Skip to main content

Alþýðusamband Íslands lýsir yfir vonbrigðum með nýjar tillögur stjórnvalda um efnahagsaðgerðir til að bregðast við áhrifum Covid-19 veirunnar. Tillögurnar eru ekki í takti við áherslur ASÍ um að aðgerðirnar eigi að tryggja afkomuöryggi allra og vera í þágu fólks, ekki fjármagns. Þá kallar ASÍ eftir ítarlegri útfærslu á aðgerðunum svo hægt sé að meta hvort þær nái framsettum markmiðum um varnir, vernd og viðspyrnu fyrir Ísland.

Alþýðusamband Íslands styður tillögur um stuðning við einyrkja og um atvinnuuppbyggingu í gegnum innlenda matvælaframleiðslu, nýsköpun, rannsóknir og listir og menningu. Þessar tillögur um atvinnusköpun eru hins vegar fjarri því að mæta þeim mikla vanda sem blasir við á vinnumarkaði. Tillögur sem lúta sérstaklega að námsmönnum, bæði um sumarstörf og sumarnám, eru mikilvægar til að tryggja afkomuöryggi námsmanna sem þeirra njóta. Álagsgreiðslur til framlínustarfsfólks innan heilbrigðiskerfisins koma að einhverju leyti til móts við þann hóp fólks sem hefur lagt líf sitt í hættu í baráttunni við Covid-19. Verkalýðshreyfingin á þó að koma að útfærslu slíkra aðgerða og hún á ekki að vera eingöngu á hendi stjórnenda einstaka heilbrigðistofnana. Þá telur ASÍ áherslur á félagslegar aðgerðir – sem lúta meðal annars að fötluðu fólki og fjölskyldum fatlaðra barna, börnum af erlendum uppruna og öldruðum – vera jákvæðar og þær geti orðið til þess að milda langtímaáhrif kreppunnar. Skortur á útfærslu gerir erfitt að meta umfang og áhrif aðgerðanna.

Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við þá staðreynd að með aðgerðunum er ekki leitast við að tryggja afkomuöryggi þeirra hópa sem hafa fallið á milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum stjórnvalda, s.s. einstaklinga sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, óléttar konur og foreldra sem hafa misst úr vinnu vegna takmarkaðs leikskóla- og skólastarfs. Þótt komið sé til móts við lítil fyrirtæki, sem er vel, er sá stuðningur ekki skilyrtur við að störfum sé viðhaldið. Ekki liggur fyrir útfærsla á tillögum um skattaafslætti í formi frestunar á skattgreiðslum til fyrirtækja en miðað við þær upplýsingar sem fram eru komnar eru engar kvaðir settar á fyrirtæki sem njóta slíkrar fyrirgreiðslu. ASÍ áréttar fyrri áherslur sínar um að stuðningur við fyrirtæki skuli skilyrtur því að störfum sé viðhaldið og grundvallarréttindi launafólks séu virt. Fyrirtæki eiga að sýna fram á að þau hafi nýtt eigin bjargir áður en þau sækja í sameiginlega sjóði og fyrirtæki sem svindla á úrræðum stjórnvalda eiga að sæta viðurlögum.

Enn á ný beina stjórnvöld stuðningi sínum ekki að fólki heldur að fyrirtækjum sem eftir óljósum leikreglum geta sótt sér fjármuni í vasa almennings, óháð því hvort þau viðhalda störfum, fara eftir kjarasamningum eða standa skil á framlagi sínu til samfélagsins. Það er lykilatriði við endurreisn efnahagslífsins að tekjur fólks séu tryggðar, atvinnuleysisbætur og önnur framfærsla sé þannig að fólk geti lifað sómasamlegu lífi og stutt við þjónustu og framleiðslu með kaupmætti sínum. ASÍ varar við því að veikja neytendavernd með því að neytendur fái inneign fyrir ferðir hjá ferðaskrifstofum, fremur en endurgreiðslu. Slíkar inneignir eru fugl í skógi, ekki í hendi.

Loks harmar ASÍ, enn á ný, samráðsleysi stjórnvalda við mótun aðgerða til að bregðast við Covid-kreppunni.