Flokkur

Fréttir

Straumsvík

Félagsfundir með starfsfólki í álverinu

By Fréttir, Front-right

Boðað er til tveggja félagsfunda með félagsmönnum Hlífar sem starfa í álverinu í Straumsvík. Fyrri fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 24. september og sá síðari föstudaginn 25. september.

Á fundunum verður farið yfir stöðuna í samningamálum.

Fundirnir verða haldnir í Hraunseli, Flatahrauni 3 og hefjast báðir klukkan 16:30.

Hægt verður að fylgjast með fundunum á ZOOM. Slóðin verður send út í tölvupósti til félagsmanna á fimmtudaginn. Félagar eru hvattir til að senda netfangið sitt til gra@hlif.is

Það á við hvort sem ætlunin er að mæta á fundina eða fylgjast með á Zoom, því það er viðbúið að við þurfum að koma skilaboðum til félagsmanna á næstunni. Það er því mikilvægt til að tryggja nauðsynlegt flæði upplýsinga að félagið eigi sem flest skráð netföng.

Klassíska hagfræðin og veruleikinn

By Fréttir

Samkvæmt klassískum hagfræðikenningum þá yrðu ríki Norðurlanda mun auðugri ef við lækkuðum skatta, fækkuðum opinberum störfum, fækkuðum félagslegum úrræðum og lækkuðum bótagreiðslur. Þetta stangast aftur á móti á við veruleikann, eins og dregið er fram í grein sem hagfræðingar Alþýðusambanda Norðurlandanna skrifuðu sameiginlega nýverið. Greinin fer hér á eftir.

Norrænir hagfræðingar skrifa – Styrkjum hina norrænu þversögn

Eftir Henný Hinz, Kaukoranta Ilkka, Ola Pettersson, Roger Bjørnstad og Allan Lyngsø Madsen, aðalhagfræðinga hjá ASÍ Ísland, FFC Finnland, LO Svíþjóð, LO Noregi og FH Danmörku

Norðurlöndin eru velmegandi ríki. Ríki Norðurlanda eru einnig á meðal þeirra landa í heiminum þar sem tekjumunur er einna minnstur. Þannig var það bæði árið 2000 og árið 2010. Og þrátt fyrir Covid-19 farsóttina þá er það einnig svo árið 2020. Í stuttu máli sagt þá hefur það verið raunin árum saman.

Engu að síður heyrum oft frjálslyndar raddir sem halda því fram að tiltölulega mikil skattbyrði á Norðurlöndunum sé eins og þungur baggi sem haldi hagkerfinu niðri og telja að grípa þurfi til breytinga á skattkerfinu til þess að koma landinu út úr kreppunni. Ef aðeins persónuafsláttur og fjármagnsskattar væru lækkaðir – ef aðeins væru færri opinberir starfsmenn – ef aðeins hið opinbera væri umfangsminna – ef aðeins félagslegar bætur og greiðslur yrðu lækkaðar – já, hvað myndi þá eiginlega gerast?

Samkvæmt klassískum hagfræðikenningum þá yrðu ríki Norðurlanda mun auðugri ef við fylgdum hinum frjálslyndu tillögum og hugmyndum. Þess vegna eru Norðurlöndin raunveruleg þversögn ef maður skoðar þau með þessum frjálslyndu gleraugum. Hvernig geta Norðurlönd sýknt og heilagt verið heimshluti þar sem fólk hefur háar tekjur, atvinnuþátttaka er mikil, opinberi geirinn er stór, tekjuöryggi er gott og fyrirtæki standa sig almennt vel á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta ætti ekki að vera hægt.

Þetta er engu að síður staðreynd og það má fyrst og fremst rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi þá byggja klassískar hagfræðikenningar á þeirri forsendu að markaðnum sé best borgið án afskipta hins opinbera. Með öðrum orðum, afskipti stjórnvalda eru upphaf og endir alls ills.

Í öðru lagi þá er eina framlag hins opinbera að endurdreifa fjármunum, því er litið á það sem óvirkan þátttakanda sem eingöngu stuðlar að því að skekkja efnahagslífið með skattheimtu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fólk vilji ekki vinna, heldur vilji fremur lifa á félagslegum bótum.

Við sjáum hins vegar að daglegt líf er talsvert flóknara en hinar einföldu forsendur gera ráð fyrir. Tilveran er ekki bara svört eða hvít. Hin klassíska röksemdafærsla hagfræðinnar stenst því ekki í veruleikanum. Ímyndið ykkur bara hversu mikilvægt aðgengi að menntun, dagvistun, heilsugæslu, öldrunarþjónustu o.s.frv. er til aukins hagvaxtar og þátttöku í afkastamiklu atvinnulífi.

Covid-19 farsóttin hefur, með sama hætti, sýnt fram á að skattgreiðslur og tekjutrygging í gegnum hið félagslega kerfi eiga mikinn þátt í að standa vörð um áframhaldandi starfsemi fyrirtækja á almennum markaði á fordæmalausum tímum sem líkjast í engu okkar hefðbundnu tilveru. Hið opinbera hefur gert það mögulegt að mæta þessum utanaðkomandi þáttum með sameiginlegum lausnum sem hafa gagnast samfélaginu í heild og þar með átt ríkan þátt í að viðhalda eftirspurn í hagkerfinu.

Þá staðreynd að við höfum á síðustu áratugum verið á meðal auðugustu og jöfnustu samfélaga veraldar, má að miklu leyti þakka uppbyggingu norrænu velferðarsamfélaganna. Sterkum og vel skipulögðum vinnumarkaði. Opinberu kerfi, sem byggir á velferð til handa öllum. Og þjóðhagsstefnu sem miðar að því að tryggja fulla atvinnu. Með öðrum orðum, samfélagsskipulag sem byggir á samstöðu. Við skulum styrkja þann grunn svo hann megi verða okkar leið út úr kreppunni.

Miðstjórn ASÍ hafnar hugmyndum um launaskerðingar

By Fréttir

Eftirfarandi var samþykkt í miðstjórn í dag um hugmyndir um launaskerðingu og frestun launahækkana.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar með öllu hugmyndum um frestun launahækkana og skerðingu launa sem settar hafa verið fram af fulltrúum atvinnurekenda og stjórnvalda undanfarið. Miðstjórn ASÍ áréttar einnig mikilvægi þess að stjórnvöld etji ekki aðilum vinnumarkaðar saman nú þegar endurskoðun kjarasamninga stendur fyrir dyrum.

Kjaraskerðing ógnar ekki aðeins afkomuöryggi launafólks á krepputímum heldur hefur hún einnig skaðleg áhrif til frambúðar og mun bæði dýpka og lengja kreppuna. Bætt kjör launafólks skila sér bæði í aukinni neyslu, sem er afar áríðandi í samdrætti, og auknu skattfé, enda er launafólk helstu skattgreiðendur landsins. Samtök atvinnulífsins virðast hvorki hafa skilning á þörfum atvinnulífsins né almennings og kjósa heldur að fylgja hugmyndafræðilegri línu sem getur, ef henni er fylgt, haft í för með sér langvinnan skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag.

Miðstjórn ASÍ mun berjast af fullum þunga fyrir kjörum launafólks og fyrir almannahagsmunum í þeirri kreppu sem nú stendur yfir.

Yfirlýsing forseta ASÍ vegna auglýsinga frá „nýju stéttarfélagi“ – Kópi

By Fréttir

Kópur er ekki hluti af Alþýðusambandi Íslands, er ekki aðili að neinum kjarasamningnum, VIRK, Bjargi, orlofssjóðum, fræðslusjóðum eða sjúkrasjóðum

Nýtt stéttarfélag, Kópur, hefur verið auglýst og er auglýsingum einkum beint að Pólverjum sem starfa á Íslandi. Í kynningu á félaginu er látið í veðri vaka að það hafi aðgang að öllum þeim gæðum og þjónustu við félagsmenn sem íslensk verkalýðshreyfing hefur byggt upp um áratuga skeið og jafnvel að félagið sé tengt Alþýðusambandi Íslands. Þetta er rangt.

Það eru engin tengsl milli ASÍ og Kóps og okkur vitanlega hefur Kópur ekki gert neina kjarasamninga. Kópur er ekki með fræðslusjóð til að greiða menntun, er ekki með sjúkrasjóð fyrir þá sem verða veikir í lengri tíma, á ekki aðild að Bjargi íbúðafélagi sem býður lægri leigu og húsnæðisöryggi, er ekki aðili að VIRK starfsendurhæfingu og á ekki orlofshús. Mögulegir félagsmenn í Kópi myndu ekki njóta neinna ef þessum réttindum né hafa aðgang að lögfræðilegri og annarri faglegri aðstoð sem launafólki býðst almennt hjá sínum stéttarfélögum.

ASÍ hvetur til að þessum upplýsingum sé dreift sem víðast og komið í veg fyrir að launafólk afsali sér óafvitandi réttindum sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp um áratuga skeið.

Miðstjórn ASÍ ályktar um breytingar á atvinnleysistryggingum og framlengingu hlutabótaleiðar

By Fréttir

Miðstjórn ASÍ ályktaði á fundi sínum um gær um nauðsyn breytinga á atvinnuleysistryggingum og framlengingu hlutabótaleiðarinnar. Ályktunin fer hér á eftir.

Við þær aðstæður sem nú eru á vinnumarkaði er brýnna sem aldrei fyrr að gera umbætur á atvinnuleysistryggingum. Forða þarf fólki sem misst hefur vinnu frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi með því að tryggja afkomuöryggi þess og aðstoða við að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það er gert með því að veita atvinnulausum þjónustu og tækifæri til að styrkja sig og efla hæfni sína og þekkingu og bjóða menntun og þjálfun til nýrra starfa.

Atvinnuþátttaka er mjög há á Íslandi og atvinnuleysi alla jafna lágt. Engu að síður eru atvinnuleysistryggingar hér hærri en víða annars staðar. Þetta afsannar þá lífsseigu kenningu að atvinnuleysistryggingar séu letjandi til atvinnuleitar. Hvergi í heiminum hefur sú aðferð að svelta fólk út af bótum skilað árangri.

Skortur á afkomuöryggi getur haft miklar langtímaafleiðingar fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem er jafnframt mjög dýrkeypt samfélagslega. Tekjufall einstaklinga hefur dómínó-áhrif á hagkerfið í heild sinni og getur leitt til þess að kreppan vegna COVID-19 verður dýpri og langvinnari en ella.

ASÍ leggur til:

1. Hækkun grunnatvinnuleysisbóta

Hækkun grunnbóta í 95% af dagvinnutekjutryggingu. Bótafjárhæð hækki úr kr. 289.510 í kr. í 318.250, þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð.

2. Tekjutengdar atvinuleysisbætur greiðist í sex mánuði

Tekjutengdar bætur verði greiddar frá fyrsta degi atvinnuleysis og í allt að sex mánuði og að hámark tekjutengingar verði hækkað í kr. 650.000.

3. Þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta lág- og millitekjufólks verði hækkað

Fyrri tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu, sem nemur nú kr. 335.000 skerði ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

4. Lenging bótaréttar atvinnuleysistrygginga í 3 ár

Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði lengt úr 30 mánuðum í 36 mánuði.

5. Fjármagn til vinnumarkaðsaðgerða tryggt í fjármálaáætlun

Fullnægjandi fjármagn verði tryggt í fjármálaáætlun til næstu ára til að halda úti vinnumarkaðsaðgerðum með þjónustu, stuðningi og námstækifærum fyrir atvinnuleitendur.

6. Lög um atvinnuleysistryggingar endurspegli betur möguleika til þátttöku í virkniúrræðum

Endurskoða þarf lögin um atvinnuleysistryggingar til að mæta betur möguleikum atvinnuleitenda til að nýta náms- og önnur virkniúrræði sem eru í boði.

7. Framlenging hlutabótaleiðarinnar  

Núgildandi hlutabótaleið verði framlengd til 1. júní 2021.

Sjá nánar á meðfylgjandi minnisblaði

Merkileg sýning um samvinnuhús í Hafnarfirði

By Fréttir

Nú stendur yfir ljósmyndasýningin 30 samvinnuhús í Hafnarfirði, á planinu þar sem Kaupfélag Hafnfirðinga var á sínum tíma – milli Fjarðar og Pennans. Myndirnar eru einkum af þeim húsum sem í hefur verið samvinnustarfsemi, en segir um leið sögu samvinnustarfsemi í bænum.

Verkalýðsfélagið Hlíf var mikilvægur gerandi í þessari starfsemi og kemur því mjög við sögu á sýningunni og styrkti uppsetningu hennar. Sýningin verður opin út september og aðgangur er ókeypis. Félagar og aðrir eru hvattir til að skoða sýningu og lesa söguna af textaspjöldunum sem fylgja myndunum.