsköpunar og tæknibreytinga. Nýjar atvinnugreinar og störf verða til á meðan önnur leggjast af.

Launafólk gerir kröfu um réttláta hlutdeild í verðmætum sem skapast við breytingar á vinnumarkaði. Um það snýst hugmyndafræðin um réttlát umskipti. Þegar ódýrara verður að framleiða vörur og þjónustu með nýrri tækni á það að skila sér í bættum kjörum og styttri vinnuviku. Starfsfólk í störfum sem leggjast af á skilyrðislaust að fá tækifæri til að bæta við menntun sína og þekkingu án þess að framfærslu þeirra sé ógnað. Sérstaklega þarf að huga að þeim sem hafa litla grunnmenntun, fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla, útlendingum á vinnumarkaði og einstaklingum með skerta starfsgetu.

Öflugt menntakerfi þar sem bókgreinum og iðn- og tæknimenntun er gert jafnhátt undir höfði og sí- og endurmenntun er samofin við formlega skólakerfið, er hornsteinninn að réttlátari framtíð.

ASÍ vill fá skýr svör frá stjórnmálaflokkunum um sýn þeirra á menntamál í samhengi við breytingar á vinnumarkaði.

 

Mennt er máttur.

Jöfnuður

Skipting auðs í heiminum er að verða eins ójöfn og hún varð verst á 19. öld. Mikil misskipting auðs kemur öllu samfélaginu illa. Til lengri tíma dregur hún úr verðmætasköpun, skerðir lífsgæði og getur í versta falli leitt til ófriðar. Reikniformúlur kauphallanna eru fjarri því að ná utan um hin raunverulegu verðmæti og má þar nefna lífvænlegt hitastig á jörðinni og heilnæmt loft.

Á Íslandi eiga ríkustu 5% landsmanna um 40% af allri hreinni eign í samfélaginu og nýr auður ratar hlutfallslega mest til hinna ríku. Ósanngjörn uppbygging skattkerfisins ýtir undir þennan ójöfnuð þar sem hinum eignamestu er gert kleift að greiða lægra hlutfall til samfélagsins. Í sögulegu ljósi ýta kreppur undir ójöfnuð. Þess vegna verður að grípa til aðgerða til að draga úr honum og það verður eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar og nýkjörins Alþingis. Samfélög jöfnuðar eru sterkustu samfélög í heimi. Réttlát stefna í ríkisfjármálum er öflugasta tæki stjórnvalda til að stuðla að jöfnuði. Í henni felast: framsækin skattastefna, öflugt eftirlit, nýting auðlinda í allra þágu, sterkir og gjaldfrjálsir opinberir innviðir og öflugar almannatryggingar.

ASÍ krefst þess að stjórnmálaflokkarnir skýri hvernig þeir ætla að vinna að auknum jöfnuði og tryggja að yfirstandandi kreppa auki ekki á ójöfnuð.

 

Jöfnuður skapar sterkt samfélag.

Á þeim 105 árum sem liðin eru frá stofnun Alþýðusambandsins hefur þjóðfélagið tekið gríðarlegum breytingum og vissulega eru lífskjörin allt önnur en þau voru á öðrum áratug 20. aldar. Þau kjör náðust ekki baráttulaust. Fyrir ASÍ liggur nú, eins og þá, að berjast fyrir mannsæmandi launum, að í boði sé íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, að allir fái notið lífsgæða eins og hvíldar og frítíma og að til sé öryggisnet sem grípur þau sem þurfa þegar út af ber.Þann 25. september verður kosið til Alþingis. Það er krafa ASÍ að allir flokkar sem bjóða fram setji fram skýra framtíðarsýn og stefnu um þau mál sem skipta launafólk og almenning mestu máli: afkomu, heilbrigðismál, húsnæðismál, menntamál og jöfnuð. Við samþykkjum ekki þá hugmynd að í íslensku samfélagi sé slíkur skortur á fjármunum að ekki sé hægt að standa með viðunandi hætti að rekstri samfélagsins.

Á Íslandi á enginn að líða skort – það er nóg til.

Hlaðvarp ASÍ

Fleiri þættir

Samtal við flokkana

Fleiri viðtöl