Skip to main content

Til athugunar varðandi ráðstöfun séreignar inn á húsnæðislán

By 16.09.2014apríl 12th, 2019Fréttir, Uncategorized
Athugið, þessi grein er meira en ársgömul.

31. ágúst 2014 var ekki lokadagur umsókna
Þú ert ekki of sein/n að sækja um að ráðstafa séreignarsparnaði inn á húsnæðislánið þitt. Enn er opið fyrir umsóknir á vefnum leidretting.is. Nú gildir umsókn frá umsóknardegi í stað þess að gilda frá 1. júlí 2014, eins og hjá þeim sem sóttu um fyrir 1. september. 

Val á ávöxtunarleið
Í lögum um ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar er tekið fram að greiðsla inn á lán geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur inneign rétthafa vegna greiddra iðgjalda á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Það þýðir að ávöxtun getur haft áhrif á þá  fjárhæð sem heimilt er að ráðstafa inn á lán.
Hjá Séreignarsjóði Gildis hafa sjóðfélagar val um þrjár ávöxtunarleiðir:

Framtíðarsýn 1 er blönduð leið sem er samsett þannig að 65% safnsins er í skuldabréfum og 35% í hlutabréfum.  Þegar stór hluti safnsins er bundinn í hlutabréfum má búast við sveiflum í ávöxtun til skamms tíma og þá í takt við sveiflur á hlutabréfamörkuðum.

Framtíðarsýn 2 er einnig blönduð leið en er þannig samsett að 80% er í skuldabréfum og 20% í hlutabréfum. Í þessari leið má vænta meiri stöðugleika í ávöxtun samanborið við Framtíðarsýn 1 vegna lægra hlutfalls hlutabréfa en þó má búast við töluverðum sveiflum.

Framtíðarsýn 3 er verðtryggð innlánsleið. Almennt má gera ráð fyrir að minnstar sveiflur verði í ávöxtun þessarar leiðar til skamms tíma.
Þeir sem ætla að nýta sér heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán ættu að hafa eftirfarandi í huga við val á ávöxtunarleið á nýtingartíma ráðstöfunar:  Ef sparnaður fer í ávöxtunarleið sem sveiflast mikið  til skamms tíma er mögulegt að iðgjald rýrni áður en það greiðist inn á lán, þ.e. ef ávöxtun verður neikvæð á tímabilinu. Ef ávöxtun verður jákvæð situr sú umframávöxtun eftir í sjóðnum sem eign sjóðfélagans. Í ávöxtunarleið þar sem eru litlar sveiflur í ávöxtun eru almennt minni líkur á að iðgjald rýrni áður en greitt er inn á húsnæðislán.
Gildi hvetur sjóðfélaga til að huga vel að vali á ávöxtunarleið og velja þá leið sem hentar að teknu tilliti til aldurs og áhættuþols en um leið huga að áhrifum ávöxtunarleiðar á ráðstöfnun iðgjalds inn á húsnæðislán.

Ein umsókn fyrir hvern einstakling
Hver og einn þarf að sækja um ráðstöfunina á vefnum leidretting.is. Ein umsókn er fyrir hvern einstakling hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða sambúð. Í einhverjum tilvikum, þar sem fólk er samskattað, getur þurft að sækja um annan veflykil hjá RSK fyrir þá kennitölu sem ekki er skráð fyrir sameiginlegum veflykli hjóna.