Skip to main content

Í morgun funduðu formenn þeirra verkalýðsfélaga sem gera kjarasamninga fyrir starfsfólk í álverinu í Straumsvík hjá Ríkissáttasemjara. Á fundinum var viðsemjendum gerð grein fyrir því að yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks hafnaði tilboði um innágreiðslu upp á 184 þúsund og friðarskyldu til 30. júní. Jafnframt voru viðsemjendur upplýstir um að félögin hæfu nú undirbúning aðgerða, til að knýja á um undirritun fyrirliggjandi kjarasamningsdraga.

Afgerandi niðurstaða um valkosti

Í gær lauk könnun meðal þeirra félagsmanna Hlífar sem starfa í álverinu í Straumsvík um hvernig bregðast skyldi við þeirri fordæmalausu stöðu sem uppi er í kjaradeilunni við fyrirtækið. Alls tóku 72,5% Hlífarfólks í álverinu þátt í könnuninni. Um 70% þeirra völdu að hafna tilboðinu og hefja undirbúning aðgerða, um 26% vildu taka tilboðinu og um 4% vildu hafna tilboðinu og láta þar við sitja.