Skip to main content

Ályktun frá Verkalýðsfélaginu Hlíf

By 8.10.2014April 12th, 2019Fréttir, Uncategorized

 

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar  mótmælir harðlega þeim niðurskurðar hugmyndum sem eru aðför að launafólki og stjórnvöld eru að leggja til og birtist í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Þar má helst telja:

Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12%. 

Aðför að atvinnulausu fólki sem boðuð er með styttingu bótatímabilsins er fordæmalaus og mun koma sérstaklega illa við þá sem veikast standa á vinnumarkaði og auka enn á fátækt í landinu. 

Með því að fella niður lögboðið og umsamið framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs er vegið með alvarlegum hætti að hagsmunum fólks sem veikist og slasast og þarf á starfsendurhæfingu að halda. 

Skerðingar á framlögum til jöfnunar örorkubyrða almennra lífeyrissjóða veldur því að skerða þarf lífeyrisgreiðslur til félagsmanna ASÍ og er félagsmönnum þeirra sjóða þannig enn á ný mismunað gagnvart þeim sjóðum sem njóta ríkisábyrgðar. Kostnaður vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu eykst verði frumvarpið að lögum og þannig er sérstaklega vegið að hagsmunum sjúklinga og allra þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Ekki er gert ráð fyrir neinum auknum framlögum til að mæta kröfum um úrbætur í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu eða vegna félagslegra íbúða. Þrátt fyrir fyrirheit ráðamanna um að efla starfs-, verk- og tæknimenntun er dregið hlutfallslega úr framlögum til verkmenntaskóla og vinnustaðanámssjóður þurrkaður út. Möguleikar fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum eru skertir verulega. Þá er framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun skert umtalsvert. Verkalýðsfélagið Hlíf munu berjast hart gegn öllum þeim áformum sem birtast í frumvarpinu og verða til þess að rýra enn afkomu almenns launafólks og sérstaklega þeirra tekjulægstu.