Flokkur

Fréttir

Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi

By Fréttir

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og það á tímum kórónuveirufaraldursins, með tilheyrandi nýjum og ýktari birtingarmyndum ofbeldis gegn konum. Á heimsvísu má greina óhugnanlega aukningu á ofbeldi í nánum samböndum og stafrænni kynferðislegri áreitni sem tengist því hversu  margar konur eru bundnar heima við vegna samkomutakmarkanna og útgöngubanna. UN Women hafa nefnt þetta skuggafaraldur kórónuveirunnar.

Verkalýðshreyfingin hefur bent á að konur eru meirihluti þeirra sem starfa í svokölluðum framlínustörfum á tímum veirunnar, þ.e. starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu, fræðslu, þjónustu og verslun, þar sem þær verða fyrir síauknu áreiti og hótunum af hálfu samborgara sinna, sem bætist ofan á hræðslu við smit og almennt andlegt og líkamlegt álag. Þá hefur atvinnuleysi einnig bitnað harkalega á konum.

Alþýðusamband Íslands hefur lýst yfir áhyggjum af neikvæðum áhrifum kórónuveirunnar á kynjajafnrétti enda hefur Ísland ekki farið varhluta af skuggafaraldrinum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu aldrei verið fleiri en nú í ár samanborið við fyrri ár.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) kallar eftir því að ríki fullgildi samþykkt nr. 190 sem þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) samþykkti. Henni er ætlað að vernda fólk gegn ofbeldi og áreitni í öllum myndum í heimi vinnunnar. Í samþykktinni er notast við víða skilgreiningu á „heimi vinnunnar“ með tilliti til þess að í dag fer vinna ekki alltaf fram á eiginlegum vinnustað. Skilgreiningin nær meðal annars yfir ofbeldi og áreitni í vinnutengdum ferðalögum, á leið í og úr vinnu, í húsnæði sem atvinnurekandi útvegar eða í vinnutengdum samskiptum, meðal annars þeim sem fara fram með hjálp upplýsinga- og samskiptatækni.

ASÍ tók þátt í gerð samþykktar nr. 190 um ofbeldi í heimi vinnunnar og skorar á stjórnvöld að vinna markvisst að því að hún verði staðfest af Íslands hálfu sem allra fyrst.

Ólga í leikskólum bæjarins

By Fréttir

Mikil ólga er í leikskólum bæjarins, meðal annars vegna áforma um að hafa skólana opna í allt sumar. Trúnaðarmenn á leikskólum og stjórn félagsins funduðu í gær og þar var samþykkt eftirafarandi ályktun:

Fjölmennur fundur trúnaðarmanna félaga í Verkalýðsfélaginu Hlíf sem starfa á leikskólum í Hafnarfirði, ásamt stjórn félagsins, mótmælir harðlega illa undirbúnum áformum um að hafa leikskóla bæjarins opna í allt sumar. Það er ljóst að þetta mun bitna á faglegu starfi skólanna, raska bæði starfi útskriftarhópa og aðlögun að hausti og breyta leikskólum úr fræðslustofnunum í geymslustaði fyrir börn. Fundurinn hvetur bæjarstjórn til þess að endurskoða ákvörðunina.

Jafnframt harmar fundurinn áhugaleysi bæjaryfirvalda varðandi ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnutímans og bætta vinnustaðamenningu. Fyrsti janúar er skammt undan og sums staðar er undirbúningur mjög skammt á veg kominn. Fundurinn minnir á, að útfærslan á að vera niðurstaða samkomulags á hverjum vinnustað sem bera skal undir atkvæði, en ekki einhliða ákvörðun stjórnenda og yfirmanna.

Að lokum bendir fundurinn á, að leikskólarnir eru verulega undirmannaðir og með auknum kröfum, sem m.a. fylgja kjarasamningum háskólamenntaðs starfsfólks leikskólanna, er stöðugt verið að auka álag á ófaglært starfsfólk leikskólanna. Það gengur ekki endalaust. Fundurinn hvetur bæjaryfirvöld til að taka sér tak og meta þennan hóp starfsfólks að verðleikum, til jafns við aðra. Án þessa hóps væri ekki hægt að halda úti leikskólastarfi í bænum.

Gallup könnun í gangi

By Fréttir

Nú stendur yfir gagnasöfnun vegna könnunar Gallup meðal úrtaks félagsmanna. Könnunin er unnin í samvinnu við Stéttarfélag vesturlands. Félagar sem fá boð um þátttöku eru hvattir til að svara við fyrsta tækifæri.

Þátttakendur lenda í happapotti, þar sem dregið verður um veglega vinninga. Sumir þátttakendur fá jafnframt tilkynningu um vinning strax eftir að þeir hafa svarað spurningalistanum.

Fjármálastofnanir skili vaxtalækkunum til neytenda

By Fréttir

Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega hækkun vaxtaálags banka og krefst þess að fjármálastofnanir skili vaxtalækkunum og lægri bankasköttum til neytenda.  

Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði 2019, Lífskjarasamningunum, var samið um launahækkanir þar sem einkum var hugað að lægstu launum. Samið var um krónutöluhækkanir með það að markmiði að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör almennings í landinu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

Í kjölfar kjarasamninganna vorið 2019 skapaðist svigrúm til lækkunar vaxta eins og til stóð. Vaxtalækkanir hafa gengið eftir en meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 0,75% og hafa lækkað um 3,75 prósentustig frá byrjun síðasta árs. Fyrir komu kórónuveirunnar til landsins lækkuðu meginvextir Seðlabanka Íslands um 1,75 prósentustig, niður í 2,75%.

Því til viðbótar hafa stjórnvöld forgangsraðað þannig að bankaskattur verði lækkaður. Meginrökin fyrir lækkun skattsins eru þau að hann leiði til hærri vaxta til heimilanna. Með lagasetningu er unnið að lækkun bankaskatts sem nemur 7,7 milljörðum króna í fjórum þrepum á árunum 2020–2023 og ákveðið var að flýta þessari lækkun vegna Covid-19. 

Það skýtur því skökku við að bankarnir ákveði við þessar aðstæður að hækka vaxtaálag. Gengur sú aðgerð þvert gegn markmiðum Lífskjarasamningsins og vinnur beinlínis gegn viðspyrnu í kjölfar COVID-kreppunnar. Með þessu taka bankarnir til sín stóran hlut af lækkun vaxta og axla ekki ábyrgð á erfiðum tímum. Á sama tíma eru bankarnir að auka hagnað sinn og eigið fé á kostnað heimila og fyrirtækja í landinu. 

Miðstjórn ASÍ krefst þess að lækkun vaxta skili sér til almennings og að bankar hverfi frá áformum um hækkun vaxtaálags þegar í stað. Að öðrum kosti þarf að endurskoða nálgun stjórnvalda og hverfa frá áformum um lækkun bankaskatts en beita heldur öðrum aðferðum við að tryggja lága vexti til almennings.

Launareiknivél

By Fréttir, Front-right

Starfsgreinasambandið hefur látið setja upp reiknivél þar sem félagsmenn geta reiknað út laun, kannað hvort launaseðlar séu réttir og annað það sem snertir margvíslegar greiðslur. 

Reiknivélin

Leitast hefur verið við að hafa reiknivélina eins einfalda í notkun og kostur er og má því búast við að hún nái ekki utan um öll möguleg tilfelli. Hér er um fyrstu útgáfu að ræða og m.a. á eftir að leggja lokahönd á þýðingar og fleira. Notendur eru beðnir að koma ábendingu og athugasemdum á framfæri á sgs@sgs.is.

Kjarasamningur við Rio Tinto í Straumsvík samþykktur

By Fréttir

Nýr kjarasamningur við Rio Tinto í Straumsvík var samþykktur með ríflega 90% atkvæða. Alls tóku um 70% félagsmanna í Híf og VR sem starfa í álverinu þátt í atkvæðagreiðslunni.

Á sama tíma fór fram atvæðagreiðsla meðal iðnaðarmanna um samning sem þeir gerðu á sama tíma og Hlíf og VR. Iðnaðarmenn samþykktu einnig samninginn með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.