Trúnaðarmenn á skólabekk

By Fréttir

Í vikunni lauk öðru trúnaðarmannanámskeiði haustsins. Að þessu sinni var um að ræða Trúnaðarmannanámskeiði 2. Námskeiðið var afar vel heppnað og þátttakendur mjög virkir á námskeiðinu. Farið var yfir launaseðla og launaútreikninga, lífeyrissjóði, almannatryggingar og margt fleira sem getur verið gagnlegt í starfi trúnaðarmannsins. Auk þess var farið yfir starfsemi félagsins og sjóði þess. Í lokin var almenn umræða um félagið, hvernig auka mætti virkni og þjónustu og hvernig mætti efla það sem baráttutæki.

Öflugt starf hjá félagsliðum

By Fréttir

Formaður Félags íslenskra félagsliða, Sigurbjörg Sara Róbertsdóttir heimsótti okkur á skrifstofu Hlífar í gær. Lengi hefur staðið til að hafa þennan fund, en það tókst ekki fyrr en í gær að koma því heim og saman.

Sigurbjörg fræddi okkur um starf félagsins, sem er ekki stéttarfélag, heldur fagfélg og kynnti helstu áherslur. Það skiptir miklu máli fyrir alla aðila að á milli sé gott samband og að stéttarfélögin séu meðvituð um hvaða sérmál brenna á félagsliðum.

Félagsliðar eru í fjölmörgum stéttarfélögum víðsvegar um landið, bæði SGS félögum og félögum opinberra starfsmanna. Eðlilega er samráðið mest við SGS, enda eiga öll almennu verkalýðsfélögin á almenna markaðnum sameiginlega vettvang þar. Það skiptir þó líka máli að gott samband sé sé við einstök félög, því það geta komið upp ýmis staðbundin mál.

Helstu verkefni félagsins núna snúast um að tryggja að starfslýsingar falli að raunverulegum verkefnum. Þeim verkefnum sem félagsliðar sinna hefur fjölgað og ábyrgð þeirra á mörgum vinnustöðum hefur aukist, án þess að þess sjái stað í starfslýsingum og að tekið sé tillit til þess í launum.

Félagsliðar leggja mikla áherslu á að starfið hljóti löggildingu og að námseiningum í félagsliðanáminu sé fjölgað í um 200 einingar, úr 120.

Með Palestínumönnum gegn kúgun

By Fréttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ skrifar eftirfarandi pistil, í kjölfar heimsókn sendinefndar á vegum ASÍ til Palestínu og Ísrael í síðustu viku. Verkalýðsfélagið Hlíf átti fulltrúa í ferðinni. Pistill Drífu fer hér á eftir.

Verkamaður í Palestínu sem vinnur í Ísrael þarf að vakna um miðja nótt til að koma sér að aðskilnaðarmúrnum þar sem oft tekur þrjá klukkutíma að koma sér í gegnum öryggishliðið. Hann vinnur kannski í átta tíma og svo tekur múrinn og samskonar bið við á heimleiðinni. Með ferðatímanum er viðkomandi heppinn ef hann nær heilum nætursvefni á milli þess sem hann vinnur og kemur sér í og úr vinnu. Fá atvinnuleyfi eru gefin út og gjarnan þarf að greiða miðlurum meira en helming launa sinna fyrir slíkt leyfi. Palestínumenn vinna hættulegustu og lægst launuðu störfin í Ísrael. Palestínskar konur eru heppnar ef þær fá vinnu yfir höfuð. Palestínumenn mega bara keyra á verri götunum, þeir hafa ekki aðgang að eigin vatnsbólum, ferðafrelsi þeirra er háð Ísraelsmönnum og ef þeir tjá sig um ranglætið getur frelsið verið skert enn frekar. Þetta er staða þeirra sem búa á Vestubakkanum, staða Palestínumanna á Gaza er miklu verri enda það svæði kallað stærsta fangelsi í heimi.

Stöðu Palestínumanna má líkja við stöðu blökkumanna í Suður Afríku þegar aðskilnaðarstefnan var þar við lýði. Þeir eru hraktir til að búa á harðbýlustu svæðunum, verða fyrir endalausri hversdagslegri kúgun og litið er á þá sem ódýrt vinnuafl. Stöðugt er þrengt að landi þeirra með svokölluðum landnámsbyggðum Ísraela sem væri réttara að kalla landránsbyggðir.

Alþýðusamband Íslands skipulagði ferð til Palestínu fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa og þar hittum við palestínsk systursamtök, friðarsamtök, kvennasamtök, palestínsk stjórnvöld og fjölda annarra sem vinna að því að ljúka upp augum heimsins fyrir ástandinu og vinna að bættum hag. Allir sem við töluðum við lögðu áherslu á friðsama baráttu en áhrifaríkasta baráttuaðferðin er efnahagsleg í gegnum viðskiptabann. Það minnsta sem við getum gert er að kynna okkur ástandið og standa með félögum okkar í Palestínu, vinnandi fólki sem er eins og fólk alls staðar annars staðar í heiminum. Það vill búa við frið, öryggi, mannréttindi og virðingu. Ég hvet lesendur til að kynna sér starfsemi alþjóðlegu BDS-hreyfingarinnar: https://bdsmovement.net/

Trúnaðarmannanámskeið 2

By Fréttir

Búið er að opna fyrir skráningu á Trúnaðarmannanámskeið 2. sem haldið verður dagana 11. – 13. nóvember. Fjallað verður grunnuppbyggingu launaseðla og launaútreikninga og reiknitölur helstu launaliða. Jafnframt kynnast þátttakendur almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu. Starfsemi félagsins verður kynnt, fjallað um réttindi starfsmanna og túlkun gildandi kjarasaminga.

Skráning er hafin á vef Félagsmálaskólans.

Dagskrá Trúnaðarmannanámskeiðs 2, dagana 11. – 13. nóvember.

Sambandið vísar deilu til Ríkissáttasemjara

By Fréttir

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur vísað kjaradeilu SGS og sambandsins til Ríkissáttasemjara. Ástæðan er sögð ályktun frá þingi SGS þar sem fjallað var um stöðuna í kjaradeilunni. Þetta er í annað skiptið sem þessari sömu deilu er vísað til sáttasemjara, því SGS og Efling vísuðu deilunni þangað í lok maí, eftir árangurslausar viðræður. Í september drógu verkalýðsfélögin vísun til sáttasemjara til baka, enda gerðu sveitarfélögin það að skilyrði fyrir því að starfsfólk sveitarfélaganna fengju sambærilega eingreiðslu inn á væntanlegan kjarasamning og næstum allt annað launafólk með lausa samninga hafði fengið. Nú hafa sveitarfélögin vísað deilunni þangað sjálf – eftir að hafa ekki haft neitt til málanna að leggja frá því að vísunin var dregin til baka í október.

Starfsgreinasambandið og Efling hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

SGS og Eflingu barst núna eftir hádegið bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tilkynnt var að sveitarfélögin hefðu einhliða ákveðið að vísa yfirstandandi kjaradeilu til Ríkissáttasemjara. Ástæðan sem tilgreind er og vísað til er ályktun sem samþykkt var í tilefni af kvennafrídeginum á þingi SGS í síðustu viku. Þar var meðal annars var fjallað um stöðu ófaglærða verkakvenna og stöðunni kjaradeilunni.

Sveitarfélögin virðast telja ástæðu til að slíta viðræðum við SGS og Eflingu þegar þau segja hlutina eins og þeir eru alveg óhrædd við að berjast fyrir eðlilegum réttindum og betri kjörum fyrir sitt fólk. Kjarkurinn er nú ekki meiri en svo hjá samninganefnd sveitarfélaganna að þau treystu sér ekki til þess að koma þessu á framfæri á fundi né að hafa samband með beinum hætti við okkur sem sína viðsemjendur.

Er það raunar í samræmi við þeirra framgöngu og málatilbúnað síðan samningar runnu út í apríl, hvort sem það snýr að jöfnun lífeyrisréttinda, innágreiðslum, fyrirkomulag viðræðna eða öðrum atriðum.

það er skrýtinn veruleiki sem birtist í þessu bréfi sveitarfélaganna að telja það ekki  ,,að koma illa fram við kvennastéttir og að þeim sé sýnd takmarkalaus lítisvirðing í yfirstandandi viðræðum“ að neita að ræða kröfur þessa hóps, vísa hluta þeirra til dómstóla og sýna sjónarmiðum okkar í engu skilning.

Starfsgreinasambandið mun ekki láta hræða sig frá því að álykta á sínum þingum um það sem brennur á okkar fólki eða standa fast á okkar réttmætu og eðlilegu kröfum.

Það er aftur á móti ljóst að þessi málatilbúnaður sveitarfélaganna stuðlar með engu móti að lausn þessarar alvarlegu deilu og hvaða afleiðingar það getur haft er alfarið á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga.