Sanngjörnum kröfum starfsmanna álvera ekki mætt – pistill forseta ASÍ

By Fréttir

Það er fullt tilefni til að senda baráttu- og stuðningskveðjur inn í þær viðræður sem nú eru í gangi innan stóriðjunnar en starfsfólk bæði hjá Norðuráli og í Straumsvík hafa boðað til verkfalla. Í Norðuráli hefjast verkföll 8. desember ef ekki tekst að semja en í fyrradag samþykktu félagar í fimm af sex stéttarfélögum í Straumsvík að hefja skæruverkföll 16. október og allsherjarverkfall 1. desember. Verkföll eru neyðarúrræði starfsfólks til að þrýsta á um kjarasamninga og það er á ábyrgð stjórnenda álveranna að mæta sanngjörnum kröfum starfsfólks sem eru í takt við það sem samið hefur verið um annars staðar. Ég hvet starfsfólk til dáða og fullvissa það um stuðning ASÍ í erfiðum deilum.

Þessa dagana reynir á okkur öll í sóttvörnum en besti árangurinn hefur náðst þegar það samtakamátturinn er virkjaður og allir leggjast á eitt. Þegar daglegu lífi eru settar skorður þarf að gæta þess afar vel að ekki sé þrengt að fólki meira en nauðsyn er. Fréttir hafa borist af því að fyrirtæki hlutist til um hverja starfsfólk megi hitta í sínum frítíma og jafnvel að skikka fólk í launalausa sóttkví ef ekki er farið að reglum fyrirtækja umfram almenn tilmæli stjórnvalda. Slíkt er ólöglegt! Fyrirtæki geta ekki skert ferða- eða persónufrelsi umfram það sem stjórnvöld gera og ég hvet launafólk til að hafa strax samband við sitt stéttarfélag ef fyrirtæki sýna tilburði í þessa átt. Ástandið núna má ekki verða til þess að vega að mannréttindum eða að atvinnurekendur taki sér vald yfir einkalífi starfsfólks. 

Komumst út úr kófinu með samstilltu átaki og samtakamætti en ekki valdboðum! Þvoum, sprittum og leitum lausna. 

Góða helgi,
Drífa

Íslenskur vinnumarkaður á tímum Covid-19

By Fréttir

Í nýrri skýrslu ASÍ um íslenskan vinnumarkað er að finna umfangsmiklar greiningar og ítarlega er fjallað um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru (COVID-19) á íslenskt hagkerfi og vinnumarkað.

Í skýrslunni kemur fram að erlent launafólk er sá hópur sem orðið hefur fyrir mestum búsifjum af völdum faraldursins. Rúm 40% þeirra sem nú eru á atvinnuleysisskrá eru erlendir ríkisborgarar. Þeir voru um 20% starfandi á vinnumarkaði áður en COVID-19 reið yfir.   

Faraldurinn hefur lagst með fullum þunga á ferðaþjónustuna í landinu sem kunnugt er. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að  viðvörunarljós voru þegar tekin að blikka á íslenskum vinnumarkaði áður en útbreiðsla Covid-19 hófst. Ólíkt aðstæðum í kjölfar bankahrunsins 2008 var þó nokkurt atvinnuleysi og langtímaatvinnuleysi áður en Covid-19 gerði vart við sig.

Í skýrslunni kemur fram að sérstakt áhyggjuefni sé að einstaklingum utan vinnumarkaðar fari fjölgandi. Ungmennum sem eru hvorki starfandi né í námi hefur fjölgað ásamt því að vaxandi hlutfall hverfur brott af vinnumarkaði vegna örorku og tímabundinna veikinda.

Langímaatvinnuleysi er talið munu fara vaxandi og almennt eru dökkar horfur á íslenskum vinnumarkaði.

Það er mat ASÍ að brýnt sé að bregðast við atvinnuleysinu sem er af áður óþekktri stærð hér á landi. Í skýrslunni er lagt til að bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði lengt, grunnbætur af dagvinnutekjutryggingu verði hækkaðar og hlutabótum verði viðhaldið svo lengi sem þörf er á. Að auki sé aðkallandi að fjárfesta í þjónustu og úrræðum til að virkja atvinnuleitendur og efla færni þeirra. Þá þurfi að bregðast sérstaklega við vanda þeirra ungmenna sem  hvorki eru starfandi né í námi.  

Hér má nálgast skýrsluna.

Afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslu í álverinu í Straumsvík

By Fréttir

Stéttarfélög starfsmanna Rio Tinto á Íslandi hf. luku í dag atkvæðagreiðslu um boðun verkfalla til að knýja á um nýjan kjarasamning. Félagsmenn í fimm af sex stéttarfélögum samþykktu að boða til verkfalla með yfirgnæfandi meirihluta, þ.e. félagsmenn Félags rafeindavirkja, Félags íslenskra rafvirkja, FIT, VM og Hlífar. Félagsmenn VR felldu hins vegar boðun verkfalla á jöfnu.

Af öllum greiddum atkvæðum voru yfir 80% fylgjandi boðun verkfalla.

Félagsmenn stéttarfélaganna sem samþykktu verkfallsboðun hefja því skæruverkföll föstudaginn 16. október 2020. Ef ekki semst fara sömu starfsmenn í ótímabundið allsherjarverkfall frá og með 1. desember 2020. Kröfur starfsmanna hljóða upp á launahækkanir sambærilegar þeim sem samið var um í lífskjarasamningnum.

Skrifstofan er lokuð – en samt opin

By Fréttir, Front-left

Vegna tilmæla sóttvarnaryfirvalda höfum við lokað fyrir heimsóknir á skrifstofuna. Við sinnum samt öllum erindum í síma og í gegnum tölvupóst.

Hægt er að fylla út allar umsóknir – um styrki sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs á tölvutækum eyðublöðum og senda í tölvupósti á hlif@hlif.is – ásamt afriti af kvittunum.

Lyklar að sumarhúsum eru afhentir á skrifstofunni milli kl. 14:00 og 16:00 á föstudögum – eða eftir samkomulagi.

Síminn er 510 0800

Bein netföng starfsfólks er að finna hér:

Kjarasamningur við Sorpu undirritaður

By Fréttir

Fulltrúar Verkalýðsfélagsins Hlífar og Eflingar – stéttarfélags skrifuðu í gær undir kjarasamning við Sorpu. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023. Með samningnum hækka laun um á bilinu 100 til 113 þúsund krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun er náð fram með innleiðingu nýrrar launatöflu.

Í samningnum eru ákvæði um styttingu vinnuvikunnar bæði hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki, að hluta háð nánari útfærslu í samráði við starfsfólk líkt og í öðrum kjarasamningum við ríki og sveitarfélög.

Gerðar verða afturvirkar leiðréttingar á launum vegna hækkana 1. apríl 2019 og 1. apríl 2020 að frádreginni innágreiðslu sem greidd var meðan á kjaraviðræðum stóð.

Samningurinn verður kynntur og greidd um hann atkvæði á komandi dögum.

Sjá samninginn

Atkvæðagreiðslu er lokið

By Fréttir

Atkvæðagreiðsla vegna tillögu samninganefndar um aðgerðir til að knýja á um gerð kjarasamnings í álveri Rio Tinto í Straumsvík stendur frá kl. 12:00 föstudaginn 2. október til kl. 13:00 miðvikudaginn 7. október.

Kjósa hér

Ef þú færð skilaboð um að þú sért ekki á kjörskrá, en telur þig eiga rétt á að greiða atkvæði, sendu tölvupóst á gra@hlif.is.