Skip to main content

Category

Fréttir

Allar almennar fréttir

Nú er rétti tíminn til að leiðrétta kjör leikskólastarfsfólks

By Fréttir

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar og trúnaðarmenn í leikskólum í Hafnarfirði hafa samþykkt eftirfarandi ályktun

 

Ályktun stjórnar og starfsfólks í leikskólum í Hafnarfirði

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar og trúnaðarmenn starfsfólks í leikskólum Hafnarfjarðar hvetja bæjarstjórn Hafnarfjarðar til þess að jafna kjör starfsfólks við kjör fólks í sambærilegum störfum í nágrannasveitarfélögunum.

Áform um greiðslu fimm yfirvinnutíma – umfram kjarasamning – er skref í rétta átt, en allt of lítið til þess að brúa þetta bil. Gangi þau eftir, mun eftir sem áður muna tugum þúsunda á mánaðarlaunum almenns starfsfólks í leikskólum í Hafnarfirði annars vegar og nágrannasveitarfélögunum hins vegar.

Þeir sem halda því fram að ekki sé hægt að greiða umfram kjarasamninga, tala gegn betri vitund. Í því sambandi væri áhugavert að skoða hversu margir af starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar fá laun samkvæmt strípuðum töxtum eins og þeir birtast í kjarasamningi viðkomandi starfsmanns. Það væri til dæmis hægt að byrja slíka skoðun í ráðhúsinu.

Á fundum, meðal annars í bæjarstjórn, hafa sumir fulltrúar haldið því fram að leiðrétting af því tagi sem starfsfólkið krefst, raski jafnlaunastefnu Hafnarfjarðar og jafnlaunavottun. Slíkur málflutningur er ótrúlegur og varla til annars ætlaður en að drepa málum á dreif. Jafnlaunastefna gengur ekki hvað síst út á að koma í veg fyrir óútskýrðan mun á launum kvenna og karla. Ef lítilsháttar hækkun á launum láglaunahóps, sem er að stærstum hluta konur, ógnar jafnlaunastefnu Hafnarfjarðarbæjar, þá þarfnast hún augljóslega endurskoðunar.

Það er einlæg von stjórnar félagsins og trúnaðarmanna í leikskólum bæjarins, að bæjarstjórn nýti það tækifæri sem felst í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 til þess að jafna þann mun sem er á launum leikskólastarfsfólks í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélögunum.

Það er auðvelt að eyða þessum mun og núna er rétti tíminn. Leiðrétting kjara þessa hóps væri mikilvægt skref í þá átt að stöðva atgervisflótta úr leikskólum í Hafnarfirði.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um stjórnarsáttmálann

By Fréttir

Miðstjórn ASÍ saknar þess að ekki sé lögð áhersla á að verja opinbera velferðarkerfið og mæta langtímaáskorunum sem felast í húsnæðisvanda, öldrun þjóðar og að styrkja tekjustofna til framtíðar í nýjum stjórnarsáttmála.

Ályktun  miðstjórnar ASÍ er að finna hér fyrir neðan:

Á örlagatímum hefur hreyfing vinnandi fólks lagt áherslu á að verja hið opinbera velferðarkerfi, afkomu fólks og auka jöfnuð í gegnum skattkerfið. Í nýjum stjórnarsáttmála, sem gefinn er út þegar verðbólga er mikil og erfiðar aðstæður á húsnæðismarkaði, er lögð áhersla á að vaxa út úr kreppunni í stað þess að auka álögur. Minna fer fyrir þeim ásetningi að verja opinbera velferðarkerfið og mæta langtímaáskorunum sem felast í húsnæðisvanda, öldrun þjóðar og að styrkja tekjustofna til framtíðar.

Sérstaklega veldur það vonbrigðum að loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana 2019 eru endurunnin og útþynnt í sáttmálanum. Þar ber hæst loforð um húsnæðismarkaðinn og þann kostnað sem heimilin bera, hvort sem fólk er á leigumarkaði eða eignamarkaði. Stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfin mun ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjarasamninga 2022 og 2023.

Hvergi er minnst á að styrkja atvinnuleysistryggingakerfið, setja á leigubremsu á leigumarkað, styrkja vaxtabótakerfið eða skilgreina hlutfall íbúðabygginga á félagslegum grunni. Enn á ný er hins vegar lofað að lögfesta 15,5% framlag launafólks í lífeyrissjóði, loforð sem hefur ítrekað verið svikið, svo og að staðfesta lög gegn kennitöluflakki. Þá hefur kröfum hreyfingarinnar um önnur atriði, svo sem útvíkkun á keðjuábyrgð, framhald átaksins Allir vinna og staðfesting á févíti vegna launaþjófnaðar ekki verið mætt í sáttmálanum.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fagnar því að nú sé kominn til starfa félags- og vinnumarkaðsráðherra sem lýsir áherslum nýrrar ríkisstjórnar á vinnumarkaðsmál. Gríðarlegar áskoranir eru framundan vegna endurnýjunar kjarasamninga næstu tvö árin og réttlátra umskipta vegna tækni- og loftslagsbreytinga. Þar mun öllu máli skipta að vera í góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna, verja sjálfstæði hennar og slagkraft og styrkja möguleika fólks til starfsmenntunar og þátttöku á heilbrigðum vinnumarkaði. 

Miðstjórn Alþýðusambandsins fagnar staðfestingu á auknu samráði við vinnumarkaðinn og er tilbúið til viðræðna um bætt verklag í kjaraviðræðum. Verkalýðshreyfingin mun hins vegar berjast gegn öllum hugmyndum um að auka völd ríkissáttasemjara sem lúta að takmörkun verkfallsréttar eða samningsumboðs og sjá til þess að þær munu ekki ná fram að ganga. 

Alþýðusambandið er tilbúið í alla samvinnu sem lýtur að því að efla sí- og endurmenntun og auka tækifæri fólks til menntunar. Þrátt fyrir yfirlýsingar hefur skort aðgerðir í málaflokknum. Í raun hefur dregið úr stuðningi við framhaldsfræðslu síðustu ár og áratugi svo ekki verður við unað á tímum örra breytinga á vinnumarkaði. Þá er viðvarandi áskorun að vinda ofan af ótryggum ráðningasamböndum, uppgangi gulra stéttarfélaga og gera fólki kleift að njóta þeirra réttinda sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp áratugum saman.

Könnun um stöðu launafólks árið 2021

By Fréttir

Varða, rannsóknarstofnun ASÍ og BSRB á sviði vinnumarkaðar, félags-og efnhagsmála, stendur nú fyrir könnun á stöðu launafólks. Spurt er um tekjur, stöðu á húsnæðismarkaði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu ásamt fleiru.  Könnunin er alls ekki löng og má reikna með að hægt sé að svara henni að fullu á innan við 10 mínútum.  Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.

Könnunin verður opin til 8. desember og er unnt að svara henni á netinu á slóðinni:

https://www.research.net/r/stadalaunafolks2021

Varða gerði sambærilega könnun fyrir ári síðan og er mikilvægt vegna rannsókna á högum launafólks að ná góðri þátttöku.

Unnt er að svara könnuninni á íslensku, ensku og pólsku.  Dregið verður úr svarendum og vinna þrír þátttakenda 30.000 króna gjafakort hver.

Lentir þú í úrtaki? Ertu búin(n) að svara?

By Fréttir

Við minnum þá félagsmenn sem hafa fengið sendan hlekki á könnun frá Gallup um að svara hið fyrsta. Könnunin sem er unnin í samvinnu Verkalýðsfélagsins Hlífar og Stéttarfélags Vesturlands er um ýmis atriði sem snerta kjör og aðstæður félagsmanna.

Með þátttöku í könnuninni lenda þátttakendur sjálfkrafa í happdrættispotti. Sumir vinningar skila sér strax, eftir að spurningum hefur verið svarað, en dregið er um stærri vinningana eftir að könnuninni lýkur. Haft verður samband við vinningshafa.

Það er mikilvægt að sem flestir svari, því niðurstöðurnar verða nýttar til að auka og bæta þjónustuna við félagsmenn. Það tekur ekki langan tíma að svara könnuninni.

Þín svör skipta máli!

is Icelandic
X