Skip to main content

Tunnumótmælin vöktu ríkisstjórnina

By 13.12.2010April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized

Tónlistarmaðurinn Hjörtur Howser hefur fengið að kenna á kreppunni á eigin skinni, því fyrir skemmstu missti hann húsið vegna stökkbreyttra skulda. Hann var nokkuð áberandi í tunnumótmælunum í haust sem haldin voru undir stefnuræðu forsætisráðherra fyrir utan Alþingishúsið. Þá hljóp hann undir bagga með skipuleggjendum þegar átta þúsund manns mótmæltu og kröfðust aðgerða stjórnvalda.

“Þetta þjappaði fólki saman og kannski eru mótmælin ólík búsáhaldabyltingunni að því leyti að þarna sáum við andlit almennings. Þetta var fólk á öllum aldri, úr öllum stéttum og af ólíkum uppruna sem mótmælti og það sem gerðist var að ríkisstjórnin vaknaði af Þyrnirósarsvefninum.”

Tunnumótmælin fóru fram á ýmsum stöðum í haust, meðal annars við Landsbankann, Stjórnarráðið og Nordica Hilton hótelið þegar ársfundur ASÍ fór þar fram.

“Stjórnvöld gera sér ekki grein fyrir því hversu alvarleg staðan er. Þúsundir hætta að greiða af lánum og fara jafnvel úr landi ef ekkert verður að gert. Þjóðfélagið getur ekki virkað án þessa hóps,” segir Hjörtur.

Hann telur að fjölmiðlar og ráðamenn eigi stóran þátt í því þeim neikvæðu viðhorfum sem lánþegar mæta. Neikvætt orðaval í fjölmiðlum hafi haft mjög slæm áhrif; “Allt í einu eru lánþegar orðnir skuldarar og óreiðufólk sem er ábyrgt fyrir því hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu. Þarna er blæbrigðamunur á orðavali sem hefur mikil áhrif. Af hverju heitir þetta ekki umboðsmaður lánþega en ekki skuldara?”

Hjörtur segist ekki vera atvinnulaus, heldur atvinnuleitandi. Ekki skuldari, heldur lánþegi. En hann telur mikilvægt að menn skorist ekki undan ábyrgð við þessar aðstæður. “Við erum bara ein þjóð Íslendingar. Þetta hrun bitnar á okkur öllum, það er enginn stikkfrí.”