Flokkur

Fréttir

Áríðandi vegna félagsmannasjóðs

By Fréttir, Front-left

Allir félagsmenn í Vlf. Hlíf (ásamt öðrum félögum SGS) – sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélagi á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. desember 2020 eiga að fá greitt úr félagsmannasjóði 1. febrúar nk. Þetta gildir líka um þá sem vinna hjá Hjallastefnunni og sjálfstæðum skólum og starfa eftir kjarasamningi Hlífar við sveitarfélögin.

Til að hægt sé að tryggja að greiðsla úr sjóðnum berist vinsamlegast fyllið út þetta rafræna eyðublað

Í núgildandi kjarasamningi við sveitarfélögin  var samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er greitt úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. 

Vinsamlega hringdu á skrifstofu Hlífar ef þú þarft frekari upplýsingar.

ASÍ-UNG styðja atvinnulýðræði

By Fréttir

ASÍ-UNG leggja áherslu á að aukið lýðræði í atvinnulífinu sé nauðsynlegt til að tryggja vinnandi fólki mannsæmandi lífskjör. Hluti af því sé að tryggja fulltrúum starfsmanna sæti í stjórnum fyrirtækja. Þetta tíðkast á hinum Norðurlöndunum og í allmörgum Evrópuríkjum. Stjórn ASÍ-UNG hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna þessa.

Það er tvennt sem þarf til að stofna og reka fyrirtæki, fjármagn og vinnuafl. Nær allur rekstur þarf fjármagn til að komast á laggirnar og allur rekstur þarf vinnuafl til þess að skapa verðmæti. Bæði fjármagn og vinnuafl eru því nauðsynleg en nú fær aðeins fjármagnið viðurkenningu á sínu framlagi í formi stjórnarsetu fyrirtækja.

Því valdi, sem í stjórnarsetu felst, er svo beitt fjármagnseigendum í hag. Þegar ný tækni sem eykur framleiðni er innleidd er hagvöxturinn notaður til að auka arð fjármagnseigenda, í stað þess að stytta vinnuvikuna eða bæta kjör þeirra sem vinna vinnuna. Þegar illa gengur er starfsfólkinu fórnað og atvinnurekandi ákveður hverjir skulu missa vinnuna til að tryggja fjármagnseigendum arð af rekstrinum. Þegar kemur að hagræðingu í rekstri, eru stjórnendur verðlaunaðir fyrir að halda launum í lágmarki. Þannig auka þeir hagnað fyrirtækisins og arð hluthafa.

Þetta fyrirkomulag hefur ekki aðeins áhrif á vinnumarkaðinn, heldur samfélagið í heild. Fyrirtæki, undir einræði fjármagnsins, mynda hagsmunasamtök og geta þannig eytt sínum fjármunum í fólk sem vinnur við að þrýsta sjónarmiðum fjármagnseigenda á kjörna fulltrúa samfélagsins á Alþingi. Þetta er afl sem vinnandi fólk hefur ekki möguleika á að jafna og grefur því undan lýðræðislegum jöfnuði.

Það er álit ASÍ-UNG að atvinnulýðræði sé nauðsynlegt til að halda uppi heilbrigðu samfélagi og að tryggja vinnandi fólki mannsæmandi lífskjör. Það er kominn tími til að vinnuaflið fá sömu viðurkenningu á sínu framlagi með stjórnarsetu innan fyrirtækja: Að starfsfólk geti kosið sér fulltrúa í stjórn innan þess fyrirtækis sem það starfar. Þetta er ekki róttæk skoðun. Heldur eru þetta réttindi vinnandi fólks víða um heim, þar með talið meiri hluta ESB-ríkja og öllum norðurlöndunum (nema Íslandi).

Lof og last og jól – föstudagspistill forseta ASÍ

By Fréttir

Á þessum síðustu dögum Alþingis eru teknar ákvarðanir sem geta haft veruleg áhrif á daglegt líf launafólks og alls almennings. Ég vil byrja á því að fagna lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði sem virðist vera í hendi. Reglan verður þá jöfn skipting á milli foreldra með möguleika á framsali nokkurra vikna. Lenging orlofsins skiptir verulegu máli og verður vonandi til að auka samvistir barna við báða foreldra og ekki síður auka á jafnrétti innan sem utan heimila. Þá skiptir líka máli að tekjutenging atvinnuleysisbóta hafi verið lengd í 6 mánuði og fangar nú stærri hóp en áður. Hækkun grunnbóta er einnig áfangasigur. En betur má ef duga skal. Við búum við kerfi sem á að grípa fólk og í þessum makalausu aðstæðum er eins gott að þétta öryggisnetið þannig að það þjóni sínum tilgangi. Nú berast okkur örvæntingafull skilaboð frá fólki sem hefur klárað rétt sinn í bótakerfinu og er afar þröngur stakkur sniðinn, getur ekki gefið börnunum í skóinn og kvíðir jólunum. Algert forgangsatriði er að lengja rétt til atvinnuleysisbóta þangað til landið fer að rísa því á mörgum sviðum og svæðum er einfaldlega enga vinnu að fá. 

Það eru mikil vonbrigði að mörg mál sem hafa legið lengi á borði stjórnvalda og myndu bæta hag almennings hafa ekki klárast á þessu ári þrátt fyrir mikinn þrýsting. Ný starfskjaralög (þar með talið févíti fyrir launaþjófnað) eru þar efst á blaði en einnig má nefna ný húsaleigulög, skref til að afnema verðtryggingu, aðgerðaáætlun gegn mansali og lagabreytingar í lífeyrismálum svo eitthvað sé nefnt. 

Næg verkefni bíða næsta árs en verkalýðshreyfingin mun leggja allan sinn kraft í að auka afkomuöryggi fólks og missa ekki sjónar af því markmiði að við komumst út úr kófinu með jafnara og sanngjarnara samfélag. Ekkert smá verkefni en með samstilltu átaki öflugrar hreyfingar munum við ná árangri.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og baráttuglaðs nýs árs!

Drífa

Níutíu og fimm ár frá stofnun Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar

By Fréttir, Sögubrot

Þann 3. desember 2020 voru liðin 95 ár frá því að Verkakvennafélagið Framtíðin var stofnað, en stofnfundurinn var haldinn þann dag árið 1925. Fram að því voru hafnfirskar verkakonur í Verkamannafélaginu Hlíf. Félagið starfaði allt til ársins 1999, þegar það sameinaðist Hlíf að nýju og úr varð Verkalýðsfélagið Hlíf.

Skömmu eftir að Verkamannafélagið Hlíf var stofnað snemma árs 1907, fóru konurnar í félaginu í verkfall. Það var fyrsta vinnustöðvun íslenskra verkakvenna sem sögur fara af. Tilefnið var að atvinnurekendur voru ekki tilbúnir að fallast á auglýsta kauptaxta Hlífar fyrir konur. Um þetta leyti voru konurnar í Hlíf um 70-80, sem var nálægt þriðjungur félagsmanna.

Aftur í verkfall

Konurnar endurtóku leikinn næst þegar kauptaxti var gefinn út, fimm árum síðar. Þá neituðu atvinnurekendur að fallast á að hækka laun kvenna úr 15 í 18 aura á tímann og jafnframt að greiða sérstakt nætur- og helgidagakaup. Þeir héldu því fram, að ekki væri hægt að ráða gamlar konur og ungar stúlkur upp á þau býti. Verkfall hófst 1. mars 1912 og stóð allt til 11. apríl, en þá létu atvinnurekendur undan og konurnar náðu flestum sínum kröfum fram. Oft er fjallað um þetta sem fyrsta verkfall íslenskra kvenna, en það er ekki alls kostar rétt, í ljósi þess að konur í Hlíf lögðu áður niður vinnu fimm árum áður eins og áður kemur fram.

Fjórar konur áttu sæti í stjórn Hlífar frá 1913 (ekki er vitað um árin á undan): Sesselja Magnúsdóttir 1913-1914, Lára Jörundardóttir 1920-1921, Jóhanna Eiríksdóttir 1920-1921 og Helga Þórðardóttir 1921-1922. Um tíma var rætt um að deildaskipta félaginu og að konur mynduðu þá sérstaka deild, en af því varð ekki. Þar kom aftur á móti, að konur töldu hagsmunum sínum betur fyrir komið ef þær væru í sérstöku félagi. Þetta var gert í góðu samkomulagi við stjórn Hlífar.

Kröfðust launajafnréttis

Stofnfundur Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar var haldinn 3. desember 1925 í húsi Hjálpræðishersins við Austurgötu 24 (nú Austurgata 26) í Hafnarfirði. Við félagsstofnunina nutu konurnar liðsinnis kvenna úr Framsókn í Reykjavík. Á fundinum munu hafa verið ríflega 70 konur, en 83 eru skráðar stofnfélagar. Fyrsti formaður félagsins var kjörin Sigrún Baldvinsdóttir, en hún var systir Jóns Baldvinssonar, forseta ASÍ. Aðrar konur í fyrstu stjórn voru Guðlaug Narfadóttir Bachmann, Guðfinna Ólafsdóttir, Jónína Sigurðardóttir og Sigurrós Sveinsdóttir, sem var varaformaður.

Í fyrstu lögum félagsins, sem voru samþykkt á fyrsta félagsfundi nokkrum dögum síðar, kom fram að tilgangurinn væri að styðja og efla hag félagskvenna og menningu eins og kostur væri á. Meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því að verkalýðurinn tæki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og bæjarfélags.

Félagið setti strax fram þá kröfu að konur fengju sama kaup og karlar fyrir sömu vinnu. Fyrsta áfanganum að launajafnrétti var þó ekki náð fyrr en árið 1954. Í kjarasamningi sem þá var gerður, kom fram að greiða skyldi karlmannskaup fyrir fiskþvott, fyrir að kasta fiski upp á bíla og hengja fisk á trönur og ári síðar kom inn ákvæði um karlmannskaup við vinnu við alla blautskreið.

Dagheimilið á Hörðuvöllum

Framtíðin lét til sín taka á mörgum sviðum í bæjarlífinu, til viðbótar við baráttuna fyrir bættum kjörum. Þar má nefna reglulegar skemmtanir, bæjarpólitíkina og fleira. Eitt merkilegasta framlag félagsins hlýtur þó að teljast stofnun og rekstur dagheimilisins á Hörðuvöllum. Málinu var fyrst hreyft á félagsfundi árið 1932 og síðan aftur ári síðar en þá samþykkti félagsfundur að fela stjórninni að stofna dagheimili fyrir börn. Heimilið tók til starfa þá um vorið. Það var fyrst til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu og starfaði fyrsta sumarið frá 19. maí til 15. ágúst. Lengst af voru börnin 12, en flest 15. Þau komu á morgnana, á bilinu frá hálfátta til níu og fóru heim um sexleytið. Félagið fékk síðan lóð á Hörðuvöllum og var smíði dagheimilis hafin í mars 1935 og starfsemi hófst í nýja húsinu 2. maí 1935.

Dagheimilið starfaði með líku sniði til haustsins 1939, en starfsemin lá niðri á stríðsárunum. Það var síðan opnað að nýju vorið 1945 og var þá opið í þrjá mánuði. Haustið 1948 hófst síðan heilsársstarfsemi á Hörðuvöllum. Vorið 1956 var hafist handa við stækkun dagheimilisins. Viðbyggingin var tekin í notkun 18. júlí 1957. Á engan er hallað, þótt því sé haldið fram að Sigríður Erlendsdóttir hafi verið helsti hvatamaður að stofnun heimilisins.

Undir lok 20. aldar varð allmikil bylgja sameininga verkalýðsfélaga um land allt, sem meðal annars leiddi til viðræðna um slíkt í Hafnarfirði. Viðræðurnar urðu til þess að Verkamannafélagið Hlíf og Verkakvennafélagið Framtíðin sameinuðust í Verkalýðsfélaginu Hlíf. Síðasti aðalfundur Framtíðarinnar var haldinn 6. apríl 1999 og fyrsti aðalfundur sameinaðs félags var síðan haldinn 28. apríl 1999. Lauk þar með sögu sérstaks verkakvennafélags í bænum.

Seinagangur í innleiðingu vinnutímastyttingar hjá sveitarfélögum

By Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands lýsir áhyggjum vegna seinagangs í innleiðingu vinnutímastyttingar sem á að taka gildi um áramótin. Víða virðist skortur á samráði og framkvæmdin öll í skötulíki. Ályktunin fer hér á eftir.

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af því hvernig gengur að innleiða og skipuleggja styttri vinnuviku hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Í kjarasamningum sem undirritaðir voru síðasta vor var samið um styttingu vinnuvikunnar. Í samningum er lögð áhersla á að það fari fram alvöru samtal milli starfsmanna og stjórnenda um fyrirkomulag og innleiðingu á hverri stofnun/starfsstöð  fyrir sig.

Nú er ljóst að innleiðingin gengur mun hægar en vonir stóðu til hjá sveitarfélögunum og mörg þeirra hafa annað hvort ekki sinnt samningsbundnu samráði við sína starfsmenn eða tekið sér það vald að ákveða fyrirkomulagið án aðkomu okkar fólks.

Fundurinn krefst þess að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem fer með samningsumboð sveitarfélaganna, tryggi að sveitarfélögin í landinu standi við kjarasamninga og tryggi sínum starfsmönnum betri vinnutíma eins og um var samið.

Föstudagspistill forseta ASÍ: Milljarða jólagjöf til hinna ríkustu

By Fréttir

Það er handagangur í öskjunni á Alþingi rétt fyrir jól og möguleikar almennings, til að greina ákvarðanir og veita aðhald, takamarkaðir. Nú stendur fyrir dyrum að létta skattbyrði á þeim allra ríkustu í samfélaginu með því að hækka frítekjumark fjármagnstekna úr 150 þúsund í 300 þúsund og láta það ná til arðgreiðslna og söluhagnaðs. Aðgerð sem kostar ríkissjóð um milljarð á ári á sama tíma og Landspítalinn þarf að hagræða um 4 milljarða. Þetta má setja í samhengi við baráttuna um að ná fram skattalækkunum á þá allra tekjulægstu í samfélaginu samhliða Lífskjarasamningum. Sú skattalækkun var knúin fram í krafti kjaraviðræðna og var hluti af kjarabótum almennings. Samningaviðræður áttu sér stað og Alþýðusambandið lagði fram gögn sem sýndu að skattbyrði hefði aukist á þá sem lægst hafa launin. Það þurfti mikið afl til að breyta skattkerfinu og það var gert til að auka jöfnuð. 

Nú þegar ríkisstjórnin vill létta sköttum á þeim allra ríkustu og þar með veikja tekjustofna ríkisins er ekkert samráð og afar veikur rökstuðningur en jólagjöfin þeim mun veglegri. Í því sambandi má nefna að núverandi frítekjumark fjármagnstekna nýtist 90% framteljenda. Aðgerðin nýtist því 10% tekjuhæstu framteljendunum best. Horfið er af braut jöfnuðar og ekkert sem styður þennan gjörning á tímum þegar ríkissjóður hefur sannanlega ekki efni á að minnka tekjur sínar nema fyrir því séu afar góð rök. Nær væri að efla tekjuöflun ríkisins en með því að veikja tekjustofna sína er ríkið líka að rýra tekjur sveitarfélaga. Fleiri munu falla út af atvinnuleysisbótum og þurfa að treysta á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna auk þess sem þau hafa ríkar skyldur að halda uppi velferð á krepputímum. Á meðan þarf ríkasta fólk landsins, þau sem fá tekjur sínar af peningum og fjármálagjörningum, ekki að greiða útsvar til sveitarfélaga þótt þau nýti þjónustu þeirra á við alla aðra, hvort sem litið er til snjómoksturs eða leik- og grunnskóla.

Þessar áherslur stjórnvalda vekja ekki vonir um að við komumst út úr kreppunni með jafnara og sanngjarnara samfélag. Þvert á móti á að nýta ástandið til að lauma bitlingum til ríkasta fólksins, það er jólagjöfin í ár.