Skip to main content

Vinnufundur trúnaðarmanna á leikskólum í Hafnarfirði var haldinn í gær. Fundurinn var vel sóttur og mikill hiti í þátttakendum. Á fundinum var m.a. farið yfir niðurstöður könnunar sem gerð hefur verið meðal starfsfólksins og þær ræddar. Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Fundur trúnaðarmanna Hlífarstarfsfólks í leikskólum hjá Hafnarfjarðarbæ harmar viðbrögð bæjarins við málefnalegum kröfum og málaleitunum Hlífar vegna stöðunnar á leikskólunum. Félagið hefur um langt skeið bent á misræmi í kjörum starfsfólks á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar og þeirra sem starfa í nágrannasveitarfélögunum. Þar munar tugum þúsunda á mánuði. Þetta hefur þýtt, að tugir starfsmanna hafa hætt og ráðið sig í vinnu í nágrannasveitarfélögunum. Fjölmargir aðrir hugleiða að gera það.

Fundurinn lýsir miklum vonbrigðum með viðbrögð meirihluta bæjarstjórnar og ekki síður fræðsluráðs við málaleitan Hlífar. Viðbrögðin lýsa fullkominni afneitun á stöðunni og eru ekki til þess fallin að draga úr vonleysi og reiði starfsfólksins. Viðbrögðin lýsa fullkomnu virðingarleysi við lægstlaunaða starfsfólk bæjarins og mikilvægi starfa þess. Án þessa hóps væri ekki mögulegt að starfrækja leikskólana. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á stöðunni sem upp er komin á hendur bæjaryfirvöldum. Komi upp alvarleg atvik á leikskólunum vegna undirmönnunar, þá er það á ábyrgð yfirvalda og bein afleiðing aðgerðaleysis þeirra í málefnum starfsfólks.