Flokkur

Fréttir

Hörð gagnrýni ASÍ á „afkomubætandi aðgerðir“ í fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar

By Fréttir

Áhersla stjórnvalda á að draga úr skuldum ríkissjóðs getur hægt á efnahagsbata hér á landi og viðhaldið háu atvinnuleysi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í öllum alþjóðlegum samanburði og meginmarkmið stjórnvalda hlýtur að vera að ýta undir fulla atvinnu.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026. Í umsögninni er vikið að áætlunum um sjálfbærni opinberra fjármála og gagnrýnt að ekki liggi fyrir hvernig stjórnvöld hyggist ná því markmiði. Miðað við núverandi horfur sé raunveruleg hætta á að efnahagsbati verði hægari en gert er ráð fyrir í áætluninni.  Samkvæmt áætluninni aukist þá líkur á að „afkomubætandi aðgerðir“ sem svo eru nefndar leggist af auknum þunga á almenning og atvinnulíf.

Alþýðusambandið telur að huga beri að styrkingu tekjustofna á komandi árum þannig að eðlilegur viðsnúningur geti náðst í ríkisrekstrinum án þess að ráðist verði í niðurskurð á grunninnviðum samfélagsins. Í því samhengi gagnrýnir ASÍ þær skattabreytingar sem stjórnvöld hafi talið forgangsmál í djúpri efnahagskreppu. Þar megi nefna lækkun bankaskatts og breytingu á fjármagnstekjuskatti sem vinni gegn markmiðum um jöfnuð.

Í umfjöllun um aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við miklu atvinnuleysi telur ASÍ að finna megi „jákvæð skref“ en lögð er áhersla á að bregðast þurfi við atvinnuleysisvandanum sem skemmri tíma áskorun í formi beinna áhrifa af COVID-faraldrinum og lengri tíma áskorun sem birtist í auknu kerfislægu atvinnuleysi. Enn skorti sértækar aðgerðir til að mæta atvinnuleitendum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í COVID-kreppunni og  atvinnuleysistryggingakerfið þurfi að vera fært um að tryggja viðunandi afkomu á meðan efnahagslífið nær sér á strik.

Skýlaus krafa að sveitarfélög veiti launað leyfi

By Fréttir

„Það er ljóst í mínum huga að lög um greiðslur í sóttkví verður að útvíkka þannig að hægt sé að grípa fólk sem situr uppi tekjulaust vegna nýjustu sóttvarnaraðgerðanna“, segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í föstudagspistli sem fer hér á eftir.

 Mörgum féll allur ketill í eld þegar kynntar voru hertar sóttvarnaraðgerðir í vikunni. Grunnskólar loka fyrr en áætlað var vegna páska og foreldrar þurfa í stærri stíl að vera heima að gæta barna. Það var einkennandi á blaðamannafundinum þegar ráðstafanirnar voru kynntar að fjármálaráðherra fjallaði um stuðning við fyrirtækin en splæsti varla setningu á stöðu heimilanna.

Við fáum hins vegar fregnir af því að fólk er sent heim launalaust eða látið taka út frí sem ýmsir hafa nú þegar þurft að ganga hressilega á. Jafnvel heyrist að einhver sveitarfélög skerði laun fólks sem getur ekki annað en verið heima vegna barna. Þá hafa einnig borist fréttir af því að fólk er fært á milli starfa innan sveitarfélaga eða stofnana án samráðs eða samtals. Slíkt er einungis heimilt í almannavarnaskyni en ekki sem almenn aðgerð!

Það er ljóst í mínum huga að lög um greiðslur í sóttkví verður að útvíkka þannig að hægt sé að grípa fólk sem situr uppi tekjulaust vegna nýjustu sóttvarnaraðgerðanna. Fjölmörg heimili hafa þegar gengið í gegnum miklar tekjuskerðingar undanfarið ár og fjöldi barnafólks var í þeirri stöðu síðastliðið sumar að hafa notað alla sína orlofsdaga til að vera heima með börnum sínum vegna skerts skóla- og leikskólahalds. Afkomu fólks verður að tryggja og ef það þarf að fara heim til að gæta barna vegna sóttvarnaraðgerða þá þarf að brúa það bil, með nákvæmlega sama hætti og komið er til móts við fyrirtæki. Við gerum þá skýlausu kröfu að sveitarfélög og opinberar stofnanir veiti fólki launað leyfi til að sinna börnum sínum. Aðrir atvinnurekendur eiga að gera slíkt hið sama og þar sem þess er þörf eiga stjórnvöld að styðja við fólk og fyrirtæki til að tryggja að svo sé. Að góðu fréttum vikunnar þá tókst að afstýra því að starfsfólki hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum yrði sagt upp og jafnvel lækkað í launum við yfirfærslu frá sveitarfélögunum til ríkisins. Sú óvissa sem starfsfólkið hefur þurft að búa við undanfarnar vikur er óviðunandi, sérstaklega á krepputímum. Verkalýðshreyfingin hefur þurft að fara mikinn til að benda á þá sjálfsögðu lausn sem nú hefur orðið ofan á. Ríki og sveitarfélög eiga að geta haft samskiptin sín í milli í betra horfi en þetta. 

Hefjum störf – Hlíf hvetur til þátttöku

By Fréttir

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í gær, vegna átaksins Hefjum störf.

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar hvetur fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til að nýta sér „Hefjum störf“ úrræði stjórnvalda til að ráða fólk til starfa. Það er mikilvægt fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu að ná viðspyrnu sem fyrst og til að vinda ofan af neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins. Stjórnin hvetur Hafnarfjarðarbæ sérstaklega til að nýta tækifærið til að bregðast við augljósri undirmönnun á leikskólum bæjarins vegna aukins álags á starfsfólk undanfarin misseri.

Leikskólastarfsfólki verði umbunað vegna stóraukins álags

By Fréttir

Stjórn Hlífar ræddi ástandið á leikskólum bæjarins á fundi sínum í dag. Álag á starfsfólk hefur stóraukist, án þess að fjölgað hafi verið í starfsliði eða starfsfólki verið umbunað á móti. Stjórnin samþykki eftirfarandi ályktun:

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar krefst þess að Hafnarfjarðarbær taki tillit til stóraukins álags á ófaglært starfsfólk leikskólanna í bænum á undanförnum misserum, með sérstakri álagsgreiðslu eins og gert hefur verið í nágrannasveitarfélögunum. Jafnframt bendir stjórnin á að sú staða sem nú er uppi í samfélaginu vegna nýjustu sóttvarnaráðstafana auki enn álagið á starfsfólk leikskólanna. Það sé því lágmarkskrafa að þeim hópi verði umbunað sérstaklega með myndarlegum hætti.

Miðstjórn ASÍ varar við áformum um opnari landamæri

By Fréttir

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar við áformum um opnari landamæri meðan bólusetningar hafa ekki náð þeim markmiðum sem að er stefnt. Ávinningurinn af þeim áformum er óljós. Horfa ber til þess að smit eru enn afar útbreidd í fjölmörgum löndum heims og þar á meðal eru nýrri afbrigði af veirunni sem enn er takmörkuð þekking á. Það er til mikils að vinna fyrir samfélagið á Íslandi að fólk sé frjálst ferða sinna innanlands í sumar og geti notið sumarleyfa og samvista án hertra aðgerða. Hætt er við að ferðaþjónustan og tengdar greinar geti borið meiri skaða af en ella ef opnunin verður til þess að grípa þurfi til harðari sóttvarnaraðgerða innalands.

ASÍ 105 ára í dag – pistill Drífu Snædal, forseta ASÍ

By Fréttir

Í dag eru 105 ár síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað og vil ég nota tækifærið og óska launafólki til hamingju með samstöðuna og árangurinn í rúma öld. Lífsgæðin eru allt önnur en þau voru en verkefnin eru enn þau sömu; að tryggja fólki mannsæmandi laun, gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum, lífsgæði í formi hvíldar og frítíma og tryggingar ef eitthvað út af ber. Árangur samstöðu verkafólks sést best á því að í þeim löndum þar sem sterk verkalýðshreyfing hefur verið við lýði er minni ójöfnuður og betri almenn lífsgæði. Það á sannanlega við um Ísland í samfélagi þjóðanna. 

Markmiðið er að launafólk njóti þeirra gæða sem búin eru til og að samfélagið rúmi okkur öll. Þar er langt í land og þótt síðustu 105 ár hafa fleytt okkur áfram þá hafa bakslögin líka verið mörg og alvarleg. Í vikunni fengum við tvær afgerandi áminningar um það. Á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegu hámarki er atvinnuöryggi a.m.k. 140 starfsmanna hjúkrunarheimila í Fjarðarbyggð og Vestmannaeyjum stefnt í voða með yfirvofandi uppsögnum og hugsanlegum endurráðningum á lakari kjörum. Sveitarfélögin benda á ríkið og ríkið bendir beint til baka á sveitarfélögin. Tveir vasar á sömu buxum rífast á meðan launafólk veit ekki hvort það mun eiga í sig og á. 

Hin áminningin barst frá Orkuveitunni þar sem laun forstjórans voru hækkuð tvö ár afturvirkt, langt úr takti við aðra launaþróun, margfalt á við hækkanir láglaunafólks og reyndar líka langt umfram laun stjórnenda á sama tímabili. Einnig var týnd til stytting vinnuvikunnar bæði á almenna og opinbera markaðnum til að hækka laun forstjórans! Aðaleigandi Orkuveitunnar er Reykjavíkurborg. Fyrir ári síðan var ekki hægt að hækka laun fólksins sem heldur grunnstarfsemi borgarinnar gangandi án þess að efna til harkalegra kjaradeilna. 

Á afmæli ASÍ er gott að líta um öxl og fagna því sem hefur áunnist. En á sama tíma brýnum við okkur í baráttunni. Því við erum rétt að byrja.