2021

Fyrstu 10 árgangar Hjálms eru komnir á timarit.is. Á árunum 1912-1924 var blaðið handskrifað í innbundna bók og lesið upp í lok félagsfunda. Það er því einungis til í einu eintaki, sem hefur sem betur fer varðveist óskaddað. Nýlega var gerður samningur við Landsbókasafnið um að mynda Hjálm og birta á vefnum timarit.is. Með þessu vinnst tvennt: Annars vegar örugg varðveisla til frambúðar og hins vegar almennur, ókeypis aðgangur að efninu.

Fyrsti ritstjóri Hjálms var Magnús Hallsson. Á fyrstu síðu fyrsta tölublaðs, 25. nóvember 1912 skrifar Magnús nokkur inngangsorð, svohljóðandi:
„Hjer kemur þá í fyrsta sinnið, fyrir sjónir og áheyrn manna og kvenna, hið nýja málgang og unga afkvæmi „Hlífar“ undir nafninu „Hjálmur“. Mönnum mun hafa þótt nafn þetta allvel viðeigandi og rjett tilsvarandi heiti móðurinnar. Gjört mun vera ráð fyrir, að blaðið komi út vikulega til upplesturs, athugunar og umsagnar á fundum félags vors. – Stefnuskrá og tilgangur blaðsins verður einkum og sjerílagi alt það ser lýtur að framför og viðgangi fjelags vors, og eftilvill önnur mál, er kunna að snerta bæjarfélagið í heild sinni og er því æskilegt að sem flestir vildu senda blaðinu stuttar og gagnorðar greinar, er verða mættu að einhverju leiti til uppbyggingar, sem sem ýmsar ráðleggingar, nýjar uppgötvanir til framfara o.s.frv.

Þegar ofangreind mál etv verða fyrir hendi, tekur blaðið þakksamlega á móti fræðandi og skemtandi ritgjörðum, hvers efnis sem vera vill, einnig laglegum skrítlum og gamanvísum ef ekki virðast um of persónulegar eða blekkjandi, til upplestrar við fundarlok körlum þeim og konum til skemtunar er eirð hafa eftir að bíða. Hjálmur vill gjarna, svo sem hver annar hlýðinn viðvaningur taka með þökkum öllum rjettmætum og sanngjörnum leiðbeiningum, er snerta kunna frágang allan á útgáfu hans.“

Fyrsti skammtur er kominn á timarit.is, þ.e. öll handskrifaða útgáfan 1912-1924. Í framhaldinu verða öll tölublöð Hjálms til dagsins í dag sett á sama form.

Hér er hlekkur á fyrsta tölublað.

https://timarit.is/page/7490463#page/n0/mode/2up

Starfsfólki Landsbókasafnsins færum við þakkir fyrir einstaklega snör og fagmannleg vinnubrögð og gott viðmót.

1939

Hlífardeilan 1939

Undir lok 4. áratugar síðustu aldar voru talsverð pólitísk átök í verkalýðshreyfingunni. Bæði deildu fylkingar um forystu í einstökum félögum, en deilurnar hverfðust ekki hvað síst um skipulagsleg tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins. Þeirri skoðun hafði vaxið fiskur um hrygg, að slíta bæri þessi tengsl. Það sjónarmið var stutt jafnt frá hægri sem frá vinstri, jafnt af Sjálfstæðismönnum sem kommúnistum.

Alþýðuflokksmenn sem voru í forystu í Hlíf voru þessu mótfallnir. Á fjölmennum aðalfundi í félaginu þann 29. janúar 1939 vinna þeir sigur í stjórnarkjöri sem slíta vilja tengslin og Helgi Sigurðsson er kjörinn formaður með 16 atkvæðum fram yfir formannsefni Alþýðuflokksins. Sama gildir um aðra stjórnarmenn. Á framhaldsaðalfundi þann 12. febrúar er samþykkt að víkja 12 mönnum úr félaginu, enda séu þeir komnir í atvinnurekendastétt.

Miðstjórn Alþýðusambandsins bregst við daginn eftir með svohljóðandi samþykkt:

„Þar sem Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði hefur vikið burt úr félaginu, án allra saka og bersýnilega af pólitískum ástæðum, 12 mönnum, þ.a.m. mörgum beztu forvígismönnum félagsins að fornu og nýju, og hefur með þessari athöfn brotið gegn 61. og 63. gr. laga Alþýðusambandsins, þá samþykkir sambandsstjórn að víkja Verkamannafélaginu Hlíf úr Alþýðusambandinu og svipta það öllum réttindum sem sambandsfélag.“

Verkamannafélag Hafnarfjarðar

Daginn eftir gengst sambandsstjórn ASÍ fyrir stofnun nýs félags í Hafnarfirði, Verkamannafélags Hafnarfjarðar. Það er þegar tekið inn í Alþýðusambandið, í stað Hlífar. Félagið gerði strax kjarasamning við bæjarfyrirtækin og í samningunum eru ákvæði um forgangsrétt félagsmanna hins nýja félags til vinnu.

Daginn eftir er fjölmennur fundur í Hlíf. Á hann berast úrsagnir 142 verkamanna og 20 millistéttarmanna, eins og segir í frásögn Jóns Rafnssonar. Á fundinum ríkir baráttuandi, þrátt fyrir blóðtökuna. Daginn eftir, þann 16. febrúar átti að hefjast uppskipun úr b.v. Júní. Þann dag eru fjölmargir úr báðum fylkingum mættir á bryggjunni, fleiri Hlífarmenn þó. „Ekki líður á löngu þar til lið VH-manna fer að tínast á burt og Hlífarmenn eru einir með lið sitt á bryggjunni. Hlíf hefur haldið velli í fyrstu lotu.“ (Vor í verum).

Áfram er deilt og stóryrði ganga á milli. Þann 20. febrúar er Hlíf stefnt fyrir Félagsdóm af Bæjarútgerðinni og daginn eftir er Júní afgreiddur á Akranesi, með fulltingi stjórnar ASÍ. Þessar aðgerðir gera ekki annað en efla baráttuanda Hlífarmanna. Þann 25. febrúar fellir Félagsdómur þann dóm að verkfall Hlífar er dæmt ólöglegt (sem var vitað) og félagið var dæmt til að greiða 1000 krónu sekt. Meiru skipti þó, að dómurinn leit svo á, að taxti Hlífar frá 15. september 1937 jafngildi samningi og atvinnurekendur hefðu greitt samkvæmt honum. Þarmeð hefðu þeir undirgengist öll ákvæði, þar með talið ákvæði um forgangsrétt Hlífarmanna til vinnu. Með því að semja við Verkamannafélag Hafnarfjarðar um forgangsréttinn hefðu atvinnurekendur brotið samning á Hlíf.

Hlíf hafði því sigur í deilunni og verkamennirnir úr VH gengur aftur í sitt gamla félag. Skipulagsleg tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins voru að fullu rofin á þingum sambandsins 1940 og ’42. Óhætt er að fullyrða, að Hlífardeilan 1939 gegndi lykilhlutverki í þeirri niðurstöðu.

(M.a. byggt á Vor í verum eftir Jón Rafnsson, bls. 252-270)

1937
No image available

Hér er vígið! Við oss talar
Viðkvæm reynsla um liðna tíð:
Gegnum þrautir grárrar malar,
Gegnum þrjátíu ára stríð,
Félag vort var brautarbending,
Benti á nýtt og fyllra líf.
Þar var ætíð þrautar lending.
Þar var fólksins trausta HLÍF.

Eftir Jóhannes úr Kötlum – ort í tilefni af 30 ára afmæli Hlífar

 

1936
No image available

Var skvaldur mikið, eins og oft vill verða, er margar konur eru saman komnar til kaffidrykkju, því það er eins og kaffið heilli gleði fram í sál og sinni hjá hinum þreyttu verkakonum, er þær koma saman eina kvöldstund til að gleyma áhyggjum lífsins við kaffidrykkju og dans

1931

Í kjarasamningum Hlífar og Framtíðarinnar frá 1931 var 1. maí viðurkenndur frídagur og það ár var í fyrsta skipti efnt til útihátíðahalda. Það var þó ekki næstu ár, heldur voru hátíðahöld innanhúss og var Framtíðin m.a. með basar. Árið 1944 hófst útidagskrá að nýju, með kröfugöngu, undir forystu fulltrúaráðsins.

„Dagheimilismálinu var fyrst hreyft á félagsfundi í Framtíðinni í marz 1932. Þá vakti Sigríður Erlendsdóttir máls á því, hvort félagið mundi ekki vilja beita sér fyrir því að koma á fót dagheimili fyrir börn vinnandi kvenna í bænum. Hún kvað brýna þörf vera á slíku heimili, og æskilegt væri, að þær konurnar hefðu fogöngu um að hrinda þessu máli í framkvæmd.

                Dagheimilið tók til starfa vorið 1933. Forstöðukona þess var Þuríður Guðjónsdóttir kennari, og auk hennar starfaði önnur kona við dagheimilið. Það var til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu. Dagheimilið starfaði sumarið 1933 frá 19. maí til 15. ágúst. Alls voru þar 19 börn, mismunandi lengi. Flest voru þau 15 í einu, en lengst af 12. Börnin komu á morgnana kl. hálfátta til níu, eftir því hvernig viðraði, og fóru aftur heim til sín kl. 6 að kvöldi.“

Úr afmælisriti Framtíðarinnar frá 1985.

1925

Þann 3. desember 2020 voru liðin 95 ár frá því að Verkakvennafélagið Framtíðin var stofnað, en stofnfundurinn var haldinn þann dag árið 1925. Fram að því voru hafnfirskar verkakonur í Verkamannafélaginu Hlíf. Félagið starfaði allt til ársins 1999, þegar það sameinaðist Hlíf að nýju og úr varð Verkalýðsfélagið Hlíf.

Skömmu eftir að Verkamannafélagið Hlíf var stofnað snemma árs 1907, fóru konurnar í félaginu í verkfall. Það var fyrsta vinnustöðvun íslenskra verkakvenna sem sögur fara af. Tilefnið var að atvinnurekendur voru ekki tilbúnir að fallast á auglýsta kauptaxta Hlífar fyrir konur. Um þetta leyti voru konurnar í Hlíf um 70-80, sem var nálægt þriðjungur félagsmanna.

Aftur í verkfall

Konurnar endurtóku leikinn næst þegar kauptaxti var gefinn út, fimm árum síðar. Þá neituðu atvinnurekendur að fallast á að hækka laun kvenna úr 15 í 18 aura á tímann og jafnframt að greiða sérstakt nætur- og helgidagakaup. Þeir héldu því fram, að ekki væri hægt að ráða gamlar konur og ungar stúlkur upp á þau býti. Verkfall hófst 1. mars 1912 og stóð allt til 11. apríl, en þá létu atvinnurekendur undan og konurnar náðu flestum sínum kröfum fram. Oft er fjallað um þetta sem fyrsta verkfall íslenskra kvenna, en það er ekki alls kostar rétt, í ljósi þess að konur í Hlíf lögðu áður niður vinnu fimm árum áður eins og áður kemur fram.

Fjórar konur áttu sæti í stjórn Hlífar frá 1913 (ekki er vitað um árin á undan): Sesselja Magnúsdóttir 1913-1914, Lára Jörundardóttir 1920-1921, Jóhanna Eiríksdóttir 1920-1921 og Helga Þórðardóttir 1921-1922. Um tíma var rætt um að deildaskipta félaginu og að konur mynduðu þá sérstaka deild, en af því varð ekki. Þar kom aftur á móti, að konur töldu hagsmunum sínum betur fyrir komið ef þær væru í sérstöku félagi. Þetta var gert í góðu samkomulagi við stjórn Hlífar.

Kröfðust launajafnréttis

Stofnfundur Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar var haldinn 3. desember 1925 í húsi Hjálpræðishersins við Austurgötu 24 (nú Austurgata 26) í Hafnarfirði. Við félagsstofnunina nutu konurnar liðsinnis kvenna úr Framsókn í Reykjavík. Á fundinum munu hafa verið ríflega 70 konur, en 83 eru skráðar stofnfélagar. Fyrsti formaður félagsins var kjörin Sigrún Baldvinsdóttir, en hún var systir Jóns Baldvinssonar, forseta ASÍ. Aðrar konur í fyrstu stjórn voru Guðlaug Narfadóttir Bachmann, Guðfinna Ólafsdóttir, Jónína Sigurðardóttir og Sigurrós Sveinsdóttir, sem var varaformaður.

Í fyrstu lögum félagsins, sem voru samþykkt á fyrsta félagsfundi nokkrum dögum síðar, kom fram að tilgangurinn væri að styðja og efla hag félagskvenna og menningu eins og kostur væri á. Meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því að verkalýðurinn tæki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og bæjarfélags.

Félagið setti strax fram þá kröfu að konur fengju sama kaup og karlar fyrir sömu vinnu. Fyrsta áfanganum að launajafnrétti var þó ekki náð fyrr en árið 1954. Í kjarasamningi sem þá var gerður, kom fram að greiða skyldi karlmannskaup fyrir fiskþvott, fyrir að kasta fiski upp á bíla og hengja fisk á trönur og ári síðar kom inn ákvæði um karlmannskaup við vinnu við alla blautskreið.

Dagheimilið á Hörðuvöllum

Framtíðin lét til sín taka á mörgum sviðum í bæjarlífinu, til viðbótar við baráttuna fyrir bættum kjörum. Þar má nefna reglulegar skemmtanir, bæjarpólitíkina og fleira. Eitt merkilegasta framlag félagsins hlýtur þó að teljast stofnun og rekstur dagheimilisins á Hörðuvöllum. Málinu var fyrst hreyft á félagsfundi árið 1932 og síðan aftur ári síðar en þá samþykkti félagsfundur að fela stjórninni að stofna dagheimili fyrir börn. Heimilið tók til starfa þá um vorið. Það var fyrst til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu og starfaði fyrsta sumarið frá 19. maí til 15. ágúst. Lengst af voru börnin 12, en flest 15. Þau komu á morgnana, á bilinu frá hálfátta til níu og fóru heim um sexleytið. Félagið fékk síðan lóð á Hörðuvöllum og var smíði dagheimilis hafin í mars 1935 og starfsemi hófst í nýja húsinu 2. maí 1935.

Dagheimilið starfaði með líku sniði til haustsins 1939, en starfsemin lá niðri á stríðsárunum. Það var síðan opnað að nýju vorið 1945 og var þá opið í þrjá mánuði. Haustið 1948 hófst síðan heilsársstarfsemi á Hörðuvöllum. Vorið 1956 var hafist handa við stækkun dagheimilisins. Viðbyggingin var tekin í notkun 18. júlí 1957. Á engan er hallað, þótt því sé haldið fram að Sigríður Erlendsdóttir hafi verið helsti hvatamaður að stofnun heimilisins.

Undir lok 20. aldar varð allmikil bylgja sameininga verkalýðsfélaga um land allt, sem meðal annars leiddi til viðræðna um slíkt í Hafnarfirði. Viðræðurnar urðu til þess að Verkamannafélagið Hlíf og Verkakvennafélagið Framtíðin sameinuðust í Verkalýðsfélaginu Hlíf. Síðasti aðalfundur Framtíðarinnar var haldinn 6. apríl 1999 og fyrsti aðalfundur sameinaðs félags var síðan haldinn 28. apríl 1999. Lauk þar með sögu sérstaks verkakvennafélags í bænum.